Virkjað Virkjanaframkvæmdir eru í nokkurri óvissu vegna erfiðleika á lánamörkuðum. Framkvæmdir sem fyrirhugaðar voru á næsta ári eru í óvissu.
Virkjað Virkjanaframkvæmdir eru í nokkurri óvissu vegna erfiðleika á lánamörkuðum. Framkvæmdir sem fyrirhugaðar voru á næsta ári eru í óvissu. — Morgunblaðið/RAX
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Magnús Halldórsson magnush@mbl.is Umhverfisvæn orka hefur um nokkurt skeið verið talin helsta vopn þjóðarinnar í endurreisnarstarfinu sem bíður hennar eftir hrun fjármálakerfisins.

Eftir Magnús Halldórsson

magnush@mbl.is

Umhverfisvæn orka hefur um nokkurt skeið verið talin helsta vopn þjóðarinnar í endurreisnarstarfinu sem bíður hennar eftir hrun fjármálakerfisins. Erlendir fjárfestar hafa á undanförnum árum sýnt því mikinn áhuga að setja upp orkufreka starfsemi hér á landi.

Hér er nóg af orku sem orkufyrirtækin vilja nýta. Pólitísk samstaða um hvar eigi að virkja og hvar ekki er þó ekki fyrir hendi og hafa þau mál verið leyst jafnóðum hingað til, en ekki með heildstæðri áætlun um virkjunarsvæði og friðlönd.

Það úrlausnarefni er þó ekki brýnast að leysa eins og mál standa nú. Aðgengi að lánsfé er ekki fyrir hendi fyrir orkufyrirtæki landsins og því eru fyrirhugaðar framkvæmdir, stórar sem smáar, í uppnámi.

Sérstaklega er mikið í húfi fyrir Landsvirkjun, Orkuveitu Reykjavíkur (OR) og Hitaveitu Suðurnesja (HS). Starfsemi þessara fyrirtækja hefur öðru fremur byggst á því að fá lán erlendis til að fjármagna framkvæmdir. Gengisfall krónunnar hefur haft alvarlegar afleiðingar fyrir öll fyrirtækin, en þó helst OR og HS. Efnahagsreikningur Landsvirkjunar er í dollurum, þar sem tekjurnar af orkusölu til álvera skila sér í þeim gjaldmiðli. Þetta dregur úr áhrifum af gengisfalli krónunnar.

Hjá OR og HS eru hlutirnir með öðrum hætti. Gengisfall krónunnar hefur aukið skuldabyrði fyrirtækjanna um meira en hundrað prósent. Staðan er verri hjá OR þar sem stærra hlutfall tekna er í íslenskum krónum.

Eiginfjárhlutfall OR er komið niður í 8 til 10 prósent samkvæmt heimildum Morgunblaðsins en það var um 50 prósent í byrjun ársins. Einkum er það yfir hundrað milljarða hækkun skulda í erlendri mynt sem gerir það að verkum að eiginfjárhlutfallið hefur lækkað hratt. Hjá HS hafa skuldirnar hækkað úr 12 milljörðum í upphafi ársins í tæplega 30 nú.

Mikil og hröð skuldaaukning á þessu ári, ásamt lokuðum lánamörkuðum, setur starfsemi orkufyrirtækjanna í landinu í nokkra óvissu.

Framkvæmdir á ís

„Endurskoðuð fjárhagsáætlun hjá okkur gerir ráð fyrir um fimmtán milljörðum minni umsvifum en áður var að stefnt,“ sagði Hjörleifur Kvaran, forstjóri OR, í samtali við Morgunblaðið í gær. Stjórn OR samþykkti á fundi sínum á föstudag endurskoðaða fjárhagsáætlun sem gerir ráð fyrir fyrrnefndum samdrætti. Mest munar þar um að framkvæmdir við Hverahlíðavirkjun sem áttu að hefjast á næsta ári eru ekki inni á áætlun. Til stóð að ljúka gerð virkjunarinnar árið 2010 og átti heildarkostnaður að nema um 20 milljörðum króna. „Það var samþykkt að endurskoða málin í mars á næsta ári, þar sem okkar áform taka vitaskuld mið af veikingu krónunnar og lokuðum lánamörkuðum.“

Stjórn Landsvirkjunar hefur enn ekki samþykkt fjárhagsáætlun og ljóst er að framkvæmdir upp á um 10 milljarða króna eru í nokkurri óvissu. Þar er helst lokafrágangur vegna Kárahnjúkavirkjunar upp á um 4,5 milljarða, rannsóknir og undirbúningur framkvæmda upp á 1,7 milljarða og framkvæmdir við Búðarhálsvirkjun upp á 2,8 milljarða.

Óvíst um framhald

FJÁRMÖGNUN vegna álversframkvæmda í Helguvík er í nokkurri óvissu eftir fall íslensku bankanna þriggja, Glitnis, Landsbankans og Kaupþings, eins og greint hefur verið frá í Morgunblaðinu. Forsvarsmenn Norðuráls freista þess nú að útvega fjármagn fyrir verkefnið erlendis. Einnig er orkuöflun fyrir álverið í nokkurri óvissu þar sem framkvæmdir Hitaveitu Suðurnesja og Orkuveitu Reykjavíkur er tengjast álverinu eru í uppnámi. Þá hefur enn ekki verið undirritað samkomulag milli Landsvirkjunar og Rio Tinto Alcan, sem kallar á orku frá Búðarhálsvirkjun.

Samkomulagið er forsenda þess að Landsvirkjun geti farið út í framkvæmdir, auk þess sem fyrirtækið verður að fá lán til þess að geta farið út í framkvæmdir.