Eftir Þorkel Gunnar Sigurbjörnsson
thorkell@mbl.is
Haukakonur voru undir í hálfleik með fjórum mörkum gegn Val, 12:8, en létu þó engan bilbug á sér finna og komu sterkari til leiks eftir hlé. Lauk leiknum á þann veg að Haukar unnu góðan tveggja marka sigur, 24:22 og sóttu þar með tvö gullin stig í greipar Vals.
Besti leikmaður vallarins var Valsarinn Hrafnhildur Ósk Skúladóttir sem skoraði hvorki meira né minna en 13 mörk og var, eins og gefur að skilja, langmarkahæst í sínu liði. Hjá Haukum skoraði Tatanja Zukovska 7 mörk og Ramune Pekarskyte 5.
„Við vorum bara einfaldlega ekki góðar í sókninni fyrstu 45 mínúturnar. Vörnin lék vel allan leikinn og ekkert upp á hana að klaga. Það var síðan bara síðasta korterið sem leikmenn fengu allt í einu trú á verkefninu og að við gætum alveg unnið þennan leik. Við það sigldum við fram úr Völsurunum og unnum svo að lokum,“ sagði Díana Guðjónsdóttir, þjálfari Hauka við Morgunblaðið.
„Ramune Pekarskyte og Hanna G. Stefánsdóttir sem bera yfirleitt uppi sóknarleikinn hjá okkur fundu sig kannski ekki alveg eins vel og oft áður. En það kom svo ekki að sök þegar upp var staðið.“
Að fimm umferðum loknum á Íslandsmótinu eru Haukar í 2. sæti deildarinnar með 8 stig, tveimur stigum minna en Stjarnan, sem er eina liðið sem Haukar hafa tapað fyrir á leiktíðinni. Valur er hins vegar með 6 stig.
Öruggur sigur Framara
Framarar tóku vel á móti FH og lögðu fimleikafélagið að velli, 32:24. Stórskyttan Stella Sigurðardóttir er öll að braggast eftir meiðsli sem hafa verið að plaga hana í þó nokkurn tíma og fór mest fyrir Stellu í liði Fram í leiknum. Skoraði hún 10 mörk en stalla hennar hjá FH, Hildur Þorgeirsdóttir skoraði einnig 10 mörk. Ragnhildur Rósa Guðmundsdóttir, einn lykilmanna í liði FH lék ekki með því í leiknum.„FH-liðið var nokkuð vængbrotið í þessum leik. Það breytir því þó ekki að við höfðum þennan átta marka sigur á heimavelli og ég er ánægður með stigin tvö,“ sagði Einar Jónsson, þjálfari Fram. „Þrátt fyrir slaka byrjun hjá okkur er þetta samt allt á réttri leið og í raun og veru er þetta allt á áætlun hjá okkur. Svo munar auðvitað um það að Stella fer að verða alveg heil og Guðrún Björk Hálfdánardóttir fer að koma fljótlega úr barnsburðarleyfi,“ sagði Einar.