Ánægð Anna Bergsdóttir, skólastjóri Grunnskóla Grundarfjarðar, er ánægð með samvinnu skóla á Snæfellsnesi.
Ánægð Anna Bergsdóttir, skólastjóri Grunnskóla Grundarfjarðar, er ánægð með samvinnu skóla á Snæfellsnesi. — Morgunblaðið/Gunnar Kristjánsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Samstarf milli skólastiga og ólíkra skóla eflir skólastarf á Grundarfirði að mati skólastjórans. Samstarf og nýsköpun nær jafnt til bóklegra sem verklegra greina, þar sem krakkarnir „njóta sín í botn“ og sköpunargáfan nýtur sín.

Eftir Gunnar Kristjánsson

Það er svo margt spennandi að gerast hjá okkur,“ segir Anna Bergsdóttir, skólastjóri Grunnskólans í Grundarfirði. Hún segir samstarf milli skólanna á Snæfellsnesi og sunnanverðum Vestfjörðum töluvert og nefnir sem dæmi svokallaða dreifmennt sem m.a. felur í sér að nemendur í Grundarfirði fá dönskukennslu í gegnum fjarfundarbúnað, enda dönskukennarinn búsettur á Patreksfirði. Anna segir þetta sams konar fyrirkomulag og tíðkist í nokkrum námsgreinum við Fjölbrautaskóla Snæfellinga og þannig sé þetta undirbúningur fyrir námið og vinnubrögð þar. Verkefnum er síðan skilað í gegnum gagnvirk tölvusamskipti.

Flýta fyrir sér í framhaldsnámi

Anna segir gott samstarf hafa skapast milli grunnskólanna á Snæfellsnesi og Fjölbrautaskóla Snæfellinga, FSN. „Nemendur í níunda og tíunda bekk grunnskólanna eiga þess kost að sækja áfanga í ensku og stærðfræði þar og geta verið búnir með sex til tíu einingar þar þegar þau ljúka sínu grunnskólanámi,“ segir Anna. „En áherslan er ekki eingöngu á bóklegt nám,“ segir hún því í skólanum eru sex krakkar úr 8.-10. bekk í starfsnámi sem þau geta valið „og ég get sagt þér að þar komast færri að en vilja.“

Í starfsnáminu, sem Pétur G. Pétursson sérkennari hefur umsjón með, eru börnin að hluta til með sínum jafnöldrum í kennslustundum en í öðrum fá þau einkakennslu eins og í íslensku, ensku, stærðfræði og lífsleikni. „Síðan er mikil áhersla lögð á verklega kennslu hinna ýmsu iðngreina þar sem þau njóta sín í botn,“ segir Anna.

Fleiri samstarfsverkefni

Orð af orði er enn eitt samstarfs- og þróunarverkefni grunnskólanna á Snæfellsnesi sem byggist á því að auka orðaforða og bæta lesskilning en verkefnið hófst í haust. „Ég var að fá það staðfest af bókasafninu að verkefnið er þegar farið að skila sér í auknum lestri bóka,“ segir Anna.

Að sögn Önnu felst verkefnið í því að markvisst er unnið með þessa þætti í tengslum við sem flestar námsgreinar þar sem nemendurnir þurfa sérstaklega að vinna með orðaforða og lesskilning.

Annað samstarfsverkefni hefur staðið yfir í nokkur ár en það er verkefnið Brúum bilið og það verkefni byggir á samstarfi grunnskólans okkar og leikskólans. Anna segir um að ræða markvissan undirbúning leikskólanema að hefja nám í grunnskóla sem byggist á vinnu leikskólakennaranna og síðan gagnkvæmum heimsóknum milli nemenda skólanna. „Og á vorin setjast síðan elstu leikskólanemarnir á skólabekk í eina viku í grunnskólanum og búa sig undir það sem koma skal að hausti.“

Heilsuefling og kórastarf

Nýjasta rósin í hnappagat grunnskólans er samstarf við tónlistarskólann þar sem boðið er upp á kórastarf fyrir nemendur. „Það eru byrjaðir tveir barnakórar, eldri og yngri deild, sem Tryggvi Hermannsson kennari við tónlistarskólann og organisti á staðnum stjórnar. Við bindum vonir við að hægt verði að þróa þetta söngstarf áfram í uppákomur af ýmsum toga svo sem að sýna söngleiki og fleira í þeim dúr,“ segir Anna. „Og það nýjasta,“ segir hún er heilsuefling starfsfólksins sem verður bæði á líkamlega og andlega sviðinu og miðar að því að efla starfsandann og auka vellíðan fólks. Það verður ýmsum meðulum beitt, boðið upp á jóga, dans og gönguferðir svo eitthvað sé nefnt. Meðal nemendanna er líka hugað að heilsusamlegu líferni en á síðasta ári var fyrir tilstuðlan sjávarútvegfyrirtækisins Guðmundar Runólfssonar farið að bjóða upp á ferska ávexti í nestistímum og í vetur er það Fisk Seafood sem býður nemendum upp á ávextina,“ segir Anna að lokum.