GRINDVÍKINGAR gefa KR-ingum ekkert eftir í toppbaráttunni í Iceland Express-deild karla í körfuknattleik. Grindavík sigraði í gærkvöldi Snæfell 93:81 í 9. umferð deildarinnar og hafa einungis tapað einum leik en það var einmitt gegn toppliði KR. Snæfell er hins vegar með fjóra sigra eftir níu leiki.
Eftir Kristján Jónsson

Bæði lið buðu upp á ágætan sóknarleik sem var á kostnað varnarleiksins eins og gefur að skilja. Leikurinn var ansi kaflaskiptur því Grindvíkingar byrjuðu af krafti en þá tóku Hólmarar rispu og komust inn í leikinn. Þetta gerðist einnig í síðari hálfleik en í síðasta leikhlutanum fór breiddin að segja til sín. Grindvíkingar nýttu sér hana og keyrðu upp hraðann með leikstjórnanda sinn Arnar Frey Jónsson í broddi fylkingar.

Svæðisvörnin gekk upp

,,Þetta var erfiður leikur. Þeir eru stórir og sterkir. Það er því erfitt að berjast við þá undir körfunni. Við urðum að leggja okkur alla fram í því en þetta var bara skemmtilegt verkefni. Við fórum í svæðisvörn seint í leiknum því þeir voru ekki búnir að vera heitir í þriggja stiga skotum fyrir utan Sigga. Það gekk upp,“ sagði Arnar í samtali við Morgunblaðið að leiknum loknum. Hann er sammála því að Grindvíkingar hafi hraðann fram yfir Hólmara.

,,Við erum náttúrlega með átta leikmenn sem geta allir hlaupið. Þeir eru stórir og spila mest á sex mönnum. Þeir verða því fljótt þreyttir og eru ekki með nægilega dýpt í leikmannahópi sínum til þess að halda í við okkur í fjóra leikhluta. Menn eru bara búnir í síðasta leikhlutanum og við keyrðum bara á þá,“ sagði Arnar sem var óvenju drjúgur í stigaskorun og var stigahæstur Grindvíkinga með 22 stig en hann gaf jafnframt 6 stoðsendingar auk þess að stela boltanum fjórum sinnum. Gamla kempan, Brenton Birmingham, skoraði 18 stig fyrir Grindavík sem og Páll Axel Vilbergsson.

Hjá gestunum úr Stykkishólmi átti Hlynur Bæringsson mjög góðan leik og tók hvorki fleiri né færri en 21 frákast. Tölfræði hans í leiknum er raunar mjög áhugaverð. Hlynur skoraði 15 stig og gaf 9 stoðsendingar. Hann var því einni slíkri frá þrefaldri tvennu eins og það er kallað. Auk þess stal hann boltanum fjórum sinnum og varði sex skot Grindvíkinga. Hlynur þjálfar lið Snæfells ásamt Sigurði Þorvaldssyni, samherja sínum í landsliðinu, en Sigurður var stigahæstur Hólmara með 26 stig.

,,Vildum halda þeim undir 80“

,,Þeir keyrðu hraðann vel upp og fengu á köflum að spila mjög fast. Ég vil ekki kenna þreytu um tapið því Grindvíkingarnir voru bara betri en við,“ sagði Sigurður við Morgunblaðið þegar úrslitin lágu fyrir. Honum fannst varnarleikur liðsins vera slakur. ,,Mér fannst við vera ryðgaðir, sérstaklega í vörninni. Færslan í varnarleiknum hjá okkur var ekki eins og hún er vanalega. Við náðum ekki að stjórna hraðanum eins og við vildum. Þeir skoruðu 93 stig sem okkur finnst vera allt of mikið. Þeir eru kannski vanir að skora mikið en við vildum halda þeim undir 80 stigum. Við gerðum bara of mikið af mistökum í vörninni sem við erum ekki vanir að gera.“

Í hnotskurn
» Grindvíkingar eru í 2. sæti í úrvalsdeild karla í körfuknattleik eftir sigur á Snæfelli 93:81.
» Leikstjórnandi Grindvíkinga, Arnar Freyr Jónsson, nýtti hraðann vel og skoraði 22 stig.
» Miðherjinn Hlynur Bæringsson var einni stoðsendingu frá því að ná þrefaldri tvennu fyrir Snæfell. Hlynur tók fimm fráköstum minna en allt Grindavíkurliðið.