Öll sund lokuð Leikmenn Víkings gáfu ekkert eftir í varnarleiknum gegn Haukum en það dugði ekki til.
Öll sund lokuð Leikmenn Víkings gáfu ekkert eftir í varnarleiknum gegn Haukum en það dugði ekki til. — Morgunblaðið/Frikki
ÍSLANDSMEISTARAR Hauka í handknattleik karla hafa verið fremur köflóttir í leik sínum í upphafi leiktíðar. Á sama tíma og þeir hafa náð óaðfinnanlegum árangri í Meistaradeild Evrópu töpuðu þeir þremur deildarleikjum í röð.

ÍSLANDSMEISTARAR Hauka í handknattleik karla hafa verið fremur köflóttir í leik sínum í upphafi leiktíðar. Á sama tíma og þeir hafa náð óaðfinnanlegum árangri í Meistaradeild Evrópu töpuðu þeir þremur deildarleikjum í röð. Í gær fengu þeir nýliðana í Víkingi í heimsókn á Ásvelli og bundu Haukarnir þá enda á þessa taphrinu sína í N1-deildinni. Haukar unnu stórsigur, 37:23, eftir að hafa verið yfir 18:14 í hálfleik.

Eftir Kristján Jónsson

sport@mbl.is

,,Það er auðvitað markmiðið hjá okkur að ná meiri stöðugleika í leik okkar, sérstaklega í deildarleikjunum. Þetta snýst náttúrlega mikið um andlega þáttinn. Við þurfum að hafa verulega fyrir því að ,,mótívera okkur fyrir þessa deildarleiki þegar leikið er jafnþétt í Meistaradeildinni og raun ber vitni. Leikmenn eru í fullri vinnu eða fullu námi og eru svo í tveimur ólíkum verkefnum í boltanum. Við höfum sýnt að þegar við erum ekki alveg einbeittir erum við ekkert sérstakir. Ef vinnusemin og samheldnin er ekki til staðar. En þegar þessir hlutir eru í lagi getum við verið mjög góðir. Í síðari hálfleik í þessum leik kom þessi leikgleði og samheldni. Menn nutu þess að spila handbolta,“ sagði Aron Kristjánsson, þjálfari Hauka, í samtali við Morgunblaðið að leiknum loknum.

Haukar léku án Arnars Péturssonar, sem verið hefur þeirra aðalvarnarmaður ásamt Gunnari Berg Viktorssyni. Aron segir Arnar glíma við nárameiðsli: ,,Arnar meiddist í síðasta leik gegn Fram en hann er bæði að glíma við meiðsli í nára og í baki. Arnar er einn af þeim sem harka af sér og verður örugglega klár í leiknum gegn FH, sagði Aron en Hafnarfjarðarliðin mætast eftir landsleikjahléið sem nú tekur við.

Slakur sóknarleikur Víkinga

Víkingar spiluðu fast til þess að byrja með og dómarar leiksins biðu ekki boðanna heldur ráku þá þrívegis út af í tvær mínútur, strax á fyrstu tíu mínútum leiksins. Haukarnir létu ekki slíkt happ sér úr hendi sleppa og náðu strax góðu forskoti sem mest var sex mörk í fyrri hálfleik, 15:9. En gestirnir náðu góðri rispu og minnkuðu muninn í tvö mörk fyrir hlé. Eins og áður þá voru Víkingar slakir í upphafi síðari hálfleiks og smám saman varð ljóst að þeir myndu ekki ná í sín fyrstu stig að þessu sinni. Gísli Guðmundsson, markvörður Hauka, var þeim Þrándur í Götu og varði 25 skot.

Aron gaf átján ára leikmanni, Stefáni Rafni Sigurmannssyni, tækifæri í vinstra horninu og hann nýtti það vel og skoraði sex mörk. Hjá Víkingum var Davíð Ágústsson atkvæðamestur í sókninni en yfir heildina var sóknarleikur Víkinga slakur og bauð hann upp á mörg hraðaupphlaup fyrir Hauka. Varnarleikurinn var hins vegar ágætur þegar liðið náði að stilla upp í vörninni og markverðir þess komust vel frá leiknum.

Haukar – Víkingur 37:23

Ásvellir, úrvalsdeild karla, N1-deildin, sunnudaginn 25. október 2008.

Gangur leiks : 1:0, 2:2, 4:3, 7:3, 10:6, 12:8, 15:9, 15:13, 18:14 , 18:15, 20:15, 23:16, 24:19, 26:21, 29:22, 37:23 .

Mörk Hauka : Sigurbergur Sveinsson 8/3, Stefán Rafn Sigurmannsson 6, Einar Örn Jónsson 6/3, Kári Kristjánsson 5, Pétur Pálsson 4, Gunnar Berg Viktorsson 3, Elías Már Halldórsson 2, Arnar Jón Agnarsson 1, Gísli Jón Þórisson 1, Heimir Heimisson 1.

Varin skot : Gísli Guðmundsson 25/1 (þar af 6 aftur til mótherja)

Utan vallar: 6 mínútur

Mörk Víkings : Davíð Ágústsson 5, Hreiðar Haraldsson 3, Óttar Pétursson 3, Davíð Georgsson 3/2, Sveinn Þorgeirsson 2, Sverrir Hermannsson 2, Sigurður Karlsson 2, Þröstur Þráinsson 2, Björn Viðar Björnsson 1.

Varin skot : Björn Viðar Björnsson 18 (þar af 6 aftur til mótherja), Árni Gíslason 4/1, (þar af 2 aftur til mótherja).

Utan vallar : 14 mínútur.

Dómarar : Ingvar Guðjónsson og Jónas Elíasson. Oft verið betri.

Áhorfendur : Um 230.