ÞEGAR Guðmundur Magnússon rithöfundur, blaðamaður og bloggari byrjaði í vor að skrifa bókina Nýja Ísland þá óraði hann ekki fyrir því hvernig aðstæður yrðu nú á haustdögum þegar bókin er loks komin út. Engu að síður er margt í henni sem rímar við þá stemningu sem nú er uppi í samfélaginu. Hann gagnrýnir meðal annars síaukin umsvif auðmanna í landinu og misskiptingu í samfélaginu.
„Heiti þessarar bókar er hugtak sem ég nota yfir það nýja þjóðfélag sem varð til hér á landi á síðustu fimmtán árum og í bókinni er ég að bera það saman við það þjóðfélag sem ég er vaxinn upp úr,“ segir Guðmundur, en tekur undir það að titillinn hafi fengið nýja merkingu eftir bankahrunið. „Nú eru margir að hugsa um framtíðarlandið sem vex upp úr þessum þrengingum. Ég held að það sé mikilvægt einmitt núna að átta sig á því hvernig þetta þjóðfélag var sem er í svona miklum vandræðum í dag.“
Guðmundur talar í bókinni um að hér á landi hafi ríkt jafnaðarandi til skamms tíma með lítilli stéttaskiptingu þó ýmsir aðrir annmarkar hafi verið á þjóðfélaginu. „Þessi jafnaðarandi veikist á síðustu árum og ég er þeirrar skoðunar að hann hafi verið límið í þjóðfélaginu.“
Djúpt á vandanum
Hann segir að vandamálið liggi dýpra en svo að allt hefði verið í góðu lagi ef seðlabankastjóri hefði staðið sig betur eða Ísland gengið í Evrópusambandið. „Óháð þessu áfalli sem við urðum fyrir þá var hér orðið þjóðfélag sem var ekki lengur heilbrigt. Við verðum að átta okkur á því í endurreisninni að markmiðið er ekki að komast aftur í þá stöðu sem við vorum í.“En var þá hrunið tímabært til þess að uppgjör geti nú orðið í framhaldinu? „Það getur enginn sagt að þetta hrun sé jákvætt vegna þess að það hefur svo skelfilegar afleiðingar fyrir fólkið, en sú endurskoðun sem fer fram í kjölfarið er jákvæð. Vonandi notum við þetta tækifæri til þess að skoða það hversu margt annað var að en þessi mikla yfirbygging bankanna.“
Bloggsíða Guðmundar er mikið lesin og því liggur beint við að spyrja hvers vegna hann hafi ákveðið að gefa út bók í stað þess að koma hugmyndum sínum á framfæri á netinu. „Ég hef mikla trú á bókinni sem miðli,“ segir hann „Bloggið hefur ýmsa kosti en það er svona eins og fréttir í blöðum og fjölmiðlum, farið mjög fljótt. Bókin er góð til þess að vera undirstaða umræðu.“ gunnhildur@mbl.is