ÉG FYLGDIST með aðförinni að Hafskipum á sínum tíma og blygðast mín enn fyrir háttalag og framgöngu manna sem töldu sig þess umkomna að fella dóma í því máli. Þá tóku menn stórt upp í sig en mörg orð máttu vera ósögð.

ÉG FYLGDIST með aðförinni að Hafskipum á sínum tíma og blygðast mín enn fyrir háttalag og framgöngu manna sem töldu sig þess umkomna að fella dóma í því máli. Þá tóku menn stórt upp í sig en mörg orð máttu vera ósögð. Það er nú löngu viðurkennt að Hafskip var ekki gjaldþrota þegar rekstur þess var stöðvaður og forráðamenn fyrirtækisins fangelsaðir. Þetta var svívirðileg aðgerð og svartir dagar í sögu þjóðar.

Alla daga síðan hef ég fylgst með þeim félögum og fagnað sigrum þeirra.

Björgólfur Guðmundsson var á sínum tíma keyrður niður til hinnar mestu niðurlægingar með þjóð sinni, rúinn æru og eignum en sálarorka hans var óbuguð. Hann fann sér nýjan starfsvettvang á erlendri grund og flutti heim digran sjóð til ábata og ávinnings fyrir land og þjóð.

Ég er enn sem fyrr sannfærður um að nú sem ávallt áður var það höfðingslund og heiðarleiki sem réð úrslitum í öllum hans ákvörðunum og störfum í Landsbankanum. Enginn maður hefur verið stórtækari í stuðningi sínum við hin fjölmörgu þjóðþrifamál stór og smá en einmitt hann.

Kæru landar, sýnum nú að við höfum pínulítið lært af Hafskipsmálum og Baugsmálum og spyrjum að leikslokum og dæmum eftir þeim.

Höfundur er fv. bankastarfsmaður í ríkisbanka.