Dagur Sigurðsson
Dagur Sigurðsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Guðmund Hilmarsson gummih@mbl.is ,,ÉG tek við liðinu í sumar og geri tveggja ára samning,“ sagði Dagur Sigurðsson, fyrrum fyrirliði íslenska landsliðsins í handknattleik, í samtali við Morgunblaðið í gær en forráðamenn þýska 1.

Eftir Guðmund Hilmarsson

gummih@mbl.is

,,ÉG tek við liðinu í sumar og geri tveggja ára samning,“ sagði Dagur Sigurðsson, fyrrum fyrirliði íslenska landsliðsins í handknattleik, í samtali við Morgunblaðið í gær en forráðamenn þýska 1. deildarliðsins Füchse Berlin upplýstu í gær að Dagur yrði næsti þjálfari liðsins og tæki við af Jörn-Uwe Lommel.

,,Það var ekki á stefnuskránni að fara út strax aftur en þegar leitað til mín og mér kynntar hugmyndir félagsins þá gat ég ekki annað en tekið tilboðinu. Það er rosalega mikill hugur í þeim mönnum sem stýra liðinu sem mér líst afar vel á og Berlín er líka skemmtileg borg að flytja til fyrst maður er á annað borð að rífa fjölskylduna upp,“ sagði Dagur.

Dagur er framkvæmdastjóri Vals en hann tók við því starfi fyrir einu og hálfu ári þegar hann sneri heim eftir 11 ára feril sem atvinnumaður og þjálfari. Hann var lengst af í Austurríki þar sem hann lék og þjálfaði lið Bregenz með frábærum árangri og þar áður lék hann í Japan og Þýskalandi og þjálfaði á báðum stöðum. Dagur tók við þjálfun austurríska landsliðsins fyrr á þessu ári og mun stýra því fram yfir úrslitakeppni Evrópumótsins sem haldin verður í Austurríki í janúar 2010.

Kom tilboð Füchse Berlin þér á óvart?

,,Já ég verð að segja það. Ég átti ekki von á þessu. Ég hafði velt því fyrir mér að reyna að komast í þjálfun erlendis 2010 en þetta datt inn á borðið hjá mér og ég lít á þetta sem mikinn heiður. Ég er mjög ánægður og verkefnið er mjög ögrandi og virkilega spennandi,“ sagði Dagur.

Füchse Berlin er sem stendur í 9. sæti í þýsku 1. deildinni en liðið vann sér sæti í deild þeirra bestu fyrir tímabilið.

Dagur segir að stefnt sé að því að styrkja liðið fyrir næsta tímabil. ,,Ég ætla ekkert að snúa öllu á hvolf. Ég mun byggja liðið á þeim mannskap sem er í dag og hugsunin er að bæta við þremur til fjórum leikmönnum.“ Spurður hvort hann horfi til íslenskra leikmanna sagði Dagur; ,,Já það geri ég. Rúnar Kárason er einn þeirra sem koma til greina og það er aldrei að vita nema við tölum við fleiri.“