„VIÐ áttum að vinna þennan leik en maður verður bara að taka það jákvæða heim með sér. Við vinnum þær bara á heimavelli, það er miklu sætara og skemmtilegra,“ sagði markaskorarinn Hólmfríður Magnúsdóttir í gær eftir 1:1-jafntefli Íslands og Írlands í fyrri umspilsleiknum um sæti á EM í knattspyrnu á næsta ári. Markið skoraði Hólmfríður eftir aðeins hálfrar mínútu leik og það gæti reynst ansi dýrmætt þegar upp er staðið.
„Ég fékk bara mjög góða sendingu og kláraði færið og það var mjög sætt. Það var náttúrlega mikilvægt að ná þessu marki og núna verða þær að skora gegn okkur heima, en þær eru klárlega ekki að fara að gera það. Við ætlum að taka þær og vonandi flykkist fólk bara á Laugardalsvöllinn,“ sagði Hólmfríður, en seinni leikur liðanna er næstkomandi fimmtudag kl. 18.10.
„Fólk verður bara að klæða sig í kuldagallana. Það er góð ástæða til að mæta og ég vona bara að við fyllum völlinn. Við lofum góðum leik. EM-sætið er undir,“ sagði Hólmfríður. sindris@mbl.is