„ÉG var nú að hugsa um að láta þetta bara ganga rólega yfir,“ segir Jón Hjörleifur Jónsson, fyrrverandi skólastjóri.

„ÉG var nú að hugsa um að láta þetta bara ganga rólega yfir,“ segir Jón Hjörleifur Jónsson, fyrrverandi skólastjóri. Fyrir 5 árum þegar Jón varð áttræður tóku börnin hans fjögur af honum ráðin og héldu honum „mestu afmælishátíð sem þekkst hefur hér á landi og þótt víðar væri leitað“.

Slegið var upp allsherjar tónlistarveislu í Langholtskirkju og segist Jón enn lifa á því afmæli og því verði í mesta lagi haldið upp á daginn í dag með jólaköku í hæverskum stíl. Sönglistin hefur fylgt Jóni alla tíð og var hann alltaf syngjandi sem barn svo eldri systrum hans fannst nóg um og kölluðu hann „Jón söng“. Hann hefur stjórnað ófáum kórum, þ. á m. skólakór Hlíðardalsskóla, Karlakór Akureyrar og kór eftirlaunakennara.

„Síðan lá leið okkar til Afríku og þar stjórnaði ég stærsta kórnum, 150 manna kór innfæddra.“ Jón hefur verið talsvert á faraldsfæti, er m.a. nýkominn heim ásamt konu sinni Sólveigu Jónsson eftir ársdvöl í Bandaríkjunum hjá börnum þeirra hjóna. Jón fylgist lítið með eigin aldurstölu þótt hárum hafi fækkað á höfðinu, en um þá þróun setti hann einmitt saman eftirfarandi vísu: Það var ég hafði hár og skegg / um höfuð loðið,/ en nú er hausinn eins og egg / illa soðið . una@mbl.is