Þórólfur Matthíasson
Þórólfur Matthíasson
Eftir Þórólf Matthíasson: "Stímabrakssala á Glitnisbréfum og þak á vísitöluhækkunum íbúðalána, býr ekki til ný verðmæti."

VERÐ á fasteignum og hlutabréfum og öðrum eignum ræðst alla jafna af þeim tekjum sem eignirnar skapa eiganda sínum beint eða óbeint. En ekki alltaf. Stundum er hækkun á verði fasteigna og hlutabréfa byggð á almennri bjartsýni fjárfesta. Þeir kaupa hlutabréf og aðrar eignir vegna þess að þeir trúa því að verð þeirra eigi eftir að hækka enn meira. Og vegna þess að erfitt er um vik að auka framboð eigna þá finnur aukin eftirspurn eftir hlutabréfum og fasteignum sér farveg í hærra verði, rétt eins og blaðra sem stækkar þegar lofti er blásið í hana. Bjartsýni hinna kaupglöðu fjárfesta hefur þar með verið staðfest og hægt að bæta nýju lofti í verðblöðruna. Blaðran springur þegar nógu margir fjárfestar átta sig á að tekjurnar af eignunum standa ekki undir fjármagnskostnaði sem tengist eignahaldinu. Þróun úrvalsvísitölunnar íslensku frá 2001 til miðs árs 2007 er glöggt dæmi um eignaverðsblöðru.

Blaðafregnir liðinna daga sýna okkur hvað gerist rétt í þann mund sem eignaverðsblaðran íslenska var að bresta. Stjórnendur eignarhaldsfélagsins Giftar gerðu samning við eigendur Exista um að selja ekki bréf sem Gift átti í Exista meðan verð Existabréfa færi lækkandi. Og stjórnendur Glitnis stofnuðu til Stíms og lánuðu því fyrirtæki fé til að kaupa hlutabréf í Glitni og einnig bréf FL Group sem var einn af stóru eigendunum í Glitni. Þessum aðgerðum hefur líklega verið ætlað að fá almenna fjárfesta til að blása aðeins meira lofti í ofurþanda blöðruna þó loft væri farið að leita út úr smágötum hingað og þangað. Hvort tilgangurinn hjá þeim aðilum sem að þessum gjörningum komu var að senda Svarta-Pétur íslenska útrásarundursins í fangið á öðrum þátttakendum eða hvort tilgangurinn var sá einn að halda þrýstingi á blöðrunni skal ósagt látið. En eitthvað hafa menn ætlað sér með þessu stímabraki öllusaman.

Sprungin eignaverðsblaðran snertir ekki bara eigendur eignarhaldsfélaga og banka. Sparnaður venjulegs fólks er í formi bankainnistæðna og hreinnar eignar í íbúðarhúsnæði. Sprungin verðblaðran ónýtti hluta sparifjár þeirra sem höfðu lagt það í hlutabréf eða verðbréfasjóði. Sprungin verðblaðran lækkar verð íbúðarhúsnæðis verulega en hækkar gengis- og vísitölubundin lán. Því vilja margir feta í fótspor stímabraksmanna og skrökva að markaðnum. Ekki með því að skrökva upp hlutabréfaverðinu heldur með því að skrökva niður verðinu á vísitölulánunum. Það vilja þeir gera með því að takmarka áhrif verðlagsvísitölunnar á höfuðstól vísitölubundinna lána. Tilgangurinn er frómur, að draga úr áhrifum þess að verðblaðran sprakk á efnahag almennings.

Það að setja einhvers konar bönd á áhrif verðlagsþróunar á vísitölubundin lán býr ekki til ný verðmæti. Ekkert frekar en stímabrakssala á Glitnishlutabréfum. Takist lánþegum Íbúðalánasjóðs að koma af sér Svarta Pétrinum þá lendir hann í fanginu á einhverjum öðrum. Og sá einhver annar er enginn annar en hinn almenni skattgreiðandi og hinn almenni lífeyrisþegi. Hinn almenni skattgreiðandi myndi þurfa að jafna halla Íbúðalánasjóðs vegna vísitölufiktsins. Hinn almenni skattgreiðandi myndi líka þurfa að jafna halla nýju ríkisbankanna vegna þeirra skakkafalla sem þeir yrðu fyrir vegna vísitölufikts. Hinn almenni lífeyrisþegi myndi fá lífeyri sinn skertan vegna enn lækkandi eignastöðu lífeyrissjóðanna. Hinn almenni lífeyrisþegi og hinn almenni skattgreiðandi hafa þegar fengið meira en fullan spilastokk af Svörtu-Pétrum og eru tæpast borgunarmenn fyrir fleirum í bili.

Verðtrygging húsnæðislána og háir raunvextir slíkra lána eru óhjákvæmilegur fylgifiskur þess að notast við íslensku krónuna sem lögeyri í viðskiptum á Íslandi. Þeir sem vilja losna undan verðtryggingu fjárskuldbindinga skyldu hafa það í huga að á skal að ósi stemma.

Höfundur er prófessor í hagfræði við hagfræðideild Háskóla Íslands.