ÉG OG mitt fólk sátum andaktug fyrir framan sjónvarpið og fylgdumst með borgarafundi í Háskólabíói í síðustu viku. Ég var stoltur og ánægður. Þarna var sko fólk með reisn. Stórt af ríkisstjórninni að mæta.

ÉG OG mitt fólk sátum andaktug fyrir framan sjónvarpið og fylgdumst með borgarafundi í Háskólabíói í síðustu viku. Ég var stoltur og ánægður. Þarna var sko fólk með reisn. Stórt af ríkisstjórninni að mæta. Heilbrigð og góð skoðanaskipti fóru fram, lýðræði, og sumir ráðamenn létu meira að segja glitta í langþráða auðmýkt.

Fundinum lauk, auglýsingahlé og tíufréttir.

Þá skyndilega mætti blákaldur veruleikinn, þungur, leiðinlegur og skilningssljór. Geir og Ingibjörg, sem venjulega stilla sér upp fyrir framan Drekkingarhyl eftir Ásgrím, voru nú búin að koma sér fyrir við salarútganginn í Háskólabíói umkringd öryggisvörðum. Þeim tókst fljótt og vel að slökkva allar tálvonir og væmnishjal undirritaðs. Auðmýktin var farin út í veður og vind, Geir sló öllu upp í Þjóðviljabrandara, líkti samkomunni við Þjóðviljann sem engin var nú þjóðviljinn, hoj, hoj. Allt ónýtt. Vonandi síðasti brandari sjálfstæðismanna á kostnað verkalýðsbaráttu 20. aldar! Þau minntu mig á hverslags auli og liðleskja ég væri með því að sitja fyrir framan sjónvarpið. Þau gáfu það í skyn að í Háskólabíói sæti bara öfgalýður og lið sem engan veginn endurspeglaði vilja fólksins í landinu. Ég sem hélt að þau hefðu verið að hlusta.

Samkvæmt orðum þeirra er ég þá orðinn partur af hinum þögla meirihluta sem styður ríkisstjórnina þar sem ég hef ekki verið virkur þátttakandi í mótmælum. Allar samkomur eru bara húmbúkk út af þeim sem heima sitja. Nú verðum við semsagt öll að drífa okkur út úr húsi. Þegar það verða 100.000 á Austurvelli munu þau kannski hlusta. Allt annað er barasta Þjóðviljinn!

Kæru samseku liðleskjur, sjáumst á Austurvelli.

Ragnar Kjartansson myndlistarmaður.