Björgólfur Guðmundsson, fyrrverandi stjórnarformaður Landsbankans, reynir í viðtali hér í blaðinu í gær að gera lítið úr ábyrgð fyrrverandi stjórnenda bankans á því að nú stefnir í að íslenzkir skattgreiðendur þurfi að taka 600 milljarða króna að láni...

Björgólfur Guðmundsson, fyrrverandi stjórnarformaður Landsbankans, reynir í viðtali hér í blaðinu í gær að gera lítið úr ábyrgð fyrrverandi stjórnenda bankans á því að nú stefnir í að íslenzkir skattgreiðendur þurfi að taka 600 milljarða króna að láni til að standa skil á greiðslu trygginga á innistæðum erlendra viðskiptavina bankans á svokölluðum Icesave-reikningum.

Björgólfur er í viðtalinu spurður hvers vegna í ósköpunum Landsbankinn hafi ekki aðhafzt, þrátt fyrir athugasemdir fjármálaeftirlita bæði Íslands og Bretlands við Icesave-reikningana.

Hann svarar í fyrsta lagi: „Þetta er eins rangt og hugsast getur. Svo virðist sem öll vandamálin sem blasa við þjóðinni í dag eigi að eiga uppruna sinn í einu máli, stofnun Icesave-reikninganna, en ég held að þeir séu um 10% af erlendum lánum bankanna.“

Enginn hefur haldið því fram að öll vandamál þjóðarinnar eigi uppruna sinn í Icesave-reikningunum. En þar liggur engu að síður stórt vandamál. Skuldsetning skattgreiðenda á Íslandi upp á 600 milljarða króna er ekki smámál, sérstaklega vegna þess að forsvarsmenn Landsbankans vissu mætavel hvernig farið gat. Margir aðrir áttuðu sig ekki á því fyrr en um seinan.

Björgólfur segir í öðru lagi: „Vissulega má til sanns vegar færa að við hefðum átt að stefna að því fyrr en við gerðum, að fara með starfsemina í Bretlandi í dótturfélag. Við vorum að vinna að því svo mánuðum skipti, í samstarfi við Fjármálaeftirlitið hér heima og við fjármálaeftirlit Bretlands.“ Björgólfur segir að brezka fjármálaeftirlitið hafi gert kröfur um að mikið af eignum yrði fært yfir í útibúið en þar hafi bankinn orðið að fara hægt í sakirnar.

Þetta er vafalaust satt og rétt. Eftir stendur hins vegar að eftirlitsstofnanir voru byrjaðar að gera alvarlegar athugasemdir við Icesave-reikningana í Bretlandi í byrjun ársins. Hvers vegna héldu Landsbankamenn þá áfram að moka inn tugum þúsunda nýrra viðskiptavina í Icesave í Bretlandi? Og af hverju fóru þeir af stað með Icesave í Hollandi í maí þrátt fyrir að þekkja áhættuna sem þeir voru að búa til fyrir íslenzka skattgreiðendur?

Björgólfur segir í þriðja lagi að aldrei hafi staðið til að skuldsetja íslenzku þjóðina vegna Icesave-reikninganna. Það er nú samt það sem er að gerast þessa dagana. Hann segist þess fullviss að eignir Landsbankans muni duga fyrir Icesave-reikningunum og gott betur. En fyrir því höfum við enga vissu. Og hvað ef þær duga ekki? Hver ber þá ábyrgðina á þeim skuldum, sem íslenzkir skattgreiðendur taka á sig fyrir vikið?

Björgólfur Thor Björgólfsson, annar fyrrverandi eigandi Landsbankans, sagði í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi að brezk stjórnvöld hefðu undir lokin viljað taka Icesave undir sína ábyrgð gegn 200 milljóna punda tryggingu. Af því að Seðlabankinn hefði ekki viljað veita slíkar tryggingar hefði farið eins og raun bar vitni.

Það er ekki hægt að varpa ábyrgðinni á Icesave-málinu yfir á Seðlabankann eða íslenzk stjórnvöld. Ábyrgðin er Landsbankamanna sem þrátt fyrir að þekkja áhættuna létu það viðgangast að Icesave óx og óx og þar með áhættan sem íslenzkum almenningi var bökuð.

Björgólfi Guðmundssyni verður í viðtalinu í Morgunblaðinu tíðrætt um eyðslu og óráðsíu almennings og opinberra aðila á Íslandi undanfarin ár og hefur þar að sjálfsögðu ýmislegt til síns máls. En hann spyr á móti, þegar hann er spurður hvort Landsbankamenn hafi ekki óttazt að þeir væru að skuldsetja þjóðina með Icesave: „Má ekki alveg eins segja að megnið af íslensku þjóðinni hafi verið að skuldsetja sig, þegar hún var að nota peningana, m.a. frá Icesave, á kolröngu gengi og eyða í allt sem við höfum eytt í á undanförnum árum?“

Eigum við að trúa því að Landsbankamenn hafi verið á móti því að íslenzkur almenningur tæki lán hjá þeim? Bauð ekki Landsbankinn, rétt eins og aðrir bankar, ódýr lán án þess að spyrja lántakendurna hvort þeir hefðu efni á að borga þau til baka?

Áföllin, sem dunið hafa yfir að undanförnu, eru ekki neinum einum að kenna. Margir bera ábyrgðina. En Icesave-klúðrið, sem getur átt eftir að reynast þjóðinni dýrt, er á ábyrgð Landsbankamanna. Þeir koma þeirri ábyrgð ekki yfir á aðra.