Sjálfstæðishetjan Að vanda lögðu stúdentar blómsveig á leiði Jóns Sigurðssonar sem er kunnastur fyrir óþrjótandi sjálfstæðisbaráttu sína.
Sjálfstæðishetjan Að vanda lögðu stúdentar blómsveig á leiði Jóns Sigurðssonar sem er kunnastur fyrir óþrjótandi sjálfstæðisbaráttu sína. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Silju Björk Huldudóttur silja@mbl.is HVAÐ felst í fullveldi þjóðar og hvernig verður það best tryggt?

Eftir Silju Björk Huldudóttur

silja@mbl.is

HVAÐ felst í fullveldi þjóðar og hvernig verður það best tryggt? Þetta var meðal þeirra spurninga sem ræðumenn dagsins reyndu að svara á tveimur þeirra málþinga sem blásið var til í gær í tilefni af 90 ára afmæli fullveldis Íslands.

Eftir atburði síðustu vikna var við því að búast að umræðan um inngöngu Íslands í Evrópusambandið yrði mjög fyrirferðarmikil. Ekki þurfti svo sem að koma á óvart að frummælendur skiptust í tvær andstæðar fylkingar í afstöðu sinni. Þorvaldur Gylfason, prófessor í þjóðhagfræði við Háskóla Íslands, minnti á að Jón Sigurðsson hefði verið þess fullviss að Íslendingar myndu eflast af samskiptum við aðrar þjóðir. „Við viljum, að Ísland gangi inn í sambandið, einmitt vegna þess að við elskum Ísland,“ sagði Þorvaldur og tók fram að þvermóðska stjórnvalda, í nafni sjálfstæðrar peningastefnu og íslensku krónunnar hefði verið dýru verði keypt og svert álit Íslands í útlöndum.

Ekki hlustað á rödd smáþjóðar

Björg Thorarensen, forseti lagadeildar HÍ, gerði aðgerðir breskra yfirvalda gegn íslenskum hagsmunum að umtalsefni og sagði að með þeim hefði verið brotið gegn þjóðréttarskyldum í samskiptum við annað ríki. Kallaði hún samninga íslenska ríkisins við ESB í innistæðutryggingasjóðsdeilunni nauðungarsamninga sem væru í raun ógildanlegir. Sagði hún umhugsunarvert að gildandi milliríkjasamningar, reglur og lög væru ekki virt þegar eitthvað bjátaði á. „Hagsmunir smáþjóðar í kreppu eru látnir víkja og á hennar rödd er ekki hlustað. Hvernig verður staðan þá þegar við seljum okkur undir fullt forræði Evrópusambandsins á nær öllum sviðum?“ spurði Björg.

Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, sagði ekki hægt að berjast fyrir betri málstað en þeim að Ísland stæði utan við ESB og héldi fullum yfirráðum yfir auðlindum sínum og reisn sinni.

S&S

Af hverju höldum við upp á 1. desember ár hvert?

Vegna þess að 1. desember árið 1918 tóku sambandslögin gildi. Samkvæmt þeim varð Ísland frjálst og fullvalda ríki í sambandi við Danmörku um einn og sama konung. Danir fóru með tiltekin mál, s.s. utanríkismál og landhelgisgæslu, í umboði Íslendinga. Með lögunum lýstu Íslendingar yfir ævarandi hlutleysi. Á grundvelli laganna var stofnað íslenskt ríkisráð. Í því sátu konungur, ríkisarfi og ráðherrar Íslands. Samningurinn var uppsegjanlegur eftir 25 ár af hvoru þingi landanna tveggja.

Hvað þýðir að vera fullvalda?

Fullveldi felur í sér sjálfsforræði eða sjálfstæði. Í því felst óskoraður réttur ríkis til að fara með æðsta vald í landi sínu, óháð öðru en reglum alþjóðaréttar.

Fundur Heimssýnar, hreyfingar sjálstæðismanna í Evrópumálum

Standa vörð um sjálfstæði þjóðar

„ÞAÐ er þjóðin sjálf, sem mun taka hina endanlegu ákvörðun um hvort Ísland gengur í Evrópusambandið en lykilorusta í þeirri baráttu verður háð á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í lok janúar. [...]

Þá kemur í ljós, hvort Sjálfstæðisflokkurinn stendur enn traustum fótum í þeim jarðvegi, sem hann er sprottinn úr [...] eða hvort flokkurinn hefur týnt sjálfum sér. Mér dettur ekki í hug eitt andartak, að svo sé. Mér dettur ekki annað í hug en að á landsfundinum í lok janúar muni hinn þögli meirihluti sjálfstæðismanna af landinu öllu rísa upp og standa vörð um sjálfstæði þjóðarinnar og full og óskoruð yfirráð yfir öllum auðlindum hennar.“

Við þurfum „Nýtt Ísland“

„ÞAÐ samfélag sem hér hefur orðið á seinustu örfáu árum hafa sumir kallað „Nýja Ísland“ en það hefur reynst eldast hratt og illa. Þess vegna þurfum við núna „Nýtt Ísland“ þar sem hinn venjulegi maður er engu ójafnari en ráðherrann og þar sem fólkinu finnst að völdin séu ekki hjá öðrum heldur hjá því sjálfu. Í slíku landi hefur fullveldi merkingu. En það er stór spurning hvernig aðild að ESB getur samrýmst fullveldinu. [...] Viljum við og teljum við okkur fær um að auka lýðræði í landinu við núverandi aðstæður? Mun umgjörð ESB hjálpa okkur til þess eða hindra okkur í því? [...] Það er nefnilega til lítils að styrkja innviði lýðræðisins í landinu ef raunverulegt ákvörðunarvald er um leið flutt úr landi.“
Er Ísland ennþá fullvalda? Málþing Alþjóðamálastofnunar í Háskóla Íslands

Skerðum fullveldið til að vernda það

„RÖK Jóns [Sigurðssonar] forseta fyrir þeirri sannfæringu, að þjóðfrelsi og hagfrelsi haldast í hendur [...] ganga gegn þeirri skoðun, að aukin tengsl við útlönd, til dæmis með aðild að ESB, ógni fullveldi Íslands. Fullveldi lands á ekki að vera óskorað, hvorki fullveldi Íslands né annarra landa. Fullveldisskerðing á afmörkuðum sviðum er skipulögð af ráðnum hug: við skerðum fullveldi okkar vitandi vits til að vernda fullveldið. Í þessum orðum er engin þversögn fólgin. [...] Bumbusláttur þeirra, sem ala á ótta við framsal fullveldis, er iðulega ekki annað en skálkaskjól manna, sem skelfast að missa illa fenginn spón úr aski sínum. Við þurfum að deila fullveldi okkar með öðrum Evrópuþjóðum einmitt til að losna undan ofríki innlendra sérhagsmuna.“

Skylda að líta til annarra úrræða

„ATBURÐIR síðustu vikna afhjúpa að gildandi milliríkjasamningar, lög og reglur, eru ekki virt þegar eitthvað bjátar á. Hagsmunir smáþjóðar í kreppu eru látnir víkja og á hennar rödd er ekki hlustað. Hvernig verður staðan þá þegar við seljum okkur undir fullt forræði ESB á nær öllum sviðum? [...] Ísland er enn þá fullvalda, en í erfiðri kreppu. Það kann að vera ein lausn á þeirri kreppu að leita á náðir ESB. Það er þó keypt því verði að skerða enn fremur fullveldi ríkisins, því um ófyrirsjáanlega framtíð höfum við afsalað okkur fullum sjálfsákvörðunarrétti í mikilvægustu hagsmunamálum. Það er því frumskylda stjórnvalda að líta einnig til annarra úrræða. Og það er skylda íslensku þjóðarinnar að vega og meta þessa kosti mjög vandlega þegar hún stendur frammi fyrir því að ákveða örlög sín.“

Þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB

„SAMNINGAMENN Íslands 1918 höfnuðu því tilboði Dana að í sambandslögunum stæði að Ísland væri sjálfstætt og kusu heldur fullveldi. [...F]ullveldið 1918 snerist um þátttöku í samfélagi þjóðanna, rétt til að gera samninga við önnur ríki auk þess að vera fæðing nútíma lýðræðisríkis á Íslandi með þjóðaratkvæðagreiðslunni um fullveldið sem fram fór í október. Þá voru Íslendingar í fyrsta skipti eigin stjórnarskrárgjafi en við höfum ekki enn lokið verkinu því við höfum ekki enn sett okkur raunverulega eigin stjórnarskrá, því var frestað 1944. Þjóðaratkvæðagreiðslan 1918 er fyrirmynd fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB aðild.“

Í sporum Bjarts í Sumarhúsum

„LÍKT og hinn gjaldþrota Bjartur í Sumarhúsum undir bókarlok Sjálfstæðs fólks stöndum við frammi fyrir vali um tvennt. Við getum annaðhvort valið að ganga í Evrópusambandsklúbbinn þar sem menn vinna saman í stað þess að standa einir og sér, eða þá að hverfa inn í heiðina, þ.e. snúið aftur og reynt að byrja upp á nýtt. Þetta er a.m.k. það sem einkennt hefur umræðuna að undanförnu þar sem gætt hefur ákveðins ótta við útlendinga.

En líkt og sjá má í Sjálfstæðu fólki þá fylgir því, að reyna að lifa bara á sínu og forðast að vera upp á aðra kominn, ákveðin fábreytni, því í tilfelli Bjarts var á heiðinni ekkert í boði nema soðningin.“

Vill betri umræðu

Er í skötulíki, segir Sigurður Líndal

„OFT er spurt hvort fullveldið sé hreinlega úrelt, en ég tel að svo sé ekki,“ sagði Sigurður Líndal lagaprófessor m.a. á málþingi um fullveldið sem haldið var í Háskólanum á Akureyri í gær.

Sigurður fjallaði um frelsi og fullveldi á 21. öld en frummælendur auk hans voru Eiríkur Bergmann Einarsson, Silja Bára Ómarsdóttir og Ágúst Þór Árnason.

Sigurður segir umræðu um ESB hérlendis í skötulíki og einkennast af upphrópunum. Hann segir að ræða þurfi ýmsar spurningar, svo sem hvort Íslendingar gætu haft áhrif innan Evrópuþingsins, ráðherraráðsins og víðar en vildi ekkert fullyrða um það sjálfur. „Það þarf upplýsta umræðu, ekki áróðursumræðu, hvorki með né á móti.“

Varðveisla menningar

*Þrítugasta og önnur úthlutun Þjóðhátíðarsjóðsins *Úthlutað var 56 styrkjum að upphæð 30,4 milljónir

Eftir Sunnu Ósk Logadóttur

sunna@mbl.is

RÚMLEGA þrjátíu milljónum króna var úthlutað úr Þjóðhátíðarsjóði í gær til 56 ólíkra verkefna. Þetta er í 32. sinn sem úthlutað er úr sjóðnum.

Tilgangur sjóðsins er að veita styrki til stofnana og annarra aðila, er hafa það verkefni að vinna að varðveislu og vernd þeirra verðmæta lands og menningar, sem núverandi kynslóð hefur tekið í arf. Við það skal miðað, að styrkir úr sjóðnum verði viðbótarframlög til þeirra verkefna, sem styrkt eru, en verði ekki til þess að lækka önnur opinber framlög til þeirra eða draga úr stuðningi annarra við þau.

Í stjórn sjóðsins sitja nú: Margrét Bóasdóttir, söngkona, formaður, skipuð af forsætisráðherra, Eiríkur Guðnason, seðlabankastjóri, varaformaður, tilnefndur af Seðlabanka Íslands, Jónína Michaelsdóttir, rithöfundur, Margrét K. Sverrisdóttir, varaborgarfulltrúi og Björn Teitsson, magister, sem kjörin eru af Alþingi. Ritari sjóðsstjórnar er Sigfús Gauti Þórðarson, lögfræðingur.

Alls barst 161 umsókn um styrki að fjárhæð um 229 millj. kr. Úthlutað var að þessu sinni 56 styrkjum að fjárhæð samtals kr. 30.400.000 og hlutu eftirtaldir aðilar hæstu styrkina: Félag um endurreisn Listasafns Samúels í Selárdal hlaut tvær milljónir, Stofnun Árna Magnússonar, orðfræðisvið og Ljósmyndasafn Íslands, Þjóðminjasafni hlutu 1,5 milljónir hvor og Ljósmyndasafn Reykjavíkur og Skriðuklaustursrannsóknir, félag, hlutu milljón hvor.

Þá var m.a. úthlutað styrkjum til rannsóknar og öflunar heimilda um íslenska byssusmíði, til skráningar sögu heyrnarlausra í tilefni fimmtíu ára afmælis Félags heyrnarlausra árið 2010, til að hefja smíði lítilla trébáta (árabáta) til að tryggja að sú verkkunnátta varðveitist komandi kynslóðum og til að halda námskeið í torfhleðslu, svo örfá dæmi séu tekin.

Úthlutunarathöfn Þjóðhátíðarsjóðs fór fram í Þjóðmenningarhúsinu við Hverfisgötu í Reykjavík í gær.

Seðlabanki Íslands annast ritara- og skrifstofustörf fyrir Þjóðhátíðarsjóð samkvæmt nánara samkomulagi milli bankans og sjóðsstjórnar.

„Þurfum að virkja hugvitið“

„VIÐ þurfum ekki að fara dult með það að fjármálahrunið kom flestum Íslendingum í opna skjöldu. Yfirleitt gerðu menn sér ekki grein fyrir því að öll þjóðin hefði verið látin bera ábyrgð á þessari svonefndu útrás og hátimbruðum höllum peninganna, sem voru í öllum fréttum kynntar með glæsibrag,“ sagði Vigdís Finnbogadóttir, fyrrv. forseti, þegar hún ávarpaði fund sendiráðs Íslands í London gær.

Að sögn Vigdísar fylgir því mikill andlegur sársauki þegar vegið er að sjálfsvirðingu þjóðarinnar, en þá sé jafnframt brýnt að festa sig ekki við dóma annarra, heldur vita sjálfur gleggst fyrir hvað maður standi og skoða það grannt. „Það býr mikið sameiginlegt stolt í Íslendingum og við finnum fyrir ríkri sjálfsvirðingu,“ sagði Vigdís og tók fram að þeir sem orðið hefðu fyrir áfalli mættu sækja styrk í þá staðreynd. Hún sagði það særandi þegar fjallað væri um Íslendinga eins og þeir allir sem heild hefðu staðið að glannalegum athöfnum sem ekki hafa reynst för til frægðar. „Við venjulegt íslenskt fólk göngum til daglegra verka ugglaus og samviskusöm, vinnusöm og heiðarleg og það er einmitt þessi vinnusemi og heiðarleiki sem gerði okkur að sjálfstæðri þjóð.“

Að mati Vigdísar er mikilvægt nú um stundir að Íslendingar standi þétt saman og leiti styrks í því stóra sem þjóðin eigi saman. Nefndi hún í því samhengi landið, tunguna, menntun, hugvit og afkomendur. „Nú, á tímum andstreymis, þurfum við að virkja allt það hugvit sem býr í okkur, öllum sem einum.“ silja@mbl.is

Fjársjóður til framtíðar hjá HÍ

„FJÁRSJÓÐUR framtíðar“ nefnist átaksverkefni til næstu þriggja ára sem Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, kynnti í gær á samkomu sem rektor og Stúdentaráð HÍ efndu til í tilefni fullveldisdagsins. Átaksverkefninu er ýtt úr vör í tilefni 100 ára afmælis skólans árið 2011 og mun standa til 1. desember á aldarafmælisárinu. Í framsögu sinni boðaði Kristín áframhaldandi öflugt rannsóknastarf, skapandi samstarf við atvinnulífið í landinu og stuðning við nýrækt á öllum sviðum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá HÍ.

Í ræðu sinni lagði Kristín áherslu á að aldrei hefði verið jafn mikilvægt fyrir þjóðina að eiga öflugan rannsóknaháskóla sem standist alþjóðlegan samanburð. Hann væri lykill að því að á Íslandi yrði í framtíðinni þekkingarknúið atvinnulíf, svo sporna megi við atgervisflótta vel menntaðs fólks. Sagði hún nafngift átaksverkefnisins vísa til þeirrar auðlegðar sem búi annars vegar í öflugu starfsliði Háskóla Íslands og hins vegar í stúdentum og þeim kynslóðum sem nú séu að vaxa úr grasi og munu á næstu árum og áratugum brautskrást frá skólanum.

„En orðið fjársjóður vísar jafnframt til þess að rekstur og þróun öflugrar menntastofnunar í fremstu röð útheimtir mikla fjármuni og öflun sjálfsaflatekna er mikilvægur liður í fjármögnun háskólastarfs,“ sagði Kristín og tók fram að þó efnahagsástandið væri nú erfitt myndi HÍ eftir sem áður hlúa að góðu sambandi sínu við fyrirtækin í landinu.

Rannsaka fyrir opnum tjöldum

* Yfirheyrslur hjá rannsóknarnefndum á vegum danska þingsins eru öllum opnar og vekja jafnan mikla athygli * Rannsóknir geta tekið mörg ár * Skipaðar utanaðkomandi sérfræðingum

Eftir Rúnar Pálmason

runarp@mbl.is

FRÁ því ný löggjöf um rannsóknarnefndir á vegum danska þingsins var sett fyrir um tíu árum hafa fjögur mál verið tekin til rannsóknar og einu sinni hefur meirihluti þingsins hafnað bón minnihlutans um rannsóknir. Rannsóknir þingsins hafa tekið töluverðan tíma, jafnvel nokkur ár, og Claus Dethlefsen, þjóðþingsritari og aðallögfræðingur danska þingsins, segir að ávallt verði deilt um hvort betra sé að skipa nefndir sérfræðinga sem rannsaki mál ítarlega, en slíkt geti tekið töluverðan tíma, eða hvort stjórnmálamenn eigi að rannsaka mál og taki sér skemmri tíma.

Tamílmálið ýtti við þinginu

Dethlefsen hélt fyrirlestur á ráðstefnu um eftirlit löggjafarvaldsins með framkvæmdavaldinu sem forseti Alþingis boðaði til í gær, 1. desember.

Í kjölfar Tamílmálsins í Danmörku sem leiddi til afsagnar Pouls Schlüter voru sett ný lög um eftirlitshlutverk danska þingsins. Samkvæmt lögunum verður ráðherra að skipa rannsóknarnefnd óháðra sérfræðinga sé þess krafist af meirihluta þingsins. Í samtali við Morgunblaðið í gær sagði Dethlefsen að talið hefði verið betra að sérfræðingar sæju um rannsóknirnar frekar en þingmenn. Rannsóknir gætu stundum tekið mörg ár og framburðir vitna gætu verið misvísandi en slíkar rannsóknir væru ekki fyrir óvana. Dómarar og lögfræðingar eru gjarnan skipaðir í nefndirnar en ákveðið var að dómarar við Hæstarétt Danmerkur myndu ekki taka sæti í rannsóknarnefndum heldur dómarar við millidómstigið, Landsrétt.

Íraksstríðið ekki rannsakað

Málsmeðferð er lokið í þremur af þeim fjórum málum sem þingið hefur tekið til rannsóknar. Dethlefsen sagði að þetta væru ekki svokölluð stórmál og niðurstaða nefndanna ekki valdið afsögnum eða öðru slíku. Meirihlutinn hafnaði hins vegar að skipa rannsóknarnefnd til að rannsaka þátttöku Danmerkur í Íraksstríðinu.

Yfirheyrslur í rannsóknarnefndunum eru fyrir opnum tjöldum og vekja jafnan mikla athygli fjölmiðla sem sjálfir kanna málin ofan í kjölin samhliða því sem þingnefndin rannsakar. Upplýsingar sem þar koma fram geta því haft pólitískar afleiðingar, löngu áður en nefndirnar komast að niðurstöðu.

Frumkvæðið gjarnan frá ríkisstjórn

Í nágrannalöndum Íslands er tilteknum þingnefndum gjarnan falið frumkvæðið að því að kanna ásakanir á hendur ráðherrum um brot eða misfellur í starfi og búa slík mál undir meðferð þingsins og ákvarðanatöku. Engin íslensk þingnefnd hefur slíkt hlutverk og hér á landi virðist sem ríkisstjórnin eigi gjarnan frumkvæði að skipan slíkra nefnda, þótt stjórnarskráin geri ráð fyrir að þingið hafi þetta hlutverk.

Þetta kom fram í fyrirlestri Bryndísar Hlöðversdóttur, aðstoðarrektors Háskólans á Bifröst og formanns vinnuhóps forsætisnefndar Alþingis um þingeftirlit.

Hún sagði æskilegt að skýrar reglur væru um það innan þingsins hvaða aðili ætti að skoða ásakanir á hendur ráðherrum og eftir atvikum leggja til tiltekið verklag.

Bryndís benti einnig á að Alþingi hefur heimild í lögum til að skipa rannsóknarnefndir þingmanna en hefur lítið notað þá heimild. Einnig hafa verið skipaðar nefndir manna sem eru utan þings en starfsemi þeirra nefnda byggist þá á sérstökum lögum.

Benda má á að í þeim nefndum sem hafa verið skipaðar hafa vitnaleiðslur ekki verið fyrir opnum tjöldum, líkt og raunin er í Danmörku. Þá er gert ráð fyrir að dómari við Hæstarétt eigi sæti í rannsóknarnefnd sem á að kanna orsök fyrir falli bankanna.