Góður Nemanja Sovic fór mikinn í liði Breiðabliks gegn sínu gömlu félögum úr liði Stjörnunnar, Jovan Zdravevski reynir hér að stöðva Nemanja.
Góður Nemanja Sovic fór mikinn í liði Breiðabliks gegn sínu gömlu félögum úr liði Stjörnunnar, Jovan Zdravevski reynir hér að stöðva Nemanja. — Morgunblaðið/Ómar
Eftir Sigurð Elvar Þórólfsson seth@mbl.is „ÞEGAR mínir menn hættu að horfa á Nemanja Sovic í sóknarleiknum þá fóru hlutirnir að gerast.

Eftir Sigurð Elvar Þórólfsson

seth@mbl.is

„ÞEGAR mínir menn hættu að horfa á Nemanja Sovic í sóknarleiknum þá fóru hlutirnir að gerast. Það geta allir skotið á körfuna og skorað í þessu liði og við vorum einfaldlega að horfa á Sovic í fyrri hálfleik. Það hefði aldrei dugað til sigurs þrátt fyrir að hann væri í miklum ham,“ sagði Einar Árni Jóhannsson þjálfari Breiðabliks eftir 91:87-sigur liðsins á útivelli gegn Stjörnunni í gær í Iceland Express deild karla í körfuknattleik.

Sovic hóf leiktíðina í herbúðum Stjörnunnar en samningi hans var rift og var greinilegt að hann ætlaði sér að sýna hvað í honum býr. „Ég vissi að ég þyrfti ekki að hvetja hann mikið áfram fyrir þennan leik,“ bætti þjálfarinn við en Blikar sóttu í sig veðrið eftir því sem leið á leikinn. Sovic skoraði 41 stig og tók að auki 17 fráköst.

Það er óhætt að segja að Stjarnan hafi flogið fallega af stað eins og stór flugeldur í gær. En þeir sprungu áður en leikurinn var á enda. Liðið er áfram í næstneðsta sæti með 4 stig og Skallagrímur er án stiga í hinu fallsætinu.

Fannar var hundfúll

Á lokasprettinum gerðist ekkert í sóknarleik Stjörnnunnar og einstaklingsframtakið var það eina sem boðið var upp á í sókninni.

„Við erum bara í vondum málum, það er einfalt. Við eigum í basli að gera eitthvað af viti í lokin á leikjunum. Ég veit eiginlega ekki hvað er að, það er búið að ræða um þessa hluti en það er ekki að skila sér í leikinn. Boltinn hættir að ganga í sóknarleiknum og þá hrynur sóknarleikurinn og varnarleikurinn fylgdi með í því hruni,“ sagði Fannar Helgason miðherji Stjörnunnar en hann hafði hátt í einu leikhléi Stjörnunnar og hafði sitthvað til málanna að leggja. „Ég ætla ekki að tjá mig um það sem ég sagði en við þurfum að laga ýmislegt,“ sagði Fannar.