Birtir upp um síðir? „Við verðum að vera bjartsýn og halda ótrauð áfram, og áður en langt um líður munu fasteignamarkaður og byggingariðnaðurinn ná að rétta úr kútnum,“ segir Ingibjörg.
Birtir upp um síðir? „Við verðum að vera bjartsýn og halda ótrauð áfram, og áður en langt um líður munu fasteignamarkaður og byggingariðnaðurinn ná að rétta úr kútnum,“ segir Ingibjörg. — Morgunblaðið/Valdís Thor
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Ásgeir Ingvarsson asgeiri@mbl.is Mjög hefur hægst á markaði síðasta mánuðinn og má segja að markaðurinn sé nánast frosinn,“ segir Ingibjörg Þórðardóttir, formaður Félags fasteignasala.
Eftir Ásgeir Ingvarsson asgeiri@mbl.is

Mjög hefur hægst á markaði síðasta mánuðinn og má segja að markaðurinn sé nánast frosinn,“ segir Ingibjörg Þórðardóttir, formaður Félags fasteignasala.

Þótt ástandið á markaðinum sé með erfiðasta móti segir Ingibjörg þróunina ekki að öllu leyti neikvæða. „Þrátt fyrir slæmar ytri aðstæður þá mælist t.d. ekki lækkun í krónutölu á verði fasteigna. Þótt orðið hafi verðrýrnun í ljósi verðbólgu liðna mánuði má ætla að þeir sem hafa lagt fjármuni sína í fasteignir komi betur út úr skakkaföllunum liðnar vikur heldur en t.d. þeir sem lögðu fé sitt í verðbréf eða markaðssjóði bankanna,“ segir hún. „Á meðan hefur svo fjölskyldan notið þeirra gæða sem heimilið er, ólíkt verðbréfum eða peningum sem sitja í banka.“

Lífeyrissjóðirnir skipta sköpum

Þó að tími hagstæðra og auðfenginna fasteignalána bankanna virðist nú að mestu liðinn bendir Ingibjörg á að enn séu margar leiðir færar til að fjármagna fasteignakaup. „Lífeyrissjóðirnir hafa m.a. verið að koma sterkir inn og það sem af er þessu ári má ætla að sjóðirnir hafi lánað til fasteignakaupa um 50% af þeirri fjárhæð sem Íbúðalánasjóður hefur lánað á sama tímabili. Má segja að af lífeyrissjóðirnir og Íbúðalánasjóður hafi haldið markaðinum gangandi.“

Vill sterkari Íbúðalánasjóð

Ingibjörgu þykir mikilvægt að stjórnvöld komi fasteigna- og byggingamarkaðinum til hjálpar með úrræðum sem duga. Hún leggur meðal annars til að gerðar verði breytingar á heimildum Íbúðalánasjóðs til að koma aukinni hreyfingu á markaðinn. „Sjóðnum var gert að breyta útlánareglum sínum á sínum tíma þannig að hámarkslán, sem er 20 milljónir, skerðist eftir ákveðnum reglum í samræmi við hlutfall annarra lána,“ segir Ingibjörg og leggur til að allir sem hafi greiðslugetu til geti átt rétt á óskertu hámarksláni úr sjóðnum. „Þá er ég ekki að tala um að sjóðurinn fari að veita tugmilljóna lán, heldur einfaldlega að allir hafi rétt á að fá þessar 20 milljónir óskertar, og geti m.a. þannig notið að sama marki ódýrari vaxta Íbúðalánasjóðs.“

Hagkvæmt að kaupa á Íslandi

Ingibjörg bendir á að fasteignaverð á Íslandi sé nú mjög hagstætt miðað við verð víða erlendis. Ekki er langt síðan fréttir bárust af Íslendingum búsettum erlendis sem treystu sér ekki til að flytja til Íslands vegna hás fasteignaverðs og hlýtur staða þessa fólks að hafa breyst nú.

Segir Ingibjörg fasteignasala verða vara við áhuga erlendis frá eftir fall krónunnar þó að ekki verði vart við mikla sölu til útlendinga eða Íslendinga búsettra erlendis enn sem komið er.

Höfum séð það svart áður

Þrátt fyrir litla hreyfingu á markaði og erfiðar aðstæður er Ingibjörg hæfilega bjartsýn: „Við höfum áður lent í gengislækkunum og vandræðum, og staðið það af okkur,“ segir Ingibjörg og minnist mikilla vandræða sem hún lenti sjálf í árið 1989 þegar fjölskylda hennar var að byggja sér raðhús á miklum sviptingatímum. „Við verðum að vera bjartsýn og halda ótrauð áfram, og áður en langt um líður munu fasteignamarkaður og byggingariðnaðurinn ná að rétta úr kútnum.“