Erill Það er iðulega líf og fjör í afgreiðslu pósthúsa á aðventunni.
Erill Það er iðulega líf og fjör í afgreiðslu pósthúsa á aðventunni. — Morgunblaðið/Sverrir
Eftir Bergþóru Njálu Guðmundsdóttur ben@mbl.is ÞEIR sem ætla að koma jólapökkum til ættingja og vina utan Evrópu ættu að fara að haska sér þar sem síðasti skiladagur fyrir þá er næstkomandi föstudag.

Eftir Bergþóru Njálu Guðmundsdóttur

ben@mbl.is

ÞEIR sem ætla að koma jólapökkum til ættingja og vina utan Evrópu ættu að fara að haska sér þar sem síðasti skiladagur fyrir þá er næstkomandi föstudag. Síðasti skiladagur fyrir jólapakka og jólakort innanlands er 19. desember.

Ágústa Hrund Steinarsdóttir, markaðsstjóri Póstsins, segir starfsfólk fyrirtækisins komið í jólaskap. „Þetta fer svipað af stað hjá okkur og undanfarin ár,“ segir hún og tekur fyrir það að einhver kreppa sé í jólasendingum í ár. Hún segir ávallt mikla stemningu innanhúss hjá Póstinum um þessar mundir. „Nóvember og desember er alltaf aðalannatíminn hjá okkur og við hlökkum bara til.“

Jólafrímerkin í ár voru hönnuð af Heiðari Jökli Hafsteinssyni og Konráð Kárasyni Þormar sem báðir eru nemendur í þriðja bekk Nesskóla í Neskaupstað. Þeir urðu hlutskarpastir í samkeppni um jólafrímerkin sem haldin var meðal grunnskólanema í vor. Skarta frímerkin í ár jólakettinum og Stekkjarstaur og er jólaskraut póstsins, svokölluð jólaprýði sem nú er gefin út í þriðja sinn, búið til eftir sömu myndum.

„Svo hefur fólk tekið mjög vel í persónulegu frímerkin, sem við vorum að setja á markað,“ segir Ágústa og útskýrir að um sé að ræða frímerki með persónulegum ljósmyndum fólks, en gengið er frá slíkum pöntunum á netinu í gegn um heimasíðu Póstsins. „Það hefur ekki tíðkast hingað til að lifandi fólk sé á frímerkjum en núna getur fólk hreinlega farið að safna eigin fjölskyldu á frímerkjum.“

Hvenær þarf að senda jólapóstinn?

5. desember Síðasti öruggi skiladagur jólapakka í flugpóst til landa utan Evrópu.

8. desember Síðasti skiladagur jólakorta til Evrópu í B-póst og utan Evrópu í A-póst.

10. desember Síðasti skiladagur jólakorta til Norðurlanda í B-póst.

12. desember Síðasti öruggi skiladagur jólapakka í flugpóst til Evrópu.

15. desember Síðasti skiladagur jólakorta til Evrópu í A-póst.

19. desember Síðasti öruggi skiladagur jólapakka og jólakorta innanlands.