Eftir Ingveldi Geirsdóttur
ingveldur@mbl.is
SINFÓNÍUHLJÓMSVEIT Íslands er ekki af baki dottin þrátt fyrir að áætlaðri Japansferð hafi verið aflýst. Í staðinn fyrir að fara á fjarlægar slóðir mun hljómsveitin sinna sínu nærumhverfi með tónleikum á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni dagana 28. október til 6. nóvember.
„Þessar vikur voru áætlaðar í stóra og mikla tónleikaferð til Japans sem var síðan blásin af út af efnahagsástandinu. Þá var sest niður og rætt hvað væri hægt að gera í staðinn og eitt af því sem við söknuðum af verkefnaskrá vetrarins voru tónleikaferðir innanlands sem eru allajafna fastur liður af dagskránni,“ segir Þorgeir Tryggvason, kynningarfulltrúi Sinfóníurnar.
Á morgun hefst ferðalagið þegar Sveitin heimsækir verslanir á höfuðborgarsvæðinu. „Okkur fannst það góð leið til að ná til fólksins og kæta það í amstri dagsins.“
Kristján syngur með
Um næstu helgi verða svo stórtónleikar í Háskólabíói þar sem leiða saman hesta sína hljómsveitin og Kristján Jóhannsson tenór en átta ár eru liðin frá því það gerðist síðast. Á efnisskránni eru íslenskar söngperlur og frægar aríur eftir Puccini og Leoncavallo. Auk þess verður leikin fimmta sinfónía Beethovens, karnivalforleikur Dvoráks og tveir kaflar úr tónlist Griegs við Pétur Gaut. „Þetta er tónlist sem allir þekkja og allir njóta. Verkin sem eru svo vinsæl að þau eru sjaldan spiluð, en ástæðan fyrir því er hvað þau eru stórkostleg,“ segir Þorgeir. Sveitin heldur þá norður á land og flytur sömu efnisskrá ásamt Kristjáni á Akureyri. Miðaverð á þessa tvenna tónleika er aðeins 1.000 krónur og segir Þorgeir sveitina vilja gefa sem flestum tækifæri til að koma. „Ég held að það sé skylda okkar.“
Lyfta huganum upp úr rótinu
Sveitin heldur næst austur og leikur á Eskifirði og Höfn. Á efnisskrá verða sinfónía Beethovens, forleikur Dvoráks og kafli úr Pétri Gaut. En í stað söngvara kemur fiðluleikarinn Sigrún Eðvaldsdóttir sem leikur einleik í Rómönsu eftir Árna Björnsson og fyrsta kaflann úr fiðlukonsert Sibeliusar. Aðgangur verður ókeypis á þá tónleika.Þorgeir segir að það sé ekkert verra að fara um Ísland en til Japans. „Skyldur hljómsveitarinnar eru fyrst og fremst við Íslendinga og ef við getum tekið þátt í því að lyfta huganum aðeins upp úr þessu róti er það eitthvað sem okkur þykir mjög vænt um að geta gert.“
Dagskrá
*28. október; Kringlan og Smáralind kl. 16.30. Blásarar leika í IKEA kl.12.*1. nóvember kl. 17 í Háskólabíói ásamt Kristjáni Jóhannssyni.
* 4. nóvember íþróttahúsi Síðuskóla, Akureyri, ásamt Kristjáni Jóhannssyni.
* 5. nóvember í Kirkju- og menningarmiðstöð Fjarðabyggðar á Eskifirði.
*6. nóvember Höfn í Hornafirði.