Um borð Varðskipsmenn tóku togarann Sancy í júní 2006.
Um borð Varðskipsmenn tóku togarann Sancy í júní 2006. — Mynd/Landhelgisgæslan
Eftir Sigtrygg Sigtryggsson sisi@mbl.is MEINTAR ólöglegar veiðar færeyskra togara á Íslandsmiðum hafa ekki komið á borð Einars K. Guðfinnssonar sjávarútvegsráðherra.

Eftir Sigtrygg Sigtryggsson

sisi@mbl.is

MEINTAR ólöglegar veiðar færeyskra togara á Íslandsmiðum hafa ekki komið á borð Einars K. Guðfinnssonar sjávarútvegsráðherra. Hann segir að nýjasta málið sé til umfjöllunar hjá Landhelgisgæslunni og verði meðhöndlað sem hvert annað landhelgisbrot.

Einar sagði í samtali við Morgunblaðið, að ef rétt reyndist að færeyskir togarar slökkvi á fjareftirlitsbúnaði þegar þeir færu inn í íslenska lögsögu, væri það grafalvarlegt mál sem ræða yrði við færeysk stjórnvöld. Þessi mál hefði borið á góma í viðræðum við Færeyinga í fyrra og þeir lagt mikla áherslu á að færeysk fiskiskip færu eftir settum reglum í þessi sambandi.

Landhelgisgæslan hefur verið í fjársvelti um árabil

„Þessar fréttir af ítrekuðum meintum ólöglegum veiðum færeyskra skipa í íslenskri lögsögu um margra ára skeið eru ekkert annað en óþolandi. Þær sýna okkur svart á hvítu að það er nauðsynlegt að styrkja starfsemi Landhelgisgæslunnar eins og frekast er kostur. Hún hefur um árabil verið í fjársvelti. Gæslan sinnir ekki aðeins eftirliti heldur er öryggishlutverk hennar afar mikilvægt fyrir íslenska sjómenn,“ segir Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, þegar bornar voru undir hann fréttir um meint ítrekuð brot færeyskra togara í íslenskri lögsögu, sem birtust í Morgunblaðinu á laugardaginn.

Í sama streng tekur Árni Bjarnason, formaður Farmanna- og fiskimannasambands Íslands. „Því miður er það staðreynd að okkar nánustu vinir hafa verið að fara inn í lögsögu okkar í trausti þess að þar sé ekkert eftirlit,“ segir Árni. Hann segir að ekki megi bregðast við hörmungaratburðum í atvinnulífinu með því að stöðva starfsemi Landhelgisgæslunnar. Hún þurfi að sinna sínu starfi af meiri krafti ef eitthvað sé. Á formannafundi sambandsins fyrir helgi var eftirfarandi ályktun um málið samþykkt: „Farmanna- og fiskimannasamband Íslands skorar á stjórnvöld að tryggja Landhelgisgæslu Íslands nægjanlegt rekstrarfé til starfsemi sinnar. Mikilvægt er vegna öryggis sæfarenda og eftirlits með fiskveiðilögsögu Íslands að úthald varðskipa og loftfara raskist ekki vegna niðurskurðar.“

Í hnotskurn
» Grunur leikur á því að færeyskir togarar hafi ítrekað verið að veiðum innan lögsögunnar úti fyrir Austurlandi.
» Þeir slökkva á fjareftirlitsbúnaði og læðast inn í landhelgina þegar engin varðskip eru á svæðinu.
» Gæslan hefur ekki getað haldið úti skipum sínum að undanförnu vegna fjárskorts.