„ÞAÐ er dýrt að vera Íslendingur“ var svarið sem Halldór Laxness stakk upp í erlendan blaðamann þegar hann spurði skáldið háðslega hvort ekki væri fráleitt fyrir hann og kostnaðarsamt að aka amerísku glæsibifreiðinni sinni á hinum vondu...

„ÞAÐ er dýrt að vera Íslendingur“ var svarið sem Halldór Laxness stakk upp í erlendan blaðamann þegar hann spurði skáldið háðslega hvort ekki væri fráleitt fyrir hann og kostnaðarsamt að aka amerísku glæsibifreiðinni sinni á hinum vondu vegum á Íslandi. Í þessu svari felst umhugsunarefni fyrir okkur um þessar mundir. Einhverjir kunna að segja: Er eitthvert vit í því fyrir fámenna þjóð að halda dauðahaldi í þetta stóra og erfiða land og keppast við uppfylla það táknmál sem gerir hóp manna að sérstakri þjóð ólíkri öðrum þjóðum? Ef til vill ekki segja sumir en þetta er það sem við viljum og teljum að við getum – þess vegna erum við þjóð. Eigið tungumál innsiglar og varðveitir þessa sérstöðu sem kallar á bæði stofnanir og ýmsar þær stellingar sem eru ómissandi í mynd sjálfstæðrar þjóðar Eigin gjaldmiðill talar skýru máli um viljann til að láta taka mark á sjálfstæðisyfirlýsingunum.

En íslenska krónan er heldur niðurlút þessa dagana og virðist eiga fáa vini. Þeir sem áttu að standa vörð um hana tala margir niður til hennar og virðast ekki skilja að krónan er auðvitað ekki verri en þjóðin sem á hana, framferði hennar og ráðslag. Landsmenn geta því horft á sig í þessum spegli sínum og þurfa á krónunni að halda sem mælikvarða á hegðun sína almennt en einkum í fjármálum. Íbyggnir segja menn að því fylgi aukakostnaður að búa við eigin gjaldmiðil og halda í hann; en á ekki þetta við um svo margt sem hin fámenna þjóð er að streitast við að koma fótum undir? Fólkið í dreifbýlu landi býr við fokdýrt vegakerfi, fjölda hafna og vita, landhelgisgæslu og dýr dreifikerfi. Þetta er herkostnaður okkar þjóðar sem hún eftir nánari athugun er fús að greiða til að mega kalla sig frjálsa þjóð í eigin landi. Aðrar þjóðir halda úti stórum herjum og eyða gífurlegum fjárhæðum vegna landvarna. Er okkur vorkunn að bera einhvern umframkostnað vegna hinna ýmsu þátta sem eru drættir í mynd sjálfráðrar þjóðar? Er ekki myndugleiki að búa við eigin gjaldmiðil? Þarf ekki mikla íhugun og þungt vegandi rök ef slíta á þessa sylgju af hátíðarbúningi þjóðarinnar?

Einn stjórnmálaflokkur er tilbúinn að fórna landbúnaði okkar í fánýtri von um lægra verð á innfluttum matvælum.

Gleymum ekki því að bændastéttin er miðstæð í sögu landsins og hugarheimi íbúanna; frá henni kemur endurnýjun inn á lendur stjórnsýslunnar og í skjóli hennar geta menn hlotið endurhæfingu þegar þeir hafa glatað eðlilegu jarðsambandi. Þessa stétt eru kratarnir tilbúnir að veikja svo um munar. Við skiljum það núna, að eigin landbúnaður er lífsnauðsyn og ráða því bæði efnahagsleg sannindi, öryggissjónarmið og heilsufarsleg viðhorf. Með vaxandi kornrækt er að hefjast nýstárleg þróun og brátt munum við neyta brauðsins úr innlendu korni. Við megum sætta okkur við dálítið hærra verð á matvælum en margar þjóðir aðrar á Vesturlöndum og teljum það ekki mikinn herkostnað til að verja landbúnað okkar. Við komumst ekki hjá því að flytja inn einhver matvæli en eigum þá að senda frá okkur ekki minni verðmæti í varningi úr okkar héruðum; það þótti skynsamlegt þegar á þrettándu öld að á þessu sviði ríkti nokkurt jafnvægi. Sveitirnar og líf þjóðarinnar í faðmi þeirra snerta kjarnatilfinningar í landinu og það er brýnt að við varðveitum nauðsynlegan og þjóðlegan atvinnuveg. Íslendingar munu efla og verja sinn landbúnað hvort sem krötum líkar það betur eða verr. Innsta varnarlína samfélagsins liggur um landið sjálft, þræðir hvert heimili og huga hvers fulltíða manns. Það er nú orðið ljóst að fleiri lönd en okkar búa við gjaldmiðla sem reynast veikir á alþjóðlegum markaði og njóta þverrandi trausts. Veit einhver nú hver virðingarröðin verður að ári. Við skulum styðja við innlend fyrirtæki og styrkja krónuna okkar sem best við megum og krefjast þess að henni sé sýnd virðing í öllum áttum. Vonandi falla menn ekki í þá freistni að leggja í bankareisur til að sækja sér óverðskuldaðan skyndihagnað vegna veikrar stöðu íslensku krónunnar

Emil Als, læknir.