Eftir því sem Víkverji heyrir fleiri ræður á mótmælafundum sannfærist hann betur um hugmyndina um meðmælafund, eða hreinlega að gefa öllum mótmælum frí fram yfir jól.

Eftir því sem Víkverji heyrir fleiri ræður á mótmælafundum sannfærist hann betur um hugmyndina um meðmælafund, eða hreinlega að gefa öllum mótmælum frí fram yfir jól. Nú er aðventan gengin í garð og líklegast aldrei verið mikilvægara fyrir Íslendinga að finna hinn eina sanna jólaanda og jólafrið.

Við eigum miklu frekar að knúsa hvert annað og hrósa en að standa hrópandi úti á torgum með misgáfulegar kröfur eða vekja athygli á okkur með öðrum hætti. Ekkert gerist af viti fyrr en búið er að koma þjóðarskútunni á réttan kjöl og til þess þurfa ríkjandi stjórnvöld vinnufrið, sama hversu lítið við treystum eða trúum þeim til þess. Hleypum jólaandanum inn í sálartetrið, hrekjum neikvæðar hugsanir í burtu og verum jákvæð – að minnsta kosti fram yfir jól. Þá er komið að þorra og við getum blótað að vild ef við viljum.

Víkverji kemur þeirri hugmynd hér með á framfæri við Hörð Torfason að hann blási til jólatónleika á Austurvelli á laugardag. Hann gæti í leiðinni lesið upp úr ævisögu sinni og fengið fleiri rithöfunda til þess sama.

Það er búið að segja það sem segja þarf á öllum þessum mótmælafundum, stjórnmálamenn búnir að fá skilaboðin og Alþingishúsið búið að fá nóg af eggjum. Miklu nær að nota þá ágætu landbúnaðarafurð í jólabakstur og baka piparkökur fyrir gesti jólatónleika. Nú er búið að kveikja á Oslóarjólatrénu og hægt að dansa í kringum það við undirleik.

Jólin eru ekki síst hátíð barnanna og þau eiga annað og betra skilið en að eyða hverri helgi á aðventunni með foreldrum sínum í hróp og köll á torgum. Næg eru krepputíðindin í fréttatímum og dagblöðum og mikilvægt að unga kynslóðin fái að halda sín jól í friði fyrir neikvæðu áreiti. Hér með lýsir Víkverji því yfir að hann hlustar ekki meira á mótmælendur í bili.