Þorgerður Bergsdóttir fæddist í Reykjavík 24. maí 1928. Hún andaðist á Sjúkrahúsi Akraness 6. október síðastliðinn og var útför hennar gerð frá Akraneskirkju 10. október.

Eftir því sem árin líða fækkar samferðamönnunum okkar og þar með rýrna lífsgæði okkar sem eftir lifa, því þeir einstaklingar sem hverfa skilja eftir sig stórt skarð. Eftir rúmlega 50 ára samleið hefur kær mágkona kvatt eftir löng og ströng veikindi.

Þegar ég ung og óreynd hóf búskap á Akranesi tók hún mér opnum örmum og þótt hún væri ekki miklu eldri en ég tók hún við af móður minni að stappa í mig stálinu, þegar mér fannst húsmóðurstarfið vaxa mér yfir höfuð. Hún var þolinmóð, hjálpsöm, örlát og gestrisin og það fundu þeir sem í kringum hana voru.

Þrátt fyrir knöpp kjör lengi vel tókst þeim hjónum, Stellu og Hannesi, að koma sex börnum til manns og bera þau foreldrum sínum fagurt vitni. Þegar börnin uxu úr grasi og efnahagur batnaði hófu þau að ferðast vítt og breitt um landið í góðra vina hópi og tóku mikið af myndum sem gaman var að skoða með þeim. Einnig voru þau bókhneigð og áttu orðið gott bókasafn. Stella var að auki ljóðelsk, sem var eitt af því sem við áttum sameiginlegt og það var hún sem gaf mér ljóðasöfn Tómasar Guðmundssonar og Steins Steinars.

Á erfiðum stundum í mínu lífi kom hún og huggaði orðalaust. Ég á henni margt að þakka og hef margs að sakna en ylja mér við minningarnar.

Elsku Stella, hvíl í friði.

Inga mágkona.

Það er alltaf sárt að missa ástvini. Í gegnum hugann fara allar minningarnar og tilhugsunin um að þær verði engu fleiri er sársaukafull. Ég hef þó kvatt alla mína ástvini, sem ég hef fengið að kveðja, með orðinu „sjáumst“, því ég er bara einfaldlega alveg handviss um það að eitthvað tekur við eftir þessa dvöl. Ég man svipinn á ömmu Stellu þegar ég sagði þetta við hana, þó ég væri á leið úr landi og hér um bil víst að við sæjumst ekki aftur í þessu jarðlífi. Hún varð svo hissa! En síðan verður það hún amma sem tekur á móti mér þegar ég fer og segir mér að ég hafi haft rétt fyrir mér.

Amma var orðin lasin. Þótt hún væri þetta veik undir það síðasta sá maður í augum hennar sátt og gleði, enda kvaddi hún heiminn umvafin ást. Krakkarnir hennar sátu hjá henni dag og nótt. Amma átti góða að og var sannarlega elskuð.

Minningarnar um ömmu eru margar. Í fyrsta lagi er ómögulegt annað en að sjá ömmu fyrir sér með annað hvort svuntu eða prjóna því hún sat aldrei aðgerðarlaus. Amma ber enda ábyrgðina á því að við krakkarnir erum nú algjörlega orðin háð ullarvettlingum og skiljum ekki hvernig fólk fer að sem ekki á prjónandi ömmu! Amma var alltaf hlý og góð við okkur grísina og alltaf með hlaðborð af kræsingum hvenær sem kíkt var inn. Í stofunni ómaði útvarpið, yfirleitt alltaf rás eitt, og oftar en ekki falleg íslensk lög sungin listilega. Það er eitthvert samasemmerki á milli ömmu og afa og Íslands. Þau unnu landinu og ferðuðust víða. Þau voru bókaunnendur og talsmenn alþýðunnar. Þau upplifðu misjafna tíma og náðu vonandi að innprenta á einhvern hátt inn í komandi kynslóðir þá nauðsyn að kunna að njóta þess sem maður hefur, fara vel með sitt og læra hver hinn sönnu gildi eru í lífinu. Þetta þurftu þau ekki að gera með lexíum heldur með því að sýna okkur gott fordæmi. Áður en ég fór sagði amma mér að hún hefði aldrei farið út fyrir landsteinana. Amma þú varst heppin, því ef maður fær bara að heimsækja eitt land um ævina, þá er ekki til betra land en Ísland. Þetta held ég að þú hafir nú vitað.

Elsku amma. Nóttina sem þú fórst dreymdi mig að amma Sara kæmi að sækja þig. Ég veit að nú líður þér vel. Sjálfsagt hefur afi beðið þín á hestbaki í grænni fjallshlíð, brosandi. Hann hefur komið þeysandi við komu þína, að sjálfsögðu á íslenskum hesti, og kysst þig eins og hann hafi ekki séð þig í nokkur ár!

Takk fyrir allt. Takk fyrir að hafa gefið mér pabba, þennan yndislega mann! Takk fyrir umhyggjuna, pönnsurnar, vettlingana, brosin og þær lífslexíur og minningar sem munu ylja mér og styrkja það sem eftir er ævi minnar.

Sara.