Anton Gylfi Pálsson
Anton Gylfi Pálsson — Morgunblaðið/Júlíus
EVRÓPUMÓT kvenna í handknattleik hefst í dag í Makedóníu og þar eiga Íslendingar þrjá fulltrúa. Helga Magnúsdóttir er í mótstjórn og Anton G. Pálsson og Hlynur Leifsson dómarar. Leikið er í tveimur borgum og lýkur mótinu sunnudaginn 14. desember.

EVRÓPUMÓT kvenna í handknattleik hefst í dag í Makedóníu og þar eiga Íslendingar þrjá fulltrúa. Helga Magnúsdóttir er í mótstjórn og Anton G. Pálsson og Hlynur Leifsson dómarar. Leikið er í tveimur borgum og lýkur mótinu sunnudaginn 14. desember.

Íslenski hópurinn hélt í gær frá Skopje til borgarinnar Ohrid þar sem tveir riðlar verða, B- og C-riðill. Í B-riðli leika Noregur, Portúgal, Spánn og Úkraína en í C-riðli Rússland, Svíþjóð, Austurríki og Hvíta-Rússland.

Það verða því í það minnsta fjórir Íslendingar við störf í Ohrid meðan á EM stendur því auk þremenninganna er Þórir Hergeirsson aðstoðarlandsliðsþjálfari Norðmanna, sem eru núverandi Evrópumeistarar.

Þeir Anton og Hlynur, sem nú dæma í fyrsta sinn á lokamóti hjá fullorðnum, dæma sinn fyrsta leik í kvöld og frumraunin verður viðureign Rússa og Austurríkismanna í C-riðli. Rússar urðu í öðru sæti á síðasta Evrópumeistaramóti en Austurríki hafnaði þá í tíunda sæti.

Anton og Gylfi dæmdu í gærkvöldi æfingaleik í íþróttahöllinni í Skopje þar sem heimaliðið lék við Spánverja, en leikurinn var til að prufukeyra alla aðstöðu í höllinni.

Tveir riðlanna eru leiknir í Skopje en í A-riðli leika Frakkland, Ungverjaland, Danmörk og Rúmenía og í D-riðli eru Þjóðverjar, Króatar, Makedónar og Serbar. skuli@mbl.is