EFNAHAGSÁSTANDINU í landinu var mótmælt á tveimur útifundum í miðbæ Reykjavíkur í fyrradag, auk mótmæla víðar um landið. Fundirnir í Reykjavík voru boðaðir klukkan 15 og 16 vegna þess að ekki tókst samstaða meðal fundarboðenda.
Hörður Torfason tónlistarmaður stóð fyrir mótmælafundinum sem boðaður var við Alþingishúsið á Austurvelli kl. 15. Hann hefur tekið þátt í mótmælunum í hálfan mánuð, fyrst með því að mæta á fund á Arnarhóli 10. október, þar sem spjótunum var sérstaklega beint að Davíð Oddssyni seðlabankastjóra. Hörður segist hafa tekið þátt í fundinum en áttað sig á því að þetta væri ekki rétt aðferð, að beina mótmælunum gegn Davíð Oddssyni persónulega. Hann hvatti til þess að boðað yrði til fundar daginn eftir þar sem þess yrði krafist að stjórn Seðlabankans segði öll af sér og ríkisstjórnin einnig. Fólkið hittist á Austurvelli í sex daga og síðan var ákveðið að boða til stærri fundar laugardaginn 18. október. Sá fundur snerist einnig upp í mótmæli gegn Davíð Oddssyni. Hörður segist hafa verið ósáttur við það, hann hefði fengið ungt fólk til að auglýsa fundinn.
Þá var ákveðið að boða til nýs fundar, laugardaginn 25. október kl. 15. Þegar leið á vikuna var farið að kynna kyndilgöngu og fólk hvatt til að koma saman á Austurvelli kl. 16. Hörður segir að fólkið sem stóð fyrir göngunni hafi neitað samvinnu og viljað fara eigin leiðir. Sjálfur hafi hann ekki getað breytt fundi sem tvö þúsund manns ákváðu.
Mun fleiri mættu á kyndilgönguna sem Kolfinna Baldvinsdóttir boðaði til. Gengið var að Ráðherrabústaðnum og haldnar mótmælaræður. Áherslan var á að rjúfa þögn ráðamanna. Einhverjir göngumenn brenndu fána Landsbankans og hrópuð voru vígorð gegn Davíð Oddssyni. Kolfinna kveðst ánægð með fundinn og þá athygli sem hann fékk, bæði innanlands og utan. Hún segir engan hafa einkarétt á mótmælum á Austurvelli og vill hvetja alla sem eru heima að hugsa um þessi mál að fara út og mótmæla.