Villandi? Umrædd auglýsing.
Villandi? Umrædd auglýsing.
JÓLABÓKSÖLUSTRÍÐIÐ er hafið og ekki bara í bókabúðum heldur líka á auglýsingamarkaði. Forlagið auglýsir nú Sögu af forseta sem mest seldu ævisögu á Íslandi, samkvæmt metsölulista Eymundsson.

JÓLABÓKSÖLUSTRÍÐIÐ er hafið og ekki bara í bókabúðum heldur líka á auglýsingamarkaði.

Forlagið auglýsir nú Sögu af forseta sem mest seldu ævisögu á Íslandi, samkvæmt metsölulista Eymundsson. Þetta hefur valdið nokkurri ólgu hjá öðrum bókaútgefendum sem finnst heldur djúpt í árinni tekið því listinn er aðeins gerður samkvæmt sölu í þrettán bókabúðum Eymundsson og því ekki hægt að fullyrða að um mesta sölu á landinu sé að ræða.

Bóksölulisti sem Félagsvísindastofnun tók saman fyrir Morgunblaðið og birtist í blaðinu 26.nóvember, sama dag og listi Eymundsson, sýnir að mest selda ævisagan er Magnea en Saga af forseta situr í öðru sæti. Sá listi nær yfir sjötíu verslanir sem selja bækur á öllu landinu.

Í samkeppnislögum segir í kafla um óréttmæta viðskiptahætti, 2. kafla, 6. grein, að óheimilt sé að veita rangar, ófullnægjandi eða villandi upplýsingar í auglýsingum.

Ekki einsdæmi

Atli Bollason kynningarstjóri Forlagsins segir að það komi skýrt fram í auglýsingunni að Saga af forseta sé mest selda ævisagan samkvæmt metsölulista Eymundsson. Hann tekur ekki undir það að auglýsingin sé villandi. „Umrædd bók er mest selda ævisagan samkvæmt metsölulista Eymundsson. Útgefendur hafa notað þennan metsölulista í auglýsingum svo árum skiptir og það gerir Veröld einnig í ár. Það eina sem skiptir máli í þessu er að geta heimilda og það höfum við gert.“

Kristján B. Jónasson, formaður Félags íslenskra bókaútgefenda, segir að það sé ekkert einsdæmi að metsölulistar séu notaðir á villandi hátt.

„Bókaútgefendur eru á samkeppnismarkaði og við hjá félaginu skiptum okkur ekki af svona deilum. Það eru til siðareglur auglýsenda sem þeim ber að fara eftir, annars er ein leið að kæra til Sambands íslenskra auglýsingastofa,“ segir Kristján. ingveldur@mbl.is

Yfir strikið

„Við höfum gert athugasemd við þessa auglýsingu á heimasíðu okkar og höfum ekki áform um að fara með málið lengra,“ segir Pétur Már Ólafsson hjá bókaforlaginu Veröld, spurður hvort þeir hafi í hyggju að kæra birtingu auglýsingar Forlagsins. En Veröld gefur Magneu , ævisögu Magneu Guðmundsdóttur, út.

„Okkur finnst auglýsingin mjög villandi. Ef þeir hefðu sagt að bókin sé mest selda ævisagan og sett metsölulista Eymundsson undir hefði það sloppið, en með því að bæta við „á Íslandi“ eru þeir að villa um fyrir neytendum,“ segir Pétur og bætir við að þeir hafi farið yfir strikið.