SAMKOMULAG hefur náðst milli Reykjavíkurborgar og heilbrigðisráðuneytisins um sameiningu heimahjúkrunar og félagslegrar heimaþjónustu. Loksins, árið 2008 erum við að koma á laggirnar heildstæðri þjónustu fyrir þá sem þurfa aðstoð við heimilishald og athafnir daglegs lífs vegna skertrar getu af völdum aldurs, fötlunar eða sjúkdóma.
Þann 18. nóvember árið 2003 skrifuðu þáverandi heilbrigðisráðherra og borgarstjóri undir samkomulag um samtvinnun félagslegrar heimaþjónustu og heimahjúkrunar. Tveggja ára tilraunaverkefni var sett af stað árið 2004. Að því loknu var gerð úttekt í upphafi árs 2006. Að mati þeirra sem þjónustuna veittu og þeirra sem nutu hennar varð þjónustan einfaldlega betri.
Ótvíræð hagræðing
Fram kom mikil hagræðing af samþættingunni. Í lokaskýrslu verkefnisins var skoðaður kostnaður fyrir 85 ára einstakling sem fékk frá heimahjúkrun; böðun einu sinni í viku, lyfjagjöf tvisvar á dag, eftirlit og persónulega aðstoð daglega. Frá félagslegu heimaþjónustunni voru þrif aðra hvora viku og innlit hina vikuna. Eftir samþættingu fékk hann jafnmikla þjónustu en verkþættir voru fluttir á milli. Vikulegur kostnaður var, á verðlagi ársins 2005, 80.000 krónur fyrir samþættingu en 57.500 eftir samþættingu, sem er 28% lækkun. Sparnaður fyrir þennan eina einstakling var því um ein milljón króna á ársgrundvelli án þess að þjónustan yrði verri, þvert á móti. Tugir einstaklinga njóta sambærilegrar þjónustu í dag og hundruð Reykvíkinga njóta bæði heimahjúkrunar og félagslegrar heimaþjónustu. Heildarhagræðing er því umtalsverð.Þrátt fyrir þessa skýru niðurstöðu bæði hvað varðar aukin gæði þjónustunnar og hagræðingu sá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið ekki ástæðu til þess að heimahjúkrun flyttist varanlega yfir til Reykjavíkur eins og borgaryfirvöld óskuðu eftir þvert á flokkslínur. Ástæðan var sögð sú að sameining sveitarfélaga væri ekki komin nægjanlega langt á leið og var Reykjavík sett undir þann hatt, þrátt fyrir fjölda fordæma í formi þjónustusamninga við önnur sveitarfélög.
Skriður komst á viðræðurnar á nýjan leik þegar ný ríkisstjórn tók við á síðasta ári. Nú þegar fimm ár eru liðin frá undirritun samkomulags um tilraunaverkefni til tveggja ára, höfum við nýtt samkomulag um tilraunaverkefni til þriggja ára. Það gengur þó lengra en það fyrra þar sem heimahjúkrun flyst yfir á Velferðarsvið borgarinnar. Ástæðurnar fyrir þessum óratíma eru eflaust margar og flækjustigin sem kerfin skapa eru ótalmörg. Óþarfi er að fara í þá neikvæðu umræðu á sama tíma og við öll getum fagnað geysilega merkum áfanga í þjónustu við þá sem þurfa aðstoð inn á heimili sín.
Fleiri verkefni til sveitarfélaganna
Það er óumdeilt að sveitarfélögin eru best til þess fallin að sinna nærþjónustu við íbúa landsins. Hagræðing skapast af því að einn aðili beri ábyrgð á og sjái um stjórnun verkefna á sama sviði. Það þarf ekki að bitna á þjónustuþegum, þvert á móti. Nú á tímum efnahagsþrenginga er tækifæri til að endurhugsa verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga þar sem sveitarfélögin sem grunneiningar samfélagsins þurfa að eflast á næstu árum í takt við breytta samfélagsmynd. Þeir sem standa höllum fæti í dag vegna félagslegra aðstæðna, öldrunar, fötlunar og eða sjúkdóma verða enn viðkvæmari fyrir breytingum og því mikilvægt að stýra þjónustu við þá hópa þannig að hún mæti þörfum þeirra sem best.Núverandi ríkisstjórn og Samband íslenskra sveitarfélaga vinna að því að yfirfæra málefni fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga árið 2011 og málefni aldraðra árið 2012. Þeirri vinnu má flýta. Lengi hefur verið rætt um að vinnumiðlun ætti heima hjá sveitarfélögunum sem og heilsugæslan en báðir þessir þjónustuþættir voru áður á hendi sveitarfélaganna. Þá er vert að kanna möguleika á flutningi framhaldsskólans þannig að „skyldunámið“ sé á einni hendi. Menntun barna byrjar með leikskóla og náminu á ekki að ljúka fyrr en við lok framhaldsskóla hvort sem það er með stúdentsprófi, sveinsprófi eða með starfsréttindanámi.
Framtíðin í nærsamfélaginu
Þrátt fyrir að mér verður tíðrætt um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga geri ég mér grein fyrir að sú umræða snýst ekki bara um þessar stjórnsýslueiningar. Hún snýst um fólkið í landinu, fjölskyldu okkar og vini sem þurfa eðli málsins samkvæmt þjónustu frá samfélaginu eins og við öll þurfum á að halda á einum eða öðrum tíma í lífi okkar.Þó það sé svo sjálfsagt og eðlilegt að einn aðili stýri viðkvæmri þjónustu inn á heimili fólks, hafa fimm löng ár liðið frá fyrsta formlega samkomulaginu. En við höfum öðlast reynslu og þekkingu í samningum bæði við heilbrigðisráðuneytið vegna heimahjúkrunar og félagsmálaráðuneytið vegna þjónustu við geðfatlaða. Við megum því ekki bara fagna í dag, heldur taka næstu skref á morgun.
Sveitarfélögin þurfa fleiri verkefni, íbúar þeirra eiga skilið að nærþjónustan sé veitt af þeim sem eru nærri og ríkið þarf að einbeita sér að endurreisn efnahagsmála og niðurgreiðslu skulda næstu árin. Sveitarfélögin hafa framtíðina í hendi sér – hana ber að nýta.
Höfundur er borgarfulltrúi og talsmaður Samfylkingarinnar í velferðarmálum