Blindfold Liðsmenn hljómsveitarinnar dvelja nú í London og leika þar í kvöld. Birgir situr lengst til hægri.
Blindfold Liðsmenn hljómsveitarinnar dvelja nú í London og leika þar í kvöld. Birgir situr lengst til hægri.
Eftir Birgi Örn Steinarsson biggi@mbl.is ÍSLENDINGAR í London finna nú margir fyrir áhrifum bankakreppunnar hér á landi, hvort sem það er af tekjuskerðingu vegna falls krónunnar eða vegna neikvæðra frétta í breskum fjölmiðlum.

Eftir Birgi Örn Steinarsson

biggi@mbl.is

ÍSLENDINGAR í London finna nú margir fyrir áhrifum bankakreppunnar hér á landi, hvort sem það er af tekjuskerðingu vegna falls krónunnar eða vegna neikvæðra frétta í breskum fjölmiðlum. Hljómsveitin Blindfold, sem er sprottin upp úr sólóverkefni Birgis Hilmarssonar úr Ampop, starfar í London og ætlar nú í dag að gera sitt til þess að reisa við mannorð Íslands á nýjan leik og boða frið á milli þjóðanna með tónleikum á staðnum 93 Feet East sem er vinsæll tónleikastaður á Brick Lane. Þess má geta að Radiohead hélt einmitt tónleika fyrir troðfullu húsi á 93 Feet East sem þeir auglýstu með tveggja klukkutíma fyrirvara í kringum útgáfu In Rainbows fyrir skemmstu.

Útfæra þetta settlega

„Við erum að kynna tónleikana sem friðartónleika á milli þjóðanna,“ segir Birgir en liðsmenn hafa fundið fyrir mikilli samúð í garð þjóðarinnar eftir að Gordon Brown nýtti sér hryðjuverkalöggjöf til þess að frysta eigur íslenskra banka þarlendis. „Fólk er mjög meðvitað um þessar svívirðingar Gordon Browns. Fólk er samt ekkert of brjálað út í þjóðina en ég hef hitt fólk sem átti peninga í bönkunum sem fóru undir. Bretarnir eru forvitnir um hvernig hlutirnir eru heima á Íslandi. Þetta er mjög mikið í umræðunni. Við erum að reyna berjast fyrir því að rangfærslurnar verði leiðréttar og að menn fái aftur sömu góðu sýnina á Ísland og áður. Við þurfum nú samt að útfæra þetta nokkuð settlega hérna megin þar sem þetta er auðvitað ofboðsleg þjóðernishyggja í okkur.“

Birgir segist hafa hvatt alla sem hann þekkir til þess að setja nafn sitt á undirskriftalistann á indefence.com þar sem Íslendingar verjast ásökunum forsætisráðherra Breta um hryðjuverkastarfsemi.

Á tónleikakvöldinu er Blindfold aðalnúmerið og ætla plötusnúðar að leika slatta af íslenskri tónlist. Einnig koma fram bresku hljómsveitirnar Electric Furs og Worriers.