Gerður Aagot Árnadóttir
Gerður Aagot Árnadóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Gerður Aagot Árnadóttir og Halldór Sævar Guðbergsson skrifa um hagsmuni fatlaðra: "Það er sameiginlegt verkefni okkar allra að sjá til þess að fatlað fólk á Íslandi skaðist ekki í þeim efnahagsþrengingum sem við göngum nú í gegnum."

UNDANFARIN ár hefur ríkt almenn hagsæld á Íslandi. Umsvif hafa verið mikil í samfélaginu, hagur margra hefur vænkast og kaupmáttur aukist. Ekki nutu þó allir landsmenn gæðanna í sama mæli. Þrátt fyrir góða stöðu ríkissjóðs er það staðreynd að fjármagn til þjónustu við fólk með þroskahömlun, einhverfa og fjölfatlað fólk hefur ekki verið í neinu samræmi við þörf.

Hér á landi ættum við að hafa alla burði til að búa fötluðu fólki góð lífskjör en það höfum við ekki gert. Sú staðreynd er sárgrætileg nú þegar hin alvarlega efnahagskreppa hefur skollið á íslenskt samfélag. Hvað verður um fatlað fólk nú þegar á bjátar í íslensku efnahagslífi? Hvernig getum við tryggt hagsmuni þessa fólks best á samdráttartímum? Og verkefni hverra er það?

Nú reynir á að við sem þjóð stöndum vörð um rétt fatlaðs fólks til þjónustu sem tryggir því möguleika til að lifa eðlilegu lífi. Nú reynir á baráttuna fyrir mannréttindum fatlaðs fólks í samræmi við íslensk lög og nýsamþykktan samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks.

Og við verðum að ganga til verka. Það er nefnilega svo að í kreppunni leynast líka ýmis tækifæri. Við búum við þær aðstæður að það er ofgnótt húsnæðis á íslenskum húsnæðismarkaði og staða byggingariðnaðarins er slæm. Þar gefast tækifæri til að bæta húsnæðismál fatlaðs fólks með leiðum eins og þeim að opinberir aðilar ýmist kaupi húsnæði eða taki húsnæði á langtímaleigu í þágu fatlaðs fólks eða að menn breyti hinu opinbera regluverki þannig að fatlað fólk geti í auknum mæli keypt sínar eigin íbúðir eða tekið á kaupleigu. Slíkar aðgerðir eru ekki einungis í þágu fatlaðs fólks heldur í þágu samfélagsins alls.

Þá er það ljóst að vaxandi atvinnuleysi er líklegt til að minnka þá manneklu sem nú er til staðar í þjónustu við fatlað fólk. Þar getum við átt von á að fá til starfa bæði fagmenntað fólk og ófaglært. En við verðum líka að nota tækifærið og gera þessi störf meira aðlaðandi til að fólk haldist í vinnu. Þá þarf að meta slík störf að verðleikum og horfa til þeirra miklu verðmæta sem felast í virkri þátttöku fólks í samfélagi okkar og lífsgæðum, óháð fötlun.

Ef vilji er fyrir hendi má finna ýmis tækifæri í kreppunni sem bætt geta lífsaðstæður fólks sem býr við hvers konar fötlun. Það er brýnt að við höldum vöku okkar og tryggjum að hagsmunir þessa hóps gleymist ekki og verði ekki ýtt til hliðar þegar uppbyggingarferlið hefst eftir þá erfiðleika sem við nú göngum í gegnum. Það er ekki réttlætanlegt að fatlað fólk verði látið sitja eftir við lakari lífsaðstæður en annað fólk. Það er nefnilega svo að ef okkur Íslendingum tekst vel upp í uppbyggingarferlinu gæti okkur tekist að skapa í framtíðinni samfélag hér á landi sem leggur ríkari áherslu á jöfnuð, samkennd og mannvirðingu en það samfélag okkar sem virtist að mestu stjórnast af einstaklings- og peningahyggju og sem hefur nú liðið undir lok. Svo kannski býr einmitt margt gott í framtíðinni þó dagurinn í dag sé okkur erfiður. Við verðum bara að tryggja að fólk sem býr við fötlun njóti þeirrar framtíðar og skaðist ekki í því breytingaferli sem nú er í gangi. Það felast svo ótal mörg tækifæri í framtíðinni og þau þurfum við að grípa og skapa fólki betri lífsgæði, betri þjónustu, betra líf.

Það er sameiginlegt verkefni íslenskra stjórnvalda, hagsmunasamtaka, okkar sem erum aðstandendur og vinir fólks með fötlun, fötluð sjálf, meðborgarar, okkar allra sem byggjum þetta land, að sjá til þess að fatlað fólk á Íslandi skaðist ekki í þeim efnahagsþrengingum sem við göngum nú í gegnum. Markmið okkar á að vera að tryggja fötluðu fólki jafnrétti og sambærileg lífskjör á við annað fólk og skapa þau skilyrði sem gera fólki kleift að lifa eðlilegu lífi. Þá baráttu þurfum við öll að heyja sameiginlega með mannréttindi, mannvirðingu og lífsgæði einstaklinganna að leiðarljósi.

Gerður er formaður Landssamtakanna Þroskahjálpar. Halldór er formaðir ÖBÍ.

Höf.: Gerður Aagot Árnadóttir, Halldór Sævar Guðbergsson skrifa um hagsmuni fatlaðra