Ingibjörg Sigríður Kristjánsdóttir fæddist á Þingvöllum í Helgafellssveit 3. mars 1922. Hún lést á St. Franciskussjúkrahúsinu í Stykkishólmi 9. október síðastliðinn og fór útför hennar fram frá Grundarfjarðarkirkju 18. október.

Einhvern tíma á milli eggtíðar og grasa árið 1963 vorum við í ani við að lengja Stórubryggjuna í Grundarfirði nokkrir ungir menn og með okkur var Elberg Guðmundsson, sem sá um að heimspekilegt umræðuefni þraut ekki. Það var á einum af þessum sólskinsdögum, þegar Grundarfjörður skartar sínu fegursta og þorpið iðaði í framkvæmdum og var að breytast í þróttmikið samfélag. Ný hús risu hér og þar, en sýnu myndarlegast var húsið við Grundargötu 18, enda þegar búið að steypa tvær hæðir. Við gerðum hlé á vinnunni og hlustuðum á síldarfréttirnar og heyrðum m.a. að Runólfur SH 135 væri á leiðinni í land með fullfermi. „Nú bætir Gvendur enn við einni hæð“ heyrðist í Elbergi, sem gjarnan skildi samhengi hlutanna, enda gekk það eftir.

Enginn vafi leikur á því að Guðmundi var það mikill metnaður að reisa Ingu konu sinni, í þakklætis- og virðingarskyni, gott og fallegt hús þar sem mætti herbergja þessa stóru fjölskyldu, þau sjálf og strákana sex, sem voru líklega ögn fyrirferðameiri en í meðallagi. Það var svo þremur árum síðar að í hópinn bættust tvíburanir María og Unnsteinn.

Ingibörg Kristjánsdóttir ólst upp í föðurgarði á Þingvöllum í Helgafellssveit á miklu myndarheimili, þar sem búskapur allur, innan og utan dyra, bar vitni um dugnað og snyrtimennsku. Þar rétt hjá í sömu sveit, þar sem heitir á Gríshóli var ungur vinnumaður Guðmundur Runólfsson og eins og í öllum góðum sögum tókust með þeim ástir, sem entust með þeim alla tíð.

Af litlum efnum en miklum dugnaði hófu þau Inga og Guðmundur búskap í Grundarfirði árið 1947, fyrst í Götuhúsi en þremur árum síðar fluttu þau í húsið við Hamrahlíð. Það var svo árið 1965, sem þau fluttu í nýja glæsilega húsið að Grundargötu 18 og bjuggu þar allar götur til ársins 1997 að þau komu sér fyrir í einkar snoturri íbúð í Fellaskjóli.

Einlægt frá því að ég fluttist með foreldrum mínum til Grundarfjarðar haustið 1952 hef ég notið þess vinskapar sem þau og Inga og Guðmundur stofnuðu til strax í öndverðu og fyrir það vil ég þakka hér af alhug.

Við Þórunn nutum þeirra forréttinda að kaupa af þeim hjónum neðstu hæðina á Grundargötu, þar sem við bjuggum í fjögur góð ár. Orri og Arna eignuðust góða vini í leiðinni, enda vék Inga ósjaldan að þeim köku og öðru góðgæti.

Inga minnir óneitanlega á þær góðu og hjálpsömu konur, sem Jón úr Vör yrkir um í Þorpinu. Þær létu sér annt um alla í kringum sig og var svo eðlilegt að rétta öðrum hjálparhönd og gera þeim lífið eilítið bærilegra með litlu viðviki.

Inga var manni sínum stoð og stytta hvort heldur var á heimilinu eða í miklum umsvifum hans í útgerðinni, enda allt í senn húsfreyja, framkvæmdastjóri á stóru heimili og hans besti ráðgjafi þegar mest lá við.

Inga var gætin í fjármálum og minnti bónda sinn stundum á, að kapp væri best með forsjá.

Inga var skemmtileg kona, gestrisin, glaðvær, ljóðelsk og sjór sagna.

Dugnaði hennar var viðbrugðið, enda reyndi oft á hann, því gestkvæmt var á heimilinu og fjölskyldan stór.

Fáar konur hafa lagt byggðarlagi sínu til jafnmikinn auð og Inga. Hún hefur komið á legg átta harðduglegum börnum, sem nær öll búa og starfa í Grundarfirði. Barnabörnin hafa flest látið muna um sig og hafa sett mark sitt á heimabyggðina. Hún hefur séð litla fátæka þorpið breytast í glæsilegan bæ, þar sem heita má „að drjúpi smjör af hverju strái“. Hún á stóran hlut í þessu ævintýri.

Þegar Inga og Guðmundur eltust gáfu þau sig að því að styðja þá, sem aldnir voru með því að blanda geði við þá með glaðværð sinni, sem var gefandi.

Hjónin Inga og Guðmundur voru hvort öðru ágætara, eins og Bjarni á Berserkseyri sagði eitt sinn um önnur hjón.

Grundarfjörður væri að sönnu miklu fátækari, ef Inga hefði ekki lagt allt það af mörkum, sem hún gerði og því er hún kvödd með þökk og virðingu.

Við Þórunn sendum Guðmundi vini okkar samúðarkveðjur og svo öllum öðrum í fjölskyldunni.

Árni M. Emilsson.