Endurreisnarsjóður Nýr fjárfestingarsjóður mun fjárfesta í íslenskum fyrirtækjum í öllum atvinnugreinum, sem lent hafa í fjárhagserfiðleikum vegna yfirstandandi þrenginga en eiga sér vænlegan rekstrargrundvöll.
Endurreisnarsjóður Nýr fjárfestingarsjóður mun fjárfesta í íslenskum fyrirtækjum í öllum atvinnugreinum, sem lent hafa í fjárhagserfiðleikum vegna yfirstandandi þrenginga en eiga sér vænlegan rekstrargrundvöll. — Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Þorbjörn Þórðarson thorbjorn@mbl.is NOKKRIR stórir lífeyrissjóðir vinna nú að stofnun sérstaks fjárfestingarsjóðs í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins. Óopinbert vinnuheiti sjóðsins var, þangað til fyrir skömmu, Endurreisnarsjóður...

Eftir Þorbjörn Þórðarson

thorbjorn@mbl.is

NOKKRIR stórir lífeyrissjóðir vinna nú að stofnun sérstaks fjárfestingarsjóðs í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins. Óopinbert vinnuheiti sjóðsins var, þangað til fyrir skömmu, Endurreisnarsjóður atvinnulífsins.

„Hugmyndir um eiginfjárframlag lánardrottna og umbreytingasjóði sem kynntar voru í grein í Mbl. í dag [í gær] líst mér að mörgu leyti vel á enda hefur á liðnum vikum verið unnið að undirbúningi að stofnun slíks sjóðs á vettvangi lífeyrissjóðanna og aðila vinnumarkaðarins,“ segir Þorgeir Eyjólfsson, forstjóri Lífeyrissjóðs verzlunarmanna.

Hugmyndin til á neyðarfundi

„Hugmyndin að þessum sjóði kviknaði mjög snemma á sérstökum neyðarfundum sem voru haldnir í kjölfar hruns bankanna,“ segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Auk SA og stærstu lífeyrissjóðanna koma ASÍ og Viðskiptaráð að stofnun sjóðsins. Stofnun hans verður með þeim hætti að lífeyrissjóðirnir leggja honum til fjármagn sem fjárfestar, en stofnfé mun hlaupa á tugum milljarða króna.

„Við höfum aðallega hagsmuni af því að sjóðurinn verði stofnaður, nýtist atvinnulífinu og geti haldið störfum lifandi,“ segir Vilhjálmur. Hann segir að SA muni beita sér fyrir því að fagmenn annist stýringu eigna sjóðsins, en aðkoma samtakanna verði lítil að öðru leyti.

Undirbúningur langt kominn

Undirbúningur að stofnun sjóðsins er vel á veg kominn, samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins.

Í grein hagfræðinganna Guðrúnar Johnsen og Sigurðar Ingólfssonar í Morgunblaðinu í gær var sett fram hugmynd um sérstaka umbreytingasjóði sem myndu gegna því hlutverki að vinna úr svokölluðum fullnustueignum bankanna.

Hlutverk Endurreisnarsjóðs atvinnulífsins verður ekki ósvipað hlutverki þeirra umbreytingasjóða sem Guðrún og Sigurður lýsa í grein sinni. Í greininni kemur fram að bæði ríkið og lífeyrissjóðirnir hafi einfalda og skýra hagsmuni af því að tryggja að atvinnustig hækki hratt eftir samdráttarskeið, vegna þess að tekjur þeirra standa í réttu hlutfalli við umsvif atvinnulífsins. Bæði ríkið og lífeyrissjóðirnir hafi hvata og bolmagn til þess að fjármagna umbreytingasjóði.

„Hlutverk sjóðsins verður að taka þátt í og móta fjárhagslega og rekstrarlega endurreisn íslensks atvinnulífs í kjölfar falls fjármálakerfisins,“ segir Þorgeir. „Sjóðurinn mun fjárfesta í íslenskum fyrirtækjum í öllum atvinnugreinum, sem lent hafa í fjárhagserfiðleikum vegna yfirstandandi þrenginga en eiga sér vænlegan rekstrargrundvöll,“ segir Þorgeir. Fyrirtæki sem afli gjaldeyristekna eða spari gjaldeyri með starfsemi sinni séu sérstaklega áhugaverð í þessu sambandi. Markmiðið með starfsemi sjóðsins verði að ná vænlegri arðsemi á fjárframlög lífeyrissjóðanna.

Ekki björgunarsjóður

Sjóðurinn verður líklega rekinn sem hlutafélag en samlagsfélagaformið hentar aðkomu lífeyrissjóða að rekstri sjóða af þessu tagi og því hafa menn ekki útilokað það.

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir að mörg fyrirtæki séu umkomulaus og hafi tapað eigin fé sínu. ASÍ hafi talið mikilvægt að sett yrði í gang vinna til þess að endurfjármagna þau fyrirtæki sem séu lífvænleg og arðbær. „Þorgeir Eyjólfsson tók að sér, fyrir hönd lífeyrissjóðanna, að vinna þessa hugmynd áfram og markmiðið er stofnun sjóðs sem hafi þetta hlutverk og hann fái fleiri aðila til samstarfs. Stjórnvöld, bankana og mögulega erlenda aðila,“ segir Gylfi. Hann áréttar að ekki sé um björgunarsjóð að ræða heldur verði þetta fjárfestingarsjóður sem muni meta tækifæri út frá ávöxtunarlíkum. Ekki liggur fyrir hvernig aðkomu ríkisins að sjóðnum verður háttað ef það mun koma að honum á annað borð.

Mikilvægt að koma á fót markaði með eignir

Bent hefur verið á mikilvægi þess að koma á fót markaði með eignir sem nýju bankarnir eiga óbeint vegna skulda eigenda þeirra við bankana. Sérstaklega í ljósi þess að fyrirtækin séu í reynd í eigu skattgreiðenda, þar sem þeir eru eigendur nýju bankanna.

Hagfræðingarnir Sigurður Ingólfsson og Guðrún Johnsen benda á það í grein í Morgunblaðinu í gær að verði farin sú leið að stofna umbreytingarsjóði, eins og lífeyrissjóðirnir hafa nú forystu um að gera, myndist markaður fyrir vandræðaeignir bankanna. Að því gefnu að sjóðirnir séu fleiri en einn megi ætla að sanngjarnt verð fáist fyrir eignirnar.

Margir hafa áhyggjur af því að kaup og sala eigna muni fara fram í skjóli nætur og almennir fjárfestar muni ekki sitja við sama borð og gömlu eigendur bankanna og tengdir aðilar. Lögmaður Félags stórkaupmanna, Páll Rúnar Mikael Kristjánsson, sagðist í samtali við Morgunblaðið fyrir helgi engan markað sjá þar sem fyrirtæki væru boðin til sölu. Hallbjörn Karlsson, verkfræðingur og fjárfestir, skrifaði nýlega grein í Morgunblaðið þar sem hann benti m.a. á mikilvægi þess að leita hæstu tilboða hverju sinni með opnu og gagnsæu ferli. Ef það yrði ekki gert væri verið að hlunnfara Íslendinga, eigendur hinna nýju ríkisbanka.