Mig langar til að heiðra minningu móðursystur minnar og velgerðarkonu, Kristínar Arnbjargar Bogadóttur kjólameistara. Hún fæddist á Seyðisfirði 2. desember 1908 og lést í Reykjavík 17. september 1980. Hún var dóttir sæmdarhjónanna Erlínar Guðrúnar, f. 19. október 1882, Sigurðardóttur hreppstjóra í Firði í Seyðisfirði Jónssonar og konu hans Gunnhildar Árnadóttur af Hellisfjarðarætt, og Boga, f. 2. janúar 1878, Benediktssonar Olgeirssonar í Garði í Fnjóskadal og konu hans Kristínar Gísladóttur.

Bogi var góðum gáfum gæddur og hneigðist hugur hans til bóknáms. Hann útskrifaðist frá Möðruvallaskóla 1897 og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1904. Erlín og Bogi giftust árið 1905. Árið 1907 fluttust þau til Seyðisfjarðar og gerðist Bogi kennari við barna- og unglingaskólann. Þeim hjónum varð níu barna auðið. Tvö þeirra létust í frumbernsku. Sigurður hét elsta barnið, mikill efnispiltur en lést aðeins 16 ára að aldri og var foreldrunum mikill harmdauði. Hin börnin, en þau eru nú öll látin, voru í aldursröð Gunnhildur, gift Magnúsi Stephensen sjómanni, Kristín kjólameistari, Indriði tónlistarmaður, kvæntur Jóhönnu Ólafsdóttur, Ólafía, gift Agnari Breiðfjörð forstjóra, Bryndís, gift Sigurjóni Sigurðssyni útgerðarmanni og Sigríður, gift Karli R. Guðmundssyni úrsmíðameistara. Hjónin ásamt börnum sínum fluttust til Reykjavíkur árið 1924 og varð Bogi skrifstofustjóri hjá mági sínum, Magnúsi Guðmundssyni skipasmið. Bogi lést árið 1947.

Oft var þröngt í búi hjá þeim hjónum en þeim tókst með mikilli prýði að koma barnahópnum á legg og til frama. Eins og títt var á alþýðuheimilum þurftu börn og unglingar að hjálpa til við heimilisreksturinn og á unglingsárunum sinnti Kristín ýmsum störfum en árið 1932 vatt hún sínu kvæði í kross og hélt til Edinborgar. Þar nam hún verslunarfræði og undi hag sínum vel. Hún talaði síðar á lífsleiðinni oft við mig um Skotland og þá einkum Edinborg, því að þaðan átti hún góðar minningar. Kristín sneri heim eftir tveggja ára dvöl og vann við verslun jafnframt því sem hún hóf nám í kjólasaum hjá frú Helgu Sigurðsson, sem þá rak saumastofu auk verslunarinnar Gullfoss. Kristín varð kjólameistari árið 1944 og varð einn stofnenda Kjólameistarafélags Íslands og var í stjórn þess um margra ára skeið. Árið 1939 stofnaði hún ásamt Soffíu Þórðardóttur verslunina Kjólinn og ráku þær hana saman í Þingholtsstræti til ársins 1969 er Soffía lést en þá flutti Kristín verslunina Kjólinn í Bankastræti og stundaði þar verslunarrekstur þar til heilsan gaf sig árið 1975. Verslunina rak hún ein og óstudd með miklum myndarskap enda ósérhlífin. Hún var vinsæl kaupkona enda vandvirk og bóngóð.

Kristín var ógift og barnlaus og bjó í foreldrahúsum en árið 1953 festi hún ásamt foreldrum mínum, Sigríði og Karli , kaup á íbúð við Melhagann í Reykjavík og til okkar fluttust þá amma og Kristín. Það kann að hljóma undarlega en mér fannst rúmt um okkur, sjö í heimili í 90m² íbúð. Kristín sá um að sauma kjóla á kvenpening fjölskyldunnar. Sinnti hún því af kostgæfni og man ég hvað hún hafði mikla ánægju af því að punta mig á yngri árum. Á góðviðrisdögum klæddi hún mig oft upp og við spásséruðum um bæinn.

Árið 1964 flutti fjölskylda mín á Selfoss og skildi þá leiðir okkar Kristínar um tíma en samgangur var þó mikill á milli heimilanna, enda samband móður minnar og Kristínar náið. Árið 1967 lést amma og var Kristín þá ein á Melhaganum þar til ég flutti til hennar síðla árs 1968 vegna atvinnu minnar og bjuggum við saman til ársins 1978.

Það sópaði að Kristínu. Hún vakti hvarvetna athygli fyrir klæðaburð og fallega hatta sem hún ávallt bar og fágaða framkomu sem einkenndist af sjálfsöryggi. Hún var vel lesin og duldist það engum sem átti við hana tal. Verslunarrekstur Kristínar síðustu árin var oft á tíðum erfiður og fjárhagur hennar þá þröngur. Aldrei bar þó fas hennar þess merki að hún glímdi við fjárhagsvandræði. Skilvísi og heiðarleiki voru dyggðir sem Kristín hafði í heiðri og þegar starfsævi hennar lauk skildi hún sátt við.

Nægjusemi var Kristínu eðlislæg, enda var hún alin upp á barnmörgu heimili við þröngan kost. Lífshlaup Kristínar einkenndist af góðvild og velvilja til annarra. Aldrei minnist ég styggðaryrðis frá henni eða að hún hafi lagt illt orð til nokkurs manns og voru þó stundum ærin tilefni að mér fannst. Andstreymi lífsins setti ekki mark sitt á hana heldur var hún lífsglöð og lagði alltaf gott til málanna.

Kristín var mér sem önnur móðir. Hyggindi hennar og yfirvegun áttu hvað mestan þátt í að móta mig og hugsa ég ávallt til hennar með hlýju og virðingu. Síðustu árin voru Kristínu erfið. Hún missti þrjár systur sínar með skömmu millibili, Gunnhildi í september 1977 og Bryndísi og Sigríði í september 1978. Hún veiktist af parkinsonsveiki sem með árunum ágerðist og frá 1975 átti hún orðið erfitt með allar hreyfingar. Andlegri heilsu hélt hún að mestu til hinstu stundar og hún kvaddi þennan heim með reisn.

Kolbrún K. Karlsdóttir.