Á SÖGULEGUM tíma hefur mannkynið farið í gegnum tímaskeið uppgangs og niðursveiflu en alltaf þegar öll sund virtust lokuð reis mannveran upp, endurheimti mennsku sína og hélt áfram ferð sinni.

Á SÖGULEGUM tíma hefur mannkynið farið í gegnum tímaskeið uppgangs og niðursveiflu en alltaf þegar öll sund virtust lokuð reis mannveran upp, endurheimti mennsku sína og hélt áfram ferð sinni.

Jafnvel á hinum myrku miðöldum þegar ofurvald kaþólsku kirkjunnar hafði kúgað mannsandann um aldir og þröngvað upp á hann sinni frumstæðu heimsmynd þá rétti maðurinn úr sér á ný.

Með endurreisninni hafnaði maðurinn trúarkreddum og hjátrú og upphófst tímabil húmanisma og framfara á sviðum vísinda, lista og mennta. Upplýsingarstefnan leit dagsins ljós og með aukinni þekkingu og upplýsingu var kóngavaldi skipt út fyrir lýðræðislega stjórnarhætti.

Það ástand sem ríkt hefur á síðustu áratugum minnir óneitanlega á þennan rökkvaða tíma miðaldanna. Ríkt hefur alltumlykjandi trúarsetning um það hvað hreyfir heiminn og hvað ber að setja í æðsta gildi. Nú birtist hin guðlega forsjón ekki sem ímynd guðs á himni heldur ímynd fjármagnsins, peningagildisins, sem þarf nú að setja ofar öllu til þess að heimurinn farist ekki. Það eru ekki lengur prestar eða konungar sem taka umboð sitt beint frá almættinu heldur kallast þeir fjárfestar. Þessi nýju trúarbrögð, sem hafa fengið það þversagnarkennda nafn frjálshyggja, eru strangtrúarbrögð rétt eins og kaþólska trúin á miðöldum.

Kirkjan setti trúvillinga fyrir rannsóknarréttinn og brenndi þá sem ekki iðruðust. Í „siðmenntuðum“ þjóðfélögum frjálshyggjunnar eru menn ekki brenndir á báli ef þeir dansa ekki með, aðeins útskúfaðir og dæmdir ómerkir. Niðurlæging mannsandans er mikil þegar trúarkreddur og hjátrú tekur yfir og hneppir alla hugsun í dróma aðra en þá sem hinn boðaði rétttrúnaður viðurkennir.

Peningahyggjan hefur verið mikill dragbítur framfara á umliðnum öldum. Allri hugsun hefur verið þröngvað í farveg gróðaaflanna og öll menntun og þekking og jafnvel vísindastarf hefur snúist um að framfarirnar auki gróða fjármagnseigendanna, þrátt fyrir að það gangi þvert á hagsmuni og þarfir fólksins. Svo sem gerðist undir lok miðaldanna virðist nú komið að kaflaskilum í sögulegri forsögu mannsins. Á síðustu öld féll hugmyndakerfi kommúnismans sem hafði villst af leið og endað sem fámennis- og kúgunarvald. Í upphafi þessarar aldar féll hitt hugmyndakerfið, kapítalisminn eða nýfrálshyggjan eins og það hefur verið nefnt. Bæði kerfin áttu það sammerkt að valdið og fjármagnið var í höndum hinna fáu útvöldu.

Í kommúnismanum var reynt að sannfæra fólk um að ráðstjórnin væri einfaldlega hæfari og betri kostum búin en aðrir menn til þess að hugsa fyrir hina. Í tilfelli frjálshyggjunnar þurftu forgöngumennirnir hins vegar að vera sem mestum ókostum búnir. Þeir þurftu að vera gráðugir og helst mjög tillitslausir til þess að þeir víluðu ekki fyrir sér að útfæra trúarsetninguna, jafnvel þótt það kæmi niður á öðru fólki. Metnaðarleysi frjálshyggjunnar kom auk þess fram í því að þar var alfarið hafnað þeirri hugmynd að mannréttindi og velsæld skyldu ná til allra, heldur aðeins til hinna hæfu og verðugu. Sagan segir okkur að það er hægt að kúga manninn um stundarsakir en aldrei til lengdar. Fyrr eða síðar gerir hann uppreisn gegn þrúgandi kringumstæðum sínum og tekur völdin. Valdhafarnir gera sér ekki grein fyrir því að þótt almenningur sé seinþreyttur til vandræða þá mun hann bregðast við fyrr eða síðar og heimta sinn rétt.

Rétt eins og í hinni miklu kreppu mannsandans á miðöldum getum við nú skynjað ljós í myrkrinu. Af því niðurlægingarskeiði sem nú er að taka enda mun maðurinn reisa sig upp sem fyrr. Manngildið mun aftur blómstra og skapa litríkan heim nýrrar veraldar sem ætlaður verður fyrir alla en ekki einungis fyrir fáa útvalda. Manngildið, húmanisminn mun á ný lýsa veginn fram á við. Við þurfum nýja endurreisn. Við þurfum nýja hugsun, nýtt fyrirkomulag. Við þurfum nýjan húmanisma þar sem við köllum sjálf okkur til ábyrgðar og lærum að vinna saman að því þjóðfélagi sem við öll þráum. Þjóðfélagi sem stuðlar að hamingju og raunverulegu frelsi okkar og þeirra sem okkur þykir vænt um og þar sem enginn er skilinn útundan. Við þurfum að skapa þjóðfélag þar sem allir rúmast og eiginleikar allra virkjast með jákvæðum hætti jafnvel þótt peningaleg hagnaðarvon fylgi ekki í pakkanum. Við viljum réttlæti og mannréttindi öllum til handa.

Umsnúum nú dæminu, það gafst ekki vel að virkja það neikvæðasta í manninum. Virkjum nú það jákvæðasta. Og köllum ekki bara fáa útvalda til liðs, hvetjum alla til liðs og látum alla njóta góðs af. Komum nýrri endurreisn af stað. Nýhúmanismann til framtíðar!

Júlíus Valdimarsson, félagi í Húmanistahreyfingunni og talsmaður Miðstöðvar menningar.