— Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Rúnar Pálmason runarp@mbl.is BÓTASJÓÐIR þriggja stærstu tryggingafélaganna standa vel að sögn forstjóra þeirra. Öll félögin breyttu fjárfestingarstefnu fyrir sjóðina fyrir um ári og færðu m.a.

Eftir Rúnar Pálmason

runarp@mbl.is

BÓTASJÓÐIR þriggja stærstu tryggingafélaganna standa vel að sögn forstjóra þeirra. Öll félögin breyttu fjárfestingarstefnu fyrir sjóðina fyrir um ári og færðu m.a. fjármuni úr hlutabréfum yfir í ríkisskuldabréf og á innlánsreikninga. Þeir prísa sig nú sæla fyrir þá ákvörðun.

Sigurður Viðarsson, forstjóri Tryggingamiðstöðvarinnar, segir að tap félagsins vegna hruns bankanna og annarra efnahagsþrenginga undanfarið sé í lágmarki, þótt félagið hafi reyndar tapað einhverjum fjármunum eins og flestir aðrir. Bótasjóður félagsins sé afar sterkur og hafi litlu tapað. Ástæðan fyrir þessari sterku stöðu sé sú að undir lok síðasta árs hafi verið breytt um fjárfestingarstefnu, mjög hafi verið dregið úr vægi hlutabréfa en þess í stað lögð meiri áhersla á ríkistryggð skuldabréf. „Og það hefur alveg bjargað okkur. Staðan væri ekki glæsileg ef við værum með óbreytta stefnu. Staðan hefði verið mjög slæm, það er alveg ljóst,“ segir hann.

Skuld við tjónþola

Tryggingafélögum ber að leggja tiltekinn hluta af iðgjöldum í bótasjóð til að félagið geti örugglega greitt tjón viðskiptavina sinna. Þetta fé þarf að geyma og ávaxta með einhverjum hætti. Heitið bótasjóður er raunar úrelt því í lögum er nú talað um vátryggingaskuld, þ.e. skuld félagsins við tjónþola, en ekki bótasjóð.

Eignir á móti tjónaskuld tryggðar

Guðmundur Ö. Gunnarsson, forstjóri Vátryggingafélags Íslands, vill fremur ræða um vátryggingaskuld enda sé það réttara. Hann segir að vel hafi gengið að ávaxta þær eignir sem standa á móti vátryggingaskuld VÍS. Félagið hafi gripið til aðgerða í byrjun árs og fært umræddar eignir að mestu leyti yfir í ríkistryggða pappíra. „Eignir á móti tjónaskuldinni eru að fullu tryggðar og engin afföll verða á þeim, tjónþolar sem eiga inni bætur hjá félaginu geta verið öruggir um að fá sitt tjón bætt,“ segir Guðmundur.

Sjóvá fjárfesti erlendis

Samkvæmt upplýsingum frá Þór Sigfússyni, forstjóra Sjóvár, er vátryggingaskuld eða bótasjóðir félagsins um 22 milljarðar króna. Þegar ljóst virtist að gengi krónunnar hafði fjarlægast nokkuð jafnvægisgengi sitt á síðasta ári hefði félagið aukið við eignir sínar erlendis og selt eignir innanlands. Stærstu eignirnar erlendis séu fasteignir sem leigðar eru traustum aðilum í Evrópu, þar á meðal ríkjunum sjálfum. Leigusamningar til 30 ára liggi þar að baki og tekjuflæðið sé gott.

Samtals nemur vátryggingaskuld félaganna um 48 milljörðum króna.