Björg Bjarnadóttir
Björg Bjarnadóttir
Björg Bjarnadóttir hvetur yfirvöld til að gæta að hag barna: "Okkur er ekki sama um yngstu þjóðfélagsþegnana, sem betur fer, og börn eiga alltént enga sök á versnandi efnahag."

BÖRN eru forvitin í eðli sínu, þau eru hreinskilin og tala beint frá hjartanu af sinni barnslegu einlægni, þau eru hvatvís, spyrja og velta vöngum, vilja svör, þurfa athygli. Þau eiga allt hið besta skilið. Þau eru framtíðin.

Raunveruleikinn

Í ólgusjó undanfarinna mánaða velta börn mörgum spurningum fyrir sér. Flest hafa þau skarpa athyglisgáfu og skynja meira en margur gerir sér grein fyrir. Fullorðna fólkið setur í brýrnar, er stutt í spuna og hlustar á fréttir öllum stundum. Börnin finna á sér þegar eitthvað er ekki eins og það á að vera. Þau eru áhyggjufull og það sem meira er, þau eru tilbúin að taka á sig sök ef því er að skipta til að verja sína nánustu. Það kemur ekki á óvart að mörg börn hafa áhyggjur um þessar mundir af mömmu og/eða pabba sem kannski hafa misst vinnuna, af peningaleysi, jólunum, vinum sínum sem eru í vanda og þannig mætti lengi telja. Svona er þetta vegna þess að veruleiki fullorðinna er líka veruleiki barna.

Óskaveruleikinn

Börn vilja að allt sé gott, öllum líði vel, allir séu góðir hver við annan, hafi vinnu, mat og hús. Þetta á líka við um okkur, hina fullorðnu, en munurinn er sá að við höfum þekkingu og reynslu til að skilgreina, skilja og meta. Börn eiga hins vegar oft erfitt með að skilja og greina aðstæður nema þær séu settar í samhengi sem þau þekkja. Börnin þrá ekkert heitar en öryggi, gleði og gefandi samveru með vinum og fjölskyldu.

Leikskólaveruleikinn

Við á Íslandi erum heppin, við höfum fyrirmyndarskólakerfi , meðal annars góða leikskóla sem flest börn eiga kost á að sækja. Á tímum sem þessum er mjög mikilvægt að ung börn hafi festu í daglegum venjum, jafnt heima sem og heiman. Þess vegna er hlutverk leikskólans aldrei mikilvægara en á þrengingatímum. Í leikskóla hittast börn á jafningjagrundvelli og njóta sín í leik og starfi með vinum sínum. Þar fá þau útrás fyrir tilfinningar sínar, þörfum sínum mætt og geta deilt bæði gleði og sorg. Þar er þeim mætt af alúð, virðing fyrir margbreytileika er í forgrunni og litið er á viðfangsefni, bæði hlutlæg og huglæg, sem tækifæri til að læra og þroskast.

Efnahagsveruleikinn

Gera má ráð fyrir að flest heimili hafi minna á milli handanna en fyrir tveimur mánuðum síðan, í sumum tilvikum umtalsvert minna. Það er til að mynda erfitt fyrir atvinnulausa foreldra að standa hugsanlega frammi fyrir því að velja um að greiða fyrir leikskólann eða af húsnæðisláninu. Okkur er ekki sama um yngstu þjóðfélagsþegnana, sem betur fer, og börn eiga alltént enga sök á versnandi efnahag. Það má ekki gerast að þau missi þann dýrmæta hornstein sem leikskólinn er þeim vegna tímabundinna fjárhagserfiðleika foreldra. Yfirvöld verða að sjá til þess að slíkt hendi ekki eitt einasta barn á Íslandi. Glötuð tækifæri bernskunnar koma ekki aftur.

Höfundur er formaður Félags leikskólakennara

Höf.: Björg Bjarnadóttir hvetur yfirvöld til að gæta að hag barna