[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Einar Fal Ingólfsson efi@mbl.is Getur verið að ráðgjafar forsætis-, viðskipta- og utanríkisráðherra hafi ekki áttað sig á því hvar þeir stilltu ráðherrunum upp á blaðamannafundum í Ráðherrabústaðnum?

Eftir Einar Fal Ingólfsson

efi@mbl.is

Getur verið að ráðgjafar forsætis-, viðskipta- og utanríkisráðherra hafi ekki áttað sig á því hvar þeir stilltu ráðherrunum upp á blaðamannafundum í Ráðherrabústaðnum? Aftur og aftur birtust ráðamenn áhyggjufullir á svip og töluðu um bjartsýni, þolinmæði og líflínur, þar sem þeir stóðu við alræmdasta aftökustað landsins, Drekkingarhyl í Öxará.

Jóhannes Sveinsson Kjarval málaði verkið árið 1940. Það vor dróst þjóðin inn í annars konar styrjöld; breskir hermenn eru í landinu er verkið er málað. Verkið nefnist Frá Þingvöllum og hefur verið í eigu Listasafns Íslands frá árinu 1988. Frá árinu 2000 hefur það hangið á vegg Ráðherrabústaðarins og ekki verið sýnt annars staðar – fyrr en það varð miðdepill fréttamynda; Drekkingarhylur rammaður inn af tveimur ráðherrum, eins og tákn fyrir það sem væri framundan í lífi þjóðarinnar.

Snemma á síðustu öld var Drekkingarhylur eyðilagður er haft neðan hans var sprengt burtu til að koma fyrir „einhverri ófegurstu brú sem getur“ svo vitnað sé í Björn Th. Björnsson. „Áður var þetta djúpur hylur, eða svelgur betur sagt, með þröngu klettahafti.“ Þarna var ógæfusömum konum drekkt á Alþingi, frá 1590 til 1734 – konum sem „miskunnað höfðu sig yfir holdsins óþreyju eða verið bornar ofurliði í vetrardimmri baðstofu“ og framið hórdómsbrot.

Konurnar voru leiddar fram á klettahaftið og troðið þar með valdi í poka sem steypt var yfir höfuðið. Reipi var bundið um þær miðjar og þeim hrint fram af og haldið niðri í vatninu með priki uns ekkert hreyfðist meir.

Jóhannes Kjarval málaði ótölulegan fjölda verka á Þingvöllum um nær hálfrar aldar skeið. Setti hann víða upp trönur sínar í Þingvallahrauni, málaði sum mótíf aftur og aftur, en þetta er ekki algengt. Hér er horft norðvestur úr Almannagjá, yfir Drekkingarhyl og Öxará sem streymir undir brúna niður á vellina; í bakgrunninum eru Ármannsfell og Skjaldbreiður uppi í horninu. Áratuginn á undan hafði hann verið að þróa kúbísku pensilskriftina, sem glögglega má sjá birtast í grjótinu á miðjum myndfletinum, og vatninu, á meðan for- og bakgrunnur eru dregnir með breiðari og hraðari pensilstrokum. Oft hefur verið sagt að á þessum árum hafi Kjarval kennt þjóðinni að meta íslenska náttúru; hið smáa og hið formræna, með því að beina sjónum að hrauni, grjóti og mosa í tjáningarríkum verkunum.

Forráðamenn þjóðarinnar stilltu sér nokkrum sinnum upp við Drekkingarhyl á liðnum vikum og víða hafði fólk orð á táknrænni merkinu staðsetningarinnar. Einn bloggarinn sagði þetta sýna að „ætlunin er að drekkja heimilunum í skuldum“, annar sagði Drekkingarhyl minnisvarða um „myrkan kafla í sögu þjóðarinnar“. Einhverjir gagnrýndu uppstillinguna: „PR-ráðgjafi með fullu viti hefði sennilega ekki haft Drekkingarhyl milli þeirra,“ skrifaði enn einn bloggari.

Það kemur ekki á óvart að á síðustu blaðamannafundum Geirs H. Haarde og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur er bakgrunnurinn allt annar. Þau tala nú til þjóðarinnar úr Þjóðmenningarhúsinu og á bak við þau er reffilegur Hannes Hafstein, fyrsti ráðherra Íslands, vonarstjarna nýrra tíma í stjórnmálunum, í portretti sem Kristín Jónsdóttir málaði af honum á öðrum áratug liðinnar aldar.

Frá Þingvöllum

Eftir Jóhannes Sveinsson Kjarval. Hann fæddist að Efri-Ey í Meðallandi árið 1885 og lést í Reykjavík árið 1972. Verkið af Drekkingarhyl í Öxará málaði Kjarval árið 1940 og er það eign Listasafns Íslands.

Verkið kom í eigu Listasafnsins árið 1988, er Sigríður Jónsdóttir gaf það til minningar um eiginmann sinn, Kristján Jónsson.

Verkið Frá Þingvöllum hefur verið í Ráðherrabústaðnum síðan árið 2000. Það hefur ekki verið sýnt annars staðar á þeim tíma, en blasti við þjóðinni á blaðamannafundum ráðherranna í vetur.

Leiðrétting 3. desember - Gaf málverk til minningar um Magnús

RANGT var farið með föðurnafn Sigríðar Helgadóttur í blaðinu í gær, í grein um málverk Jóhannesar Kjarvals Frá Þingvöllum . Sigríður gaf Listasafni Íslands verkið til minningar um Kristján Jónsson, eiginmann sinn. Beðist er velvirðingar á mistökunum.