Bjarney Magnea Jonna Arinbjarnardóttir fæddist á Skriðulandi í Arnarneshreppi 3. júní 1924. Hún lést á Sjúkrahúsi Akureyrar 23. nóvember síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Arinbjörn Árnason sjómaður og verkamaður og Unnur Björnsdóttir húsmóðir og klæðskeri. Bróðir hennar sammæðra Ingimar Davíðsson, látinn, Alsystkini Ragnheiður, látin, og Snorri, sem er einn á lífi. Fósturbróðir hennar var Skjöldur Guðmundsson, látinn. Dætur Bjarneyjar eru Arna Brynja Ragnarsdóttir og Anna Kristín Ragnarsdóttir. Sonur Örnu er Bjartmar Örnuson og börn Önnu og Guðmundar A. Sigurðssonar eru Sigurður Kristinn, Bjarni Fannar, Arinbjörn Ingi og Hera Margrét.

Útför Bjarneyjar fer fram frá Glerárkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30.

Með nokkrum fátæklegum orðum viljum við kveðja elsku Bjarneyju móðursystur mína, en við fjölskyldan eigum eftir að sakna hennar óendanlega mikið. Hún var alltaf til staðar fyrir okkur á Akureyri. Litla hlýlega risíbúðin hennar að Fjólugötu 8 var fastur viðkomustaður þegar við komum norður en þar bjó hún lengi ásamt dætrum sínum Örnu og Önnu.

Það var alltaf jafn notalegt að koma til hennar og nóg af frábærlega góðum heimabökuðum kökum og mat sem hún bar á borð fyrir okkur. Hún var alltaf boðin og búin að hýsa okkur og hún hafði alltaf nóg pláss fyrir næturgesti. Við munum minnast hennar með mikilli væntumþykju og þakklæti. Hún var sterk, ósérhlífin og hjartahlý kona sem braust í gegnum lífið af dugnaði og krafti sem einkenndi hennar kynslóð. Hún vann alla tíð mikið til þess að hafa nóg að bíta og brenna fyrir sig og sína.

Ég hef þekkt Frænku alla mína ævi, og hún hefur aldrei gengið undir öðru nafni en Frænka hjá mér og systrum mínum sem og öðrum systkinabörnum, en síðar einnig hjá Birni eiginmanni mínum, sonum okkar, tengdadóttur og barnabörnum.

Hin seinni ár heimsóttum við Björn hana að heimili hennar við Melasíðu á hverju sumri þar sem við áttum með henni margar ánægjustundir.

Elsku frænka, hjartans þakkir fyrir alla þína vinsemd og elskulegheit.

Elsku Arna og Anna, við sendum ykkur og fjölskyldum ykkar okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Margrét Árnadóttir

og fjölskylda.

Við kveðjum nú ástkæra vinkonu til margra ára, Bjarneyju Arinbjarnardóttur. Leiðir okkar lágu fyrst saman þegar við fluttum í Fjólugötu 8 sumarið 1981 en Bjarney bjó þá á efri hæð hússins ásamt dætrum sínum, þeim Örnu og Önnu. Þær systur hafði hún alið upp, einstæð móðirin og verkakonan, ásamt Arinbirni föður sínum og komið vel til manns.

Af áratugakynnum okkar af Bjarneyju, er óhætt að segja að þar hafi farið ein af þessum íslensku hvunndagshetjum, dugnaðarforkar sem vinna verk sín í kyrrþey og hverra lífsljós skín ætíð skært þrátt fyrir ágjöf og raunir. Bjarney var fædd og alin upp í Eyjafirði og akureyrskur miðbæingur eins og ég og lágu ættir okkar saman lengra aftur. Hún þekkti vel til foreldra minna, Bjarna og Ástu í Brekkugötu 3, og hélst sá vinskapur ævilangt.

Bjarney var vel greind sómakona og vel að sér um margt. Við áttum saman margar spjallstundirnar yfir kaffibolla og góðu bakkelsi hennar í gegnum árin. Bjarney fylgdist vel með í þjóðmálum og oft hafði hún miklar áhyggjur af öllu bramboltinu í samfélaginu. En var mikill húmoristi og gat líka gert grín að hlutunum.

Aldrei man ég til þess að styggðaryrði hafi gengið á milli okkar þau 22 ár, sem við deildum saman húsnæðinu að Fjólugötu 8. Í þessu notalega umhverfi ólust börnin mín upp, Jóhann og Birta, og síðar kom í húsið sonur Örnu, Bjartmar, sem dvaldi löngum hjá ömmu sinni á efri hæðinni og var henni mikill sólargeisli. Svo var það hann Sámur okkar, sem Bjarney leit til með, þegar ég var burtu vegna starfa minna. Öll þessi ánægjulega samvera og samvinna verður seint fullþökkuð enda mikil eftirsjá þegar Bjarney flutti úr húsinu fyrir nokkrum árum og festi kaup á lítilli jarðhæð í Þorpinu; stigarnir í Fjólugötunni voru orðnir henni erfiðir.

Bjarney unni Eyjafirði mjög og undi vel hag sínum í firðinum góða alla sína tíð og hafði litla þörf fyrir að sækja út fyrir hann. Guðirnir gefa þeim gleði, sem landið sjá, segir Davíð Stefánsson, í ljóði sínu Sigling inn Eyjafjörð. Við, sem þekktum Bjarneyju, vitum, að nú þegar hún heldur vegferð sinni áfram, mun hún líta nýja og helga jörð og eiga góða heimkomu. Friður sé með ástvinum Bjarneyjar. Blessuð sé minning góðrar konu.

Björg Bjarnadóttir

og fjölskylda,

Bjarni Sveinsson og Ásta

Sigmarsdóttir og fjölskylda.

Elsku frænka mín, mér þykir svo sárt að kveðja þig en kveð þig með miklum yl í hjarta. Ég var farin að hlakka svo mikið til að hitta þig í árlega jólaboðinu sem þú varst alltaf með á Þorláksmessu. Það var alltaf jafn indælt að mæta í það, stofuborðið hlaðið af fínum kræsingum sem þú og dætur þínar höfðu útbúið og að sjálfsögðu átti maður líka frábæra stund með ykkur.

Ég, eins og margir hverjir sem áttu þig að, á margar góðar og hlýjar minningar um þig og minning þín mun án efa lifa vel og lengi

Góður engill Guðs oss leiðir

gegnum jarðneskt böl og stríð,

léttir byrðar, angist eyðir,

engill sá er vonin blíð.

(Helgi Hálfdánarson.)

Þín frænka

Helga Þórey.