Eftir Gunnhildi Örnu Gunnarsdóttur gag@mbl.is MIKLU máli skiptir að fá erlenda fjárfesta að rekstri nýju bankanna. Fulltrúar skilanefnda gömlu bankanna þriggja hafa um nokkurt skeið rætt við kröfuhafa þeirra með það í huga.

Eftir Gunnhildi Örnu Gunnarsdóttur

gag@mbl.is

MIKLU máli skiptir að fá erlenda fjárfesta að rekstri nýju bankanna. Fulltrúar skilanefnda gömlu bankanna þriggja hafa um nokkurt skeið rætt við kröfuhafa þeirra með það í huga. Þetta segir viðskiptaráðherra, Björgvin G. Sigurðsson.

Björgvin segir bankana þurfa öflugt bakland og fjölbreytt- og dreift eignarhald. Það myndi skjóta frekari stoðum undir framtíðarrekstur bankanna.

„Það mun mæða á okkur að aðstoða og endurskipuleggja rekstur margra stórra fyrirtækja. Bankarnir verða að öðlast trúverðugleika erlendis til að geta sótt fjármagn og stuðning þangað.“

Ekki náðist í forsvarsmenn skilanefndanna en Valur Valsson, formaður bankaráðs Glitnis, segir sína skoðun þá að eignaraðild kröfuhafa gæti styrkt stöðu nýju bankanna og aukið líkur á að fyrr gengi að koma á legg eðlilegum bankaviðskiptum erlendis. „Nýju bankarnir eru enn að stunda sín gjaldeyrisviðskipti í gegnum Seðlabankann. Enn á eftir að koma á fót nýjum viðskiptasamböndum fyrir þá erlendis.“

Björgvin segir allt opið um hversu stóran hlut erlendu kröfuhafarnir megi eiga. „Það eru stórpólitískar ákvarðanir sem stjórnvöld munu koma beint að.“

Hann bendir þó á að ferlið sé á byrjunarstigi og aðeins í skoðun. „Þegar ríkið losar um eignarhald í bönkunum tel ég mikilvægt að eignarhaldið verði dreift svo sagan endurtaki sig ekki. Einnig að ríkið eigi áfram tiltekinn hlut í einhverjum bankanna, eins og við þekkjum í Noregi, og í þriðja lagi aðkoma erlendra aðila að bönkunum og eins og nú er í skoðun hvort flötur sé á því að erlendu kröfuhafarnir komi þar að.“ Björgvin segir erlent eignarhald geta verið mikilvægt til að rjúfa vítahring krosseignarhalds og eignatengsla í athafnalífinu. „Slík eignatengsl, sérstaklega milli fjármálafyrirtækja og annarra fyrirtækja, eru mjög óheppileg og skaðleg og þetta gæti verið lykilatriði til að rjúfa þann vítahring.“