Ræktun Miklir möguleikar felast í akuryrkju og aukinni ræktun. Myndin var tekin af vinnu við pökkun papriku í garðyrkjustöðinni Jörva á Flúðum.
Ræktun Miklir möguleikar felast í akuryrkju og aukinni ræktun. Myndin var tekin af vinnu við pökkun papriku í garðyrkjustöðinni Jörva á Flúðum. — Morgunblaðið/Sigurður Sigmundsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þegar litið er til baka yfir þetta ár, af þeim sem eiga svo mikið undir sól og regni, er óhætt að segja að þetta hafi verið með bestu uppskeruárum er allan jarðargróða varðar hér í uppsveitum Árnessýslu.

Þegar litið er til baka yfir þetta ár, af þeim sem eiga svo mikið undir sól og regni, er óhætt að segja að þetta hafi verið með bestu uppskeruárum er allan jarðargróða varðar hér í uppsveitum Árnessýslu. Bændur segja heyfeng þann mesta sem verið hefur enda tún sumstaðar slegin þrisvar. Heygæði eru mikil og kýrnar mjólka af kjarngóðu heyinu. Metuppskera var á korni hjá mörgum bændum enda sumarið heitt og sólríkt. Þó varð nokkurt tjón á ökrum, kornið lagðist sumstaðar niður eða brotnaði í illviðrum í september og byrjun október.

Akuryrkja fer vaxandi hér enda hafa bændur náð allgóðum tökum á kornræktinni, hlýnandi veðrátta hjálpar líka til. Þá eru sterkari yrki á boðstólum sem fengist hafa með kynbótum. Vel hefur verið unnið að þeim hjá Landbúnaðarháskóla Íslands á undanförnum árum.

Garðyrkjubændur fengu einnig góða uppskeru, var hún með besta móti þegar á heildina er litið. Jöfn og góð sala hefur verið í grænmetinu enda mun innflutningur þess hafa minnkað vegna gengisþróunar. Neytendur kunna æ betur að meta íslenska grænmetið.

Það kemur ferskt á markað og fólk veit að það er ræktað án spilliefna. Skrifari hefur spurt nokkra garðyrkjubændur hvað sé til fyristöðu að auka útiræktun grænmetis sem þeir íhuga nú sumir að gera. Svarið hefur aðallega verið vöntun á fólki í vinnu við uppskerustörf. Kannski breytist það nú með atvinnuleysi? Meginhluti þess fólks sem hefur unnið á garðyrkjustöðvunum á undanförnum árum er útlendingar. Allnokkur hópur þess er sestur hér að og á börn í skólum.

Fæðuöryggi er hugtak sem margir ræða nú, æ fleiri gera sér grein fyrir mikilvægi íslensks landbúnaðar, hve fjölbreytta gæðafæðu er hægt að rækta hér. Sóknarfærin eru mörg. Enginn efast lengur um að vænlegast er að við Íslendingar séum sjálfum okkur nógir um nauðsynlegustu matvæli. Það mikla orkuöryggi sem við búum yfir með nýtingu heita vatnsins og þeirri miklu sjálfbæru raforku sem við eigum er auðvelt að nota til fjölbeyttrar matvælaframleiðslu. Nú sem aldrei fyrr er mikill áróður um að velja íslenskar vörur, sem skrifara þykir að hefði mátt hugleiða fyrr. „Kannski þeir fari að flytja minna inn af kengúrukjötinu,“ varð einum sauðfjárbóndanum að orði með bros á vör á dögunum þegar gjaldeyrismál bar á góma.

Félagslíf er mikið og fjölbreytt nú sem endranær. Að venju eru haldnar aðventusamkomur. Karlakór Hreppamanna hélt fjölmennt karlakvöld um síðustu helgi. Vörðukórinn, sem er blandaður kór, hélt söngskemmtun helgina áður. Bráðskemmtilegt hagyrðingakvöld var haldið í Aratungu á vegum Lionsmanna fyrir nokkru. Hótelin og veitingahúsin bjóða upp á jólahlaðborð og eitt þeirra villibráðarhlaðborð nokkrar helgar.

Eldriborgarar koma saman vikulega í öllum sveitarfélögunum yfir vetrartímann og bridsfélagar hittast vikulega. Þannig að mannlífið er blómlegt. Sveitarstjórar segja að ekki sé mikið farið að bera á atvinnuleysi.

Sigurður Sigmundsson

Höf.: Sigurður Sigmundsson