Gylfi Zoëga
Gylfi Zoëga
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Gylfa Zoëga og Jón Daníelsson: "...er bráðnauðsynlegt að grípa nú þegar til ráðstafana til þess að vernda fjölskyldur og þau fyrirtæki og atvinnugreinar sem samfélagið hefur mikla hagsmuni af að vernda."

RÆTUR þeirrar kreppu sem nú er hafin liggja í skuldsetningu banka, fyrirtækja og heimila sem varð til við umfangsmiklar fjárfestingar hér á landi sem erlendis. Lán voru tekin til þess að fjármagna kaup á fyrirtækjum, fasteignum og hlutabréfum. Allt gekk vel meðan verð á þessum eignum fór hækkandi vegna þess að á fjármálamörkuðum var gnægð fjármagns á lágum vöxtum. En sú lækkun á skuldabréfamörkuðum um allan heim og meðfylgjandi skortur á lausafé, sem hófst á fyrri hluta ársins 2007, hefur valdið fjármálastofnunum um allan heim tjóni og jafnframt dregið mjög úr vilja þeirra til þess að lána hver annarri fjármagn. Þetta er sú lausafjárþurrð sem hrjáði viðskiptabankana okkar síðasta árið og olli að lokum gjaldþroti þeirra.

Um mitt síðasta ár varð viðsnúningur. Hlutabréfavísitalan íslenska hefur á rúmlega ári farið úr því að vera nálægt 9.000 í rúmlega 600, hlutabréfamarkaðurinn er nú að mestu hruninn. Fasteignaverð hefur lækkað og mun lækka enn meira á næstu mánuðum. Verðmæti fyrirtækja, innlendra og einnig erlendra, hefur lækkað mikið. Erlendar eignir íslenskra fyrirtækja eru nú minna virði en áður og sumar höfðu verið keyptar á háu verði. Fjölskyldur, sem áður prísuðu sig sælar þegar fasteignaverð hækkaði og tóku lán til þess að fjármagna einkaneyslu, sjá margar hverjar fram á neikvæða eiginfjárstöðu, skuldirnar eru meiri en eignirnar. Fyrirtæki í margvíslegum rekstri eru einnig með slaka eiginfjárstöðu. Gengistryggð lán hafa hækkað mikið á þessu ári og slíkt veldur skjótri rýrnun eiginfjár fyrirtækja og fjárhagslegum hremmingum fjölskyldna.

Á næstu vikum og mánuðum mun mikill fjöldi fyrirtækja og jafnvel heilu atvinnugreinarnar komast í þrot ef ekki er gripið til aðgerða. Keðjuáhrif geta orðið þegar gjaldþrot eins fyrirtækis veldur gjaldþroti annarra. Atvinnuleysi mun aukast mikið og sú aukning er þegar hafin. Mikilvægt er að varðveita þau fyrirtæki sem eiga framtíð fyrir sér í nýju hagkerfi þar sem gengi verður lægra; innflutningur minni og hagur af útflutningi mun meiri. Gjaldþrot slíkra fyrirtækja felur í sér tjón fyrir samfélagið þegar innviðir, tengslanet og sértæk þjálfun starfsfólks glatast. Félagslegar og sálrænar afleiðingar atvinnuleysis eru alvarlegar fyrir bæði þá sem fyrir því verða og einnig fyrir fjölskyldur þeirra.

Fjöldi heimila stendur frammi fyrir mikilli skuldabyrði, sérstaklega þær fjölskyldur sem hafa fjármagnað kaup á húsnæði með gengistryggðum lánum. Fjárhagslegir erfiðleikar valda yfirleitt kvíða og erfiðleikum innan fjölskyldna sem bitna mest á þeim sem síst skyldi.

Hruni fjármálakerfisins undanfarna mánuði má líkja við náttúruhamfarir sem ekki var unnt að sjá alveg fyrir. Þótt stjórnvöld hefðu getað gripið til ýmissa fyrirbyggjandi ráðstafana er ekki hægt að ætlast til þess að einstakar fjölskyldur og jafnvel fyrirtæki hafi séð þessar hremmingar fyrir. Því tjóni sem orðið hefur má því líkja við náttúruhamfarir.

Af þeim ástæðum sem hér hafa verið taldar er bráðnauðsynlegt að grípa nú þegar til ráðstafana til þess að vernda fjölskyldur og þau fyrirtæki og atvinnugreinar sem samfélagið hefur mikla hagsmuni af að vernda. Við viljum leggja til við stjórnvöld að þau grípi sem fyrst til eftirfarandi ráðstafana:

Í fyrsta lagi verði sett lög sem tímabundið (t.d. í sex til tólf mánuði) verndi einstaklinga og fyrirtæki í greiðsluerfiðleikum fyrir ágangi kröfuhafa.

Í öðru lagi verði skuldurum í ríkisbönkum, bæði einstaklingum og fyrirtækjum, gefinn kostur á greiðsluaðlögun, svo sem í formi greiðslufrests, lengingar lána og gjaldmiðilsbreytingar lána.

Í þriðja lagi geti heimilin farið fram á færslu húsnæðislána í Íbúðalánasjóð með viðeigandi lagfæringu á greiðslukjörum, svo sem lánalengingu og greiðslufrestun. Stjórnvöld hafa þegar gripið til aðgerða í þessa átt.

Í fjórða lagi bjóði hið opinbera fyrirtækjum upp á ódýrt lánsfé í krónum og/eða bjóðist til þess að leggja fram nýjan eignarhlut í fyrirtækin. Mikilvægt er að ákvörðun um veitingu slíks stuðnings og fjárhæðir séu teknar af fagfólki sem leggur mat á arðsemi og verðmæti viðkomandi fyrirtækja. Ekki er skynsamlegt að styrkja þau fyrirtæki sem ekki eiga framtíð fyrir sér í hinu nýja hagkerfi þar sem útflutningur mun skipta höfuðmáli.

Ríkisvaldið getur prentað krónur til þess að lána skuldsettum fyrirtækjum á lágum vöxtum. Þessi lán geta verið til nokkurra ára og ekki krafist afborgana fyrstu sex mánuðina. Með lánveitingunni er fjármagnskostnaður fyrirtækjanna lækkaður. En sennilega þurfa mörg fyrirtæki einnig á nýju eiginfé að halda. Þá getur ríkisvaldið prentað krónur til þess að fjárfesta í fyrirtækjum og eignast þá tímabundið hlut í þeim sem unnt er að selja þegar efnahagsþrengingum er lokið.

Í fimmta lagi verði heimilum gefinn kostur á að Íbúðalánasjóður kaupi hlut í fasteignum þeirra sem þau gætu síðan keypt aftur á markaðsverði þegar fjárhagsstaða þeirra hefur batnað. Umbreyting lána í eignarhlut kæmi einnig til greina.

Með þessum aðgerðum væri unnt að vernda fjölskyldur og atvinnu þess fólks sem vinnur í arðbærum en skuldsettum fyrirtækjum. Mikilvægt er að langtímaáhrif þeirrar tímabundnu fjármálakreppu sem nú geisar verði sem minnst; sem fæstir einstaklingar verði fyrir persónulegum áföllum og sem flest góð, arðbær og vel rekin fyrirtæki starfi áfram.

Gylfi er prófessor við Háskóla Íslands. Jón er prófessor við London School of Economics.

Höf.: Gylfa Zoëga, Jón Daníelsson