Adda Sigurjónsdóttir
Adda Sigurjónsdóttir
Adda Sigurjónsdóttir skrifar um niðurskurð hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja: "Heilbrigðisstofnun Suðurnesja hefur verið fjársvelt árum saman og fengið framlög sem eru tugum prósenta minni en önnur sjúkrahús fá miðað við fjölda."

ÉG get ekki orða bundist yfir þeim fréttum að Heilbrigðisstofnun Suðurnesja hafi fengið fyrirmæli um að draga saman rekstur sinn um 10%. Auðvitað geri ég mér grein fyrir að nú þurfa allir að spara og tímarnir séu erfiðir en spyr hvort rétt sé að fara í flatan niðurskurð burtséð frá því hvort rétt sé gefið?

Heilbrigðisstofnun Suðurnesja hefur verið fjársvelt árum saman og hefur fengið tugum prósenta minni fjárframlög en það umdæmissjúkrahús sem næstlægst framlög hefur fengið miðað við höfðatölu, fjölda aldraðra, barna og öryrkja. Fyrir slíka stofnun er að sjálfsögðu alveg ómögulegt að draga saman um 10% til viðbótar því hér hefur verið leitað allra ráða til að hagræða í langan tíma.

Suðurnesjabúar hafa greitt hluta af skatttekjum sínum til heilbrigðiskerfisins líkt og aðrir landsmenn og hljóta því að eiga rétt á þjónustu á móti sem er réttlátlega skipt og tekur mið af aðstæðum hér. Talað hefur verið fyrir daufum eyrum og þrátt fyrir að hér sé mesta fólksfjölgunin á landsvísu hefur ekki verið aukið við framlög til stofnunarinnar með varanlegum breytingum á grunnútreikningum.

Ég vil benda á að Heilbrigðisstofnun Suðurnesja ætti að geta haft töluverð sóknarfæri með tilliti til starfsmanna, nálægðar við flugvöllinn og fjölda frábærra fagaðila sem nú hefur verið sagt upp. Ég segi sóknarfæri því mér finnst að svona stofnun ætti að vera frjálst að leigja frá sér aðstöðu til að drýgja tekjur sínar svo hún nái að uppfylla kröfur almennings um þjónustu. Í stað þess að loka skurðdeildum eigum við að reyna að laða að aðila til að leigja ónýtta tíma, stefna að heilsutúrisma og gera stofnunina að tekjulind en ekki að olnbogabarni. Þannig getur stofnunin drýgt tekjur sínar með að selja aðgang að húsnæði, starfsmönnum og annarri þjónustu.

Ekki á að skipta máli hvort um sé að ræða einkarekstur eða opinberan rekstur svo lengi sem við veitum sem besta þjónustu fyrir sem lægst verð og aðalviðskiptavinurinn fyrir grunnheilbrigðisþjónustu sé ríkið. Ríkið er almenningurinn sem á rétt á ákveðinni lágmarksþjónustu og hana er auðveldara að veita ef nýting á húsnæði og tækjakosti er góð. Þannig er hægt að laða að viðskipti sem auðvelda svæðinu að ná fram fullkominni aðstöðu og þjónustu með annars vegar fjárframlögum sem eiga sér einhverja stoð í fjölda þeirra sem sækja þurfa þjónustuna og hins vegar aðsókn í valaðgerðir sem almenningur og ferðamenn vilja eyða peningunum sínum í.

Markmið í rekstri í heilbrigðisþjónustu eru ólík markmiðum í öðrum rekstri. Hér hlýtur tilgangurinn að vera sá að fá sem mesta og besta þjónustu fyrir sem minnstan pening. Ég tel að löngu sé tímabært að við tökum heilbrigðiskerfið okkar föstum tökum, förum í gæðastjórnun og hagræðingu innan þess og horfumst í augu við að til þess að hagkvæmt sé að fjárfesta í dýrum tækjum þurfum við að auka viðskipti með okkar frábæru þjónustu. Hingað til hefur svarið við samdrætti alltaf verið að loka deildum og segja upp fólki í stað þess að nýta þjónustuna betur, draga úr sóun og bæta skipulag. Horfa þarf á heildarpakkann. Líkt og í öðrum rekstri þurfum við að skoða aðferðir til að ná fram meiri tekjum og til þess þurfum við að selja meiri þjónustu á sviðum utan grunnþjónustunnar.

Höfundur er sjúkraþjálfari og stundar meistaranám í stefnumótun og stjórnun á heilbrigðissviði.

Höf.: Adda Sigurjónsdóttir