Eftir Kristínu Heiðu Kristinsdóttur
khk@mbl.is
Dætur mínar eru svo fordekraðar. Ég hef séð um að gera við sokka og önnur plögg af börnunum þeirra hingað til, en núna er kominn tími til að þær læri að gera þetta sjálfar,“ segir Helga Árnadóttir fyrrum heimilisfræðikennari sem kallaði dætur sínar fjórar, tvær ömmustelpur og eina ská-tengdadóttur til sín eitt kvöld í síðustu viku til að kenna þeim að baka hollt brauð í kreppunni og að stoppa í sokka. „Nú eru tímarnir þannig að það er full ástæða til að taka upp fyrri búskaparhætti í þessum efnum. Þegar dætur mínar voru litlar stúlkur var nýtnin í fyrirrúmi. Ég stoppaði tvisvar til þrisvar sinnum í sokkana þeirra áður en ég henti þeim. Og mér fannst það alltaf svolítið gaman, þetta er róandi rétt eins og aðrar hannyrðir. Og það er ekkert mál að stoppa í bómullarsokka, rétt eins og prjónaða sokka. Hér áður fyrr var meira að segja hægt að fara með nælonsokkabuxur í viðgerð á marga staði og þar voru sérstakar vélar til þess, en sjálf stoppaði ég í göt á tám og hælum nælonsokkanna minna svo þeir entust lengur.“
Hafið þið soðið niður svið?
Elsta systirin var komin með tvítuga veiðisokka pabba síns til viðgerðar, en hún notar þá í gönguferðum. „Þeir hafa verið svo mikið notaðir að það hefur tvisvar verið prjónað neðan við þá síðan ég fékk þá. Þess á milli hefur mamma stoppað í þá. Þessir sokkar vöktu ómælda ánægju og öfund á Hornströndum í sumar, þegar ég var þar í gönguferð.“Fyrrum sokkaeigandinn og húsbóndinn á heimilinu, vogar sér fram í eldhús eitt augnablik en honum hafði verið vinsamlega vísað þaðan skömmu áður. „Ég var látinn stoppa í sokka og prjóna leppa þegar ég var strákur,“ segir hann nokkuð hróðugur yfir kunnáttunni og spyr síðan í framhaldi af umræðu um gamla matarsiði: „Hafið þið soðið niður svið?“ Með spurningunni vísar hann í fyrirsögn úr Birtingi sem hann hafði lesið forðum í Dölunum. Sjálfur sagðist hann ekki kunna að sjóða niður svið en tók fram að á sínum bernskudögum hefðu sviðin bæði verið söltuð og súrsuð.
Bláber beint úr Bjarnarfirði
Helga er fljót að þagga niður í bónda sínum enda nóg að gera. Hún er mikil búkona og hefur ýmis góð ráð í komandi þrengingum.„Í kreppu á að fara út í náttúruna og tína ber og búa til saft og sultur eða frysta þau fersk. Ég ætla að bjóða ykkur upp á bláber á eftir sem áttræð frænka tíndi í Bjarnarfirði á Ströndum í haust en ég skellti þeim beint í frystinn svo þau eru án alls sykurs og fjarska góð með rjóma.“ Í beinu framhaldi af berjatali rifja dæturnar upp bernskuár þar sem þær voru neyddar til að tína óskaplega mikið af bláberjum. „Svo þurftum við að borða bláberjasúpu annan hvern sunnudag allan veturinn,“ segja þær og skellihlæja en Helga kannast ekki við að hafa þrælað þeim út við berjatínslu.
Fór í nám eftir fimmtugt
Helga vann sem kennari í hálfa öld við Grunnskólann í Vogum á Vatnsleysuströnd þar sem hún bjó ásamt Jóni bónda sínum og ól upp dæturnar fjórar. Hún kenndi frá átján ára aldri, flest árin við almenna kennslu en seinni hlutann starfaði hún sem heimilisfræðikennari. „Þegar stelpurnar voru farnar að heiman og ég var orðin fimmtug fékk ég frí frá kennslunni í eitt ár og skellti mér í Kennaraskólann og lærði að verða heimilisfræðikennari. Ég flutti til Reykjavíkur inn á tvær dætur mínar sem þar bjuggu og þetta var mjög skemmtilegur vetur. Við vorum tvær konur sem tókum þessa þrjá bekki á einum vetri og vorum ansi ánægðar með okkur. Það var mikil áhersla lögð á hollustu í náminu, bæði að minnka sykur og fitu í matargerð en það var ekkert lífrænt eða neitt svoleiðis, eins og er svo vinsælt núna. Ég þori ekki annað en að baka brauðið í kvöld einvörðungu úr lífrænu hráefni, því ein dætra minna borðar bara lífrænt,“ segir Helga og hlær að þægð sinni við afkvæmin.
Mamma er svo bóngóð
Upphefjast nú miklar umræður og sögur af bakstri og svignandi borðum undan hnallþórum. Elsta dóttirin rifjar upp þegar hún ein jólin hjálpaði móður sinni við að baka sextíu tertubotna, sem urðu að þrjátíu tvöföldum kökum.Einhverjar dætranna segjast alveg kunna að baka brauð þótt þær hafi kannski ekki stundað það af miklum móð og aðrar segjast ekki kæra sig um að læra að stoppa í. „Mér finnst voða gott að geta sent börnin í götóttum buxum til ömmu sinnar og krakkarnir vilja líka að hún geri við, af því að hún er langflinkust í þeim efnum. Mamma er svo bóngóð. Henni finnst líka svo gaman að koma til okkar og baka með börnunum okkar, við verðum að leyfa henni að gera það áfram,“ segir ein þeirra en önnur dótturdótturin var í þó nokkrum mótþróa og sagðist ekki ætla að baka brauð, ekki taka slátur og ekki ætla að gera sultur, þó hún ætti fulla frystikistu af rabarbara. Hún ætlaði bara að láta eiginmanninn um þetta stúss.
„Þið eruð nú alveg kostulegar,“ segir Helga og hristir höfuðið.
Holla brauðið
1 dl haframjöl
1 dl fræ (eftir eigin vali en fjölkornablanda er tilvalin)
3 tesk. vínsteinslyftiduft
1 tesk. salt
3 dl Ab-mjólk
3 dl sjóðandi vatn
(þeir sem vilja geta skorið niður döðlur og bætt út í deigið)
Hrært lauslega saman, sett í form, frekar tvö eða þrjú lítil en eitt stórt, bakað í 20-25 mínútur við 200 gráður (180 gráður ef blástursofn.) Um að gera að borða eitt brauð alveg nýtt en frysta hin.
Rúgbrauð
200 gr. hveiti
100 gr. heilhveiti
200 gr. púðursykur
4 tesk. lyfitduft
1 lítri mjólk
1 tesk. salt
Loka fernunum vel, annaðhvort með álpappír eða hvolfa hálfum fernum yfir.
Látið í heitan ofn, bakað við 100-120 gráður í tólf klukkustundir. Einnig er hægt að baka brauðið í steikingarpotti.