Bergrún Jóhanna Ólafsdóttir fæddist á Ósi í Borgarfirði eystra hinn 11. ágúst 1939. Hún varð bráðkvödd á heimili sonar síns í Reykjavík 9. nóvember síðastliðinn, 69 ára að aldri.

Útför Bergrúnar fór fram frá Egilsstaðakirkju 22. nóv. sl.

Elsku besta Begga mín.

Nú á ég fá fátækleg orð til að lýsa því hvað skyndilegt og ótímabært fráfall þitt tekur á mig. Alla tíð hefur þú komið fram við mig eins og þitt eigið barn, sýnt öllu því sem ég tek mér fyrir hendur svo mikinn áhuga og kynnt þér allt til hins ýtrasta. Hvort sem það er fótboltastússið, leiklistin, matreiðslan eða hvað sem er. Þú varst alltaf stolt af mér þegar vel gekk, klappaðir mér á bakið þegar eitthvað á móti blés og hikaðir ekki við að láta mig heyra það þegar ég gat gert betur, eins og að fara vel með peningana mína eða fyrir að láta ekki sjá mig á fjölskyldumótum.

Allar mínar minningar um þig, Begga, eru jákvæðar. Sagan um mig og golfið heima í Bjarkarhlíðinni í útskriftarveislunni hennar Guðnýjar frænku er auðvitað óborganleg ísikatt ! Ég svaf víst vært eftir þá veislu. Ég man hvað ég hlakkaði alltaf til að koma í Bjarkahlíðina til ykkar Ara í kringum jól og áramót. Jólagrauturinn sem ég lærði aldrei að borða, með bestu karamellusósu í heiminum. Þú kenndir mér að búa hana til og ég ætla að gera hana um jólin.

Í seinni tíð er það svo Þorláksmessuskatan í Einbúablá sem stendur upp úr. Mér finnst skata hundvond, en hún hefur verið algerlega ómissandi partur af mínum jólum síðustu árin og þannig verður það áfram, þér til heiðurs. Skata, saltfiskur, hamsar og bjór. Og svo eru málin rædd fram og til baka, þjóðfélagsvandamálin leyst á einu bretti. Síðasta Ósættarmót stendur líka upp úr, elsku Begga. Þegar þú tókst á móti okkur „ljótu börnunum“ og passaðir upp á að okkur vantaði ekkert, hvorki þurrt né blautt, í Gamla Jörfa. Það skipti engu máli hvað klukkan gekk, það þurfti að passa upp á okkur.

Þær eru óteljandi minningarnar um harðduglega, yndislega og elskulega konu sem skjóta sér upp í kollinn á mér, þar sem ég sit og skrifa þessi orð. Ég veit að þú ert á mun betri stað núna, Begga mín, hjá honum Ara þínum. Megi Guð og gæfan fylgja þér alla leið. Hvíl í friði.

Þinn einlægur,

Ólafur Ágústsson.

Það var sorgarfrétt fyrir ættingja og vini Bergrúnar þegar sú frétt barst sunnudaginn 9. nóvember að hún væri látin.Óvænt sorgarfrétt sem enginn hafði reiknað með. Hún Begga systir sem við höfðum talið svo hrausta og hressa, fyrir utan þá venjulegu slitverki sem hrjá okkur sem eigum áratugina að baki.Nú þegar ég sit við eldhúsgluggann í Gamla Jörfa, hlusta á sjávarniðinn og suðið í Sóló eldavélinni, þann tón sem tilheyrir þessu húsi einu, rifjast upp bernskuárin á þessum stað þar sem við sjö systkinin slitum barnsskónum í skjóli góðra foreldra. Samfélagið á Borgarfirði eystra á þeim árum samanstóð af fátæku fólki í þeim skilningi að veraldargæðin voru takmörkuð en því meiri var samstaðan og samhjálpin. Í Gamla Jörfa var oft þröngt setinn bekkurinn í þessu litla húsi þar sem orðið þrengsli eða plássleysi var ekki til enda oft gestkvæmt þar og heitt á könnunni. Þar deildum við systkinin saman herbergi undir súð og veraldlegar eignir komust fyrir í kistli eða kassa. Begga var elst okkar systkinanna. Allt fram til dauðadags gegndi hún ósýnilegu og óumsömdu forystuhlutverki í systkinahópnum. Seint getum við þakkað þá umhyggju sem hún sýndi foreldrum okkar þegar elli og sjúkdómar sóttu að. Ótaldar voru ferðirnar sem hún fór frá Egilsstöðum niður á Borgarfjörð til að líta til með þeim. Þegar þar kom sögu eftir lát foreldra okkar að við tókum við æskuheimili okkar, Gamla Jörfa og eignuðumst þar orlofs og hvíldarstað, var hún sjálfskipaður tilsjónarmaður með fjármálum hússins og stóð þar allt sem stafur á bók. Ef til stóð að fara í Jörfa var ævinlega hringt í Beggu og tilkynningarskyldu sinnt. Eins var ef maður vildi fá fréttir af einhverjum í sístækkandi hópi „Jörfaliða“ var aldrei komið að tómum kofunum hjá henni. Árið 1960 giftist Begga, Ara Sigurbjörnssyni frá Gilsárteigi, Eiðaþinghá. Þau bjuggu þar og ráku fjárbú fram til ársins 1965 en fluttu þá í Egilsstaði, byggðu sér þar fallegt einbýlishús og ræktuðu garð að Bjarkarhlíð 3. Það var gott að koma í Bjarkarhlíðina enda gestkvæmt þar og gestrisni mikil. Ósjaldan komum við Ragna mín við þar með barnahópinn og ævinlega biðu okkar uppbúin rúm til næturgistingar og kræsingar á borðum að ógleymdum þeim hlýhug sem þar ríkti. Síðar keyptu þau sér fokhelt raðhús að Einbúablá 44. Þar innréttuðu þau sér fallega íbúð þar sem sjá má fagra listmunir og handverk eftir Beggu skreyta borð og veggi. Í lok október sl. kom Begga í heimsókn til okkar að Litlu Brekku. Þessi heimsókn var fremur óvænt enda hafði hún ekki komið til okkar í mörg ár. Það var ró yfir okkur, borðaður kvöldverður á Litlu Brekku , spjallað fram eftir kvöldi og gist. Þetta varð okkar síðasta samvera, rúmri viku síðar var hún látin.Fyrir þessa stund erum við ólýsanlega þakklát svo og aðrar samverustundir sem við áttum með henni.

Elsku Óli, Helga og fjölskyldur. Mikill er missir ykkar og söknuður. Huggunin er ljúf minning um elskulega móður og vin. Megi guð blessa minningu elskulegrar systur.

Stefán Ólafsson