Juande Ramos
Juande Ramos
STJÓRN enska úrvalsdeildarliðsins í knattspyrnu, Tottenham Hotspurs tilkynnti þá ákvörðun sína á laugardagskvöldið að víkja Spánverjanum Juande Ramos frá störfum sem knattspyrnustjóra liðsins. Ramos tók við liði Tottenham 27.

STJÓRN enska úrvalsdeildarliðsins í knattspyrnu, Tottenham Hotspurs tilkynnti þá ákvörðun sína á laugardagskvöldið að víkja Spánverjanum Juande Ramos frá störfum sem knattspyrnustjóra liðsins. Ramos tók við liði Tottenham 27. október 2007 og vantaði því tvo daga upp á það að hafa stýrt liðinu í heilt ár. Gengi Tottenham í upphafi leiktíðar þótti mikil vonbrigði, en undir stjórn Ramos fékk liðið einungis 2 stig í deildinni.

Forkólfar Tottenham voru fljótir að ganga frá ráðningu á nýjum stjóra, því Harry Redknapp sem hefur verið hjá Portsmouth undanfarin ár var ráðinn í starfið strax um kvöldið. „Þetta er stórt og mikið tækifæri sem ég fæ; að stýra stóru félagi áður en ég hætti í þessu,“ sagði hinn 61 árs gamli Redknapp við breska ríkisútvarpið, BBC.

,,Ég hef átt frábæran tíma hjá Portsmouth og gengi liðsins hefur verið með ólíkindum. Tottenham gerði mér frábært tilboð sem var erfitt fyrir mig að hafna,“ sagði Redknapp. Ekki er ljóst hver tekur við Portsmouth en Sam Allardyce hefur lýst yfir áhuga sínum á starfinu.

thorkell@mbl.is