IMF eða Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur á löngum ferli sett ýmisleg skilyrði um samfélagslegar breytingar í þeim ríkjum sem hann hefur aðstoðað fjárhagslega. Því er mörgu velt upp sem hugsanlegum snertiflötum í viðræðum við sjóðinn, m.a....

IMF eða Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur á löngum ferli sett ýmisleg skilyrði um samfélagslegar breytingar í þeim ríkjum sem hann hefur aðstoðað fjárhagslega. Því er mörgu velt upp sem hugsanlegum snertiflötum í viðræðum við sjóðinn, m.a. umhverfismálum. Viðmælendur telja ekki að IMF setji skilyrði á sviði umhverfismála fyrir fjárhagsaðstoð nú.

Ólafur Ísleifsson, hagfræðingur og lektor við viðskiptadeild HR, sem sat í framkvæmdastjórn sjóðsins 2002-2003, segir að fyrst Íslendingar hafi ítarlega löggjöf og lögbærar stofnanir til að fjalla um mál á því sviði sé það langsótt að sjóðurinn fjalli um þau. „Mér kæmi á óvart ef sjóðurinn tæki upp slík atriði í þessum viðræðum,“ segir Ólafur.

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, sat í framkvæmdastjórninni árið 2003. Hann segir það einfaldlega af og frá að IMF taki upp skilyrði á þessu sviði. Báðir vísa þeir í að Ísland sé þróað ríki og sjóðurinn muni einbeita sér að því að leysa gjaldeyrisvandræðin sem Íslendingar standa frammi fyrir. „Sjóðurinn mun hugsa um það hvernig við komumst út úr þessari kreppu og hvernig við getum endurreist fjármálakerfið,“ segir Vilhjálmur. onundur@mbl.is