BARACK Obama, verðandi forseti Bandaríkjanna, skýrði frá því á blaðamannafundi í Chicago í gær hvaða einstaklingar myndu leiða öryggis- og utanríkismál í stjórn hans, nú þegar um sjö vikur eru þangað til hann sver embættiseið 20. janúar.

BARACK Obama, verðandi forseti Bandaríkjanna, skýrði frá því á blaðamannafundi í Chicago í gær hvaða einstaklingar myndu leiða öryggis- og utanríkismál í stjórn hans, nú þegar um sjö vikur eru þangað til hann sver embættiseið 20. janúar.

Valið á Hillary Clinton í embætti utanríkisráðherra kemur ekki á óvart. Það hafði legið í loftinu síðasta hálfa mánuðinn eða svo. Sömu sögu er að segja um valið á Robert Gates í stöðu varnarmálaráðherra, enda almennt búist við að hann héldi embættinu áfram, að minnsta kosti um stundarsakir, eftir að hafa gegnt því um tveggja ára skeið í ríkisstjórn George W. Bush forseta.

Brýtur blað fyrir blökkumenn

Það var einnig eftir bókinni að Eric Holder skyldi vera útnefndur dómsmálaráðherra, fyrstur blökkumanna. Þá var James L. Jones, fyrrverandi yfirmaður bandaríska heraflans í Evrópu, skipaður þjóðaröryggisráðgjafi, Janet Napolitano, ríkisstjóri Arizona, verður ráðherra heimavarnarmála og Susan Rice, yfirráðgjafi Obama í utanríkismálum í kosningabaráttunni, næsti sendiherra BNA hjá SÞ. baldura@mbl.is

Í hnotskurn
» Madelaine Albright varð fyrst kvenna utanríkisráðherra BNA árin 1997-01.
» Condoleezza Rice er önnur í röðinni, en hún hefur gegnt þeirri stöðu frá 2005.
» Með því að útnefna Gates stendur Obama við það loforð að minnst einn repúblikani verði í ráðherraliði hans.