Mamma Mia! Mamma mín kann að meta Mamma Mia! og mamma þín líka.
Mamma Mia! Mamma mín kann að meta Mamma Mia! og mamma þín líka.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Jæja, þá hef ég sinnt skyldu minni. Ég er búinn að horfa á dans- og söngvamyndina Mamma Mia! , þá kvikmynd sem mest hefur verið rætt um af öllum kvikmyndum sem sýndar voru í íslenskum kvikmyndahúsum í sumar.

Jæja, þá hef ég sinnt skyldu minni. Ég er búinn að horfa á dans- og söngvamyndina Mamma Mia! , þá kvikmynd sem mest hefur verið rætt um af öllum kvikmyndum sem sýndar voru í íslenskum kvikmyndahúsum í sumar. Eiginkona mín hefur þrýst á mig í margar vikur, jafnvel mánuði, að horfa á þessa metaðsóknarmynd á Íslandi. Einmitt út af þrýstingnum hef ég þráast við, óþekkur eiginmaður, ekki viljað eyða tíma í þetta gláp enda löngu búinn að fá nóg af mikilli umfjöllun um hana og tali, að ógleymdu ABBA-æðinu sem rann á Íslendinga samhliða sýningum á myndinni.

Ég sá fyrir einum fjórum árum söngleikinn, sem myndin er gerð eftir, í London og fannst hann ágætisskemmtun. Þó ekki eitthvað sem ég væri til í að sjá aftur og aftur og eyða háum fjárhæðum í. Skemmst er frá því að segja að mér fannst myndin heldur slöpp og miklu verri en söngleikurinn nokkurn tíma (í söngleiknum geta leikararnir sungið og dansað) en ætla ekki að fara út í neina kvikmyndagagnrýni hér. Nei, efni þessa pistils er þrýstingurinn sjálfur og áhrif hans, þegar einhver menningarafurð er orðin svo risavaxin tískubóla líkt og þessi kvikmynd að það er orðin óskráð skylda hvers manns að vera með, að neyta hennar. Mest langar mig þá að kreista bóluna, stinga á kýlinu, neita að taka þátt í þessu. Þetta er auðvitað barnalegur mótþrói, ég er ennþá á mótþróaskeiðinu.

Oft fer þó svo að maður lætur til leiðast, forvitnin þrjóskunni yfirsterkari. Maður þarf auðvitað að vita hvað veldur hinu mikla æði. Niðurstaðan, í mínu tilfelli a.m.k., er jafnan sú sama, að verkið verðskuldi ekki lofið eða athyglina.

Málið er þó líklega ekki svo einfalt. Aðdáunin mikla og lofið hefur sín fyrirfram neikvæðu áhrif. Maður metur myndina varla með opnum huga eftir að hafa hlustað í marga mánuði á raus um það hvað hún sé æðisleg og maður verði að sjá hana. Maður býst við því að einhver innistæða sé fyrir öllum lofsöngnum en trúir því samt ekki innst inni. Þannig hefur maður fyrirfram myndað sér skoðun um verkið, búinn að fella dóminn.

Það sama má líklega segja um hljómsveitir og tónlistarmenn, menn gefa sér það að afurðir þeirra séu stórkostlegar, setja spenntir á sig heyrnartólin þegar ný U2- eða Radiohead-plata kemur út og þá sjálfsagt búnir að ákveða að það sem hlustað skal á sé hreinasta snilld, eða hvað? Sjálfsagt virkar þetta líka öfugt, þeir sem þola ekki Sigur Rós setja neikvæðir á sig heyrnartólin, búast við sömu leiðindum og áður og eiga erfiðara með að viðurkenna að þetta sé bara helv... gott!

Ég held að það hafi verið útilokað að ég hefði gaman af Mamma Mia! , ég var búinn að ákveða að myndin væri hundleiðinleg. Ég er því varla hæfur til að meta myndina á hlutlausan hátt, sjálfsagt ætti enginn að taka mark á mér. Allir að horfa á Mamma Mia! Ekki það að ég hafi ekki gaman af ABBA, tónlistin stendur svo sannarlega fyrir sínu. Kannski er það kostur myndarinnar, hvað hún er léleg. Hún er eiginlega svo léleg að hún er í raun góð. Leikararnir standa sig vandræðalega illa, og það er fyndið. Allt er svo yfirkeyrt í taumlausu sprelli og kjánagangi að það er skemmtilegt. Ha? Bíddu, er ég að viðurkenna að ég hafi haft gaman af Mamma Mia! Ég held ég þurfi að fara til læknis.

Hvað gerðist í íslenskum kvikmyndahúsum sumarið 2008. Hvaða múgsefjun var það sem færði myndinni þessar vinsældir? Jú, það hefur tilfinnanlega vantað s.k. „feelgood“-kvikmyndir, þ.e. vellíðunarkvikmyndir. Eftir sjálfsskoðun mína út frá Mamma Mia! hef ég komist að þeirri niðurstöðu að ég er geimvera og að Mamma Mia! hlýtur að vera meistaraverk. Af hverju ætti fólk annars að horfa á myndina aftur og aftur og syngja með og dansa jafnvel? Þetta er ABBA-heilkennið.

Ég veit ekki hversu oft ég hef farið á myndlistarsýningar sem heita eiga frábærar en ekki botnað neitt í neinu, ekki komið auga á dýrðina margumtöluðu. Enda er ég bara geimvera. Þess vegna passa ég mig að segja ekkert sem komið getur upp um uppruna minn, ég kinka bara gáfulega kolli og segi „mmmmmm...“ að hætti þeirra sem allt vita, sem lykilinn hafa að guðdómnum. Ég passa mig að segja engum að ég vildi heldur vera heima að horfa á hasarmynd með Bruce Willis. helgisnaer@mbl.is

Helgi Snær Sigurðsson

Höf.: Helgi Snær Sigurðsson