Arnþór Sigurðsson
Arnþór Sigurðsson
Arnþór Sigurðsson skrifar um fjáröflun og starf íþróttahreyfingarinnar: "Viljum við að þessi samfélagslega þjónusta og þetta mikla uppeldisstarf lendi í vanda og leggist á hliðina?"

ÞAÐ er deginum ljósara að íþróttahreyfingin á Íslandi mun lenda í miklum fjárhagslegum vanda á komandi ári. Flest ef ekki öll íþróttafélög í landinu eru rekin af iðkendagjöldum, styrkjum frá bæjarfélögum og svo að stórum hluta með styrkjum frá velviljuðum fyrirtækjum. Íþróttir eru og hafa verið stór partur af þjónustu við samfélagið og uppeldi barna og unglinga. Nú stefnir í að þessi þáttur í samfélaginu muni dragast saman sökum fjárskorts. Þrennt mun gerast. Styrkir fyrirtækja minnka stórlega, sveitarfélög eru nú þegar farin að íhuga niðurskurð og fjölskyldur munu draga úr kostnaði og iðkendum mun fækka. Allir þessir liðir eru grunntekjupóstar í starfseminni. Íþróttahreyfingin hefur allar götur frá því að hún varð til hér á landi verið rekin af gjafavinnu áhugasamra einstaklinga. Ungmennafélagsandinn títtnefndi hefur borið hana þá leið sem hún hefur farið í meira en 100 ár. Samfélagið allt hefur notið þess, bæði í uppeldi barnanna okkar og síðan hefur þjóðin skemmtun af íþróttunum og jafnvel tárast af stolti, af þjóðarstolti. Íþróttirnar eru því mikilvægur póstur í menningu okkar sem þjóðar og verður eflaust áfram.

Í mínum huga er því miður komið að þáttaskilum í starfsemi íþróttafélaganna og velti ég því þeirri spurningu upp hvort sveitarfélögin í landinu verði ekki að taka til sín þann þátt sem snýr að fjármögnun og rekstri barna- og unglingastarfs hreyfingarinnar. Skipulagið og framkvæmdin getur áfram verið í höndum sjálfboðaliðanna, íþrótta- og ungmennafélaganna. Margar deildir og félög hafa á sínum snærum fjöldann allan af þjálfurum sem sinna þjálfun fyrir lítið fé og á stundum gefa vinnu sína til þess að starfsemin geti gengið eðlilega fyrir sig. Allt útlit er fyrir það að mörg íþróttafélög þurfi að draga starfsemina saman því fjárhagsvandi blasir við. Það mun leiða af sér fækkun þjálfara og minni starfsemi. Samfélagið okkar verður fátækara fyrir vikið. Hvert og eitt sveitarfélag er stolt af íþróttastarfseminni sem haldið er úti hvarvetna um landið. Þau munu verða fátækari af þeirri menningu þegar sækir fram á næsta ár, sum hver starfsemin mun leggjast af eða verða rekin áfram í mýflugumynd. Viljum við það? Viljum við að þessi samfélagslega þjónusta og þetta mikla uppeldisstarf lendi í vanda og leggist á hliðina? Ég held ekki. Ég vil því hvetja alla sem að þessum málum koma, stjórnarmenn í félögunum, sveitarstjórnarmenn og ekki síst foreldra sem láta sig málin varða, að taka upp þessa umræðu. Taka hana upp með þeim hætti að leita lausna. Leita leiða til þess að íþróttastarfið í landinu verði ekki fyrir þungu áfalli. Ein leiðin er án efa sú að sveitarfélögin taki yfir launaliðinn í barna- og unglingastarfinu, þjálfarakostnaðinn, þannig má tryggja að grunnstarfsemin verði áfram tryggð. Áfallið verður eflaust þungt hjá þeim sem bera ábyrgð á daglegri starfsemi en áfallið verður fyrst og fremst hjá fólkinu sem stólar á þessa starfsemi; börnunum sem eflast og þroskast í þessu umhverfi. Það hlýtur að vera forgangsmál að forða íþróttahreyfingunni undan varanlegum skaða til margra ára.

Höfundur er formaður frjálsíþróttadeildar Breiðabliks.