Margbrotinn Rokkið eitt svalar ekki sköpunarþrá Ragnars Sólberg.
Margbrotinn Rokkið eitt svalar ekki sköpunarþrá Ragnars Sólberg.
Eftir Arnar Eggert Thoroddsen arnart@mbl.is RAGNAR Sólberg er kunnastur fyrir að leiða hina útúrsveittu og stuðvænu Sign, hafnfirska nútímaglysrokkssveit sem verður fengsælli með hverju árinu, ekki síst á rokkmiðun utan lögsögu gamla Fróns.

Eftir Arnar Eggert Thoroddsen

arnart@mbl.is

RAGNAR Sólberg er kunnastur fyrir að leiða hina útúrsveittu og stuðvænu Sign, hafnfirska nútímaglysrokkssveit sem verður fengsælli með hverju árinu, ekki síst á rokkmiðun utan lögsögu gamla Fróns.

Og þrátt fyrir að vera tiltölulega nýskriðinn yfir tvítugt á Ragnar þegar að baki tíu ára feril í tónlistinni en hann gaf út sólóplötuna Upplifun árið 1998, þá ekki nema ellefu ára gamall. Tíu ára afmæli þeirrar plötu er nú fagnað með nýrri sólóplötu, The Circle .

„Ég hef alla tíð verið að drífa mig rosalega mikið,“ segir Ragnar með rólyndislegri röddu. „Ég var farinn að hlaupa áður en ég gat labbað.

Gömul sál

Ég er frekar andfélagslegur verð ég að viðurkenna,“ segir hann svo þegar hann er spurður hvernig platan hafi nú skriðið saman, því að nóg er við að vera í rokkinu og rólinu. Sign nýkomin af mánaðarlöngum Bretlandstúr.

„Á meðan aðrir partíast skrepp ég niður í stúdíó og bý til tónlist. Efnið hefur safnast saman jafnt og þétt en ég fullklára lögin alltaf og mixa þau jafnóðum. Ég finn mig algerlega í stúdíóinu og get verið þar dögunum saman. Oft missi ég mig þar og skríð upp í rúmið níu að morgni.“

Ragnar leikur á öll hljóðfæri sjálfur; trommur, gítar, bassa, píanó, mandolín o.fl. en Helgi Egilsson leikur á kontrabassa.

„Þetta eru mjög strípaðar lagasmíðar,“ segir Ragnar. „Að vissu leyti til að fjarlægast rokkið, það eitt svalar ekki þörf minni sem tónlistarmaður. Sum lögin eru t.a.m. bara söngur og píanó og ég vandaði mig við að vera ekkert að missa mig í of miklu upptökuflúri. Ég vildi hafa náttúrulegt flæði í þessu, það þarf ekki að gíra allt upp í ellefu.“

Í Sign kemur Ragnar fyrir sem villtur og óstýrilátur rokkhundur en sú ímynd á ekki beint við anda þessarar plötu. Og er þetta kannski bara það: Ímynd?

„Þessi rokkaraímynd festist fljótlega við Sign og á tímabili byrjuðum við að verða það sem annað fólk sagði að við værum,“ lýsir Ragnar. „En ég er farinn að sjá frekar glöggt að andlitsmálning og leðurbuxur eru ekki skilyrði fyrir því að geta rokkað.“

Umföðmun

Ragnar talar í framhaldinu um ákveðnar persónubreytingar sem urðu á honum samfara plötugerðinni, nokkuð sem hefur verið að gerast að mestu undanfarinn mánuð eða svo. Hann eigi t.d. tvö stjúpbörn og það ásamt fleiru hafi fengið hann til að spá meira í lífið og tilveruna. Ragnar er auðheyranlega gömul sál þrátt fyrir ungt hylkið...

Plötunni lýsir hann sem mjög jákvæðri og fallegri, dökkum tónum hafi verið vikið burt.

„Þetta er ekki þunglyndisplata. Þetta er eiginlega þveröfugt, meira svona umföðmun á lífinu. Ég var með nokkur dökk og dimm lög en ég henti þeim einfaldlega.“

Ragnar og vinur hans Frosti Gnarr sáu svo um að sérhanna umslag og sauma en efnahagshrunið kom í veg fyrir framleiðslu utan landsteina. Fyrsta upplag er 200 eintök sem koma út á afmælisdegi Ragnars, 2. desember. Lagið „Soul Mates“ er nú farið í spilun á útvarpsstöðvum en það lag samdi Ragnar ásamt föður sínum Rafni Jónssyni sem lést fyrir fjórum árum af völdum MND-sjúkdómsins. Þetta lag er ástarjátning hans síðasta daginn sem hann lifði.

Rennireið Ragnars

Ragnar Sólberg kom fyrst fyrir sjónir manna sem meðlimur í hljómsveitinni Rennireið. Sveitin tók þátt í Músíktilraunum árið 1998 og komst í úrslit en meðlimir voru þá á tólfta ári. Svohljóðandi var umsögn Árna Matthíassonar um sveitina:

„Fyrsta sveit kvöldsins, Rennireið, byrjaði með stæl með bráðskemmtilegri keyrslu. Liðsmenn hennar eru vart af barnsaldri, en efnilegir í meira lagi, sérstaklega gítarleikari sveitarinnar, sem lék að auki á flest önnur hljóðfæri sem heyrðist í. Fyrsta lag Rennireiðar var bráðgott, annað síðra en þriðja lagið var einnig vel heppnað með skemmtilegum tilbrigðum í raddsetningu.“