Trúarrugl „Myndin er vissulega skondin á köflum en sú aðferð Mahers að fanga sanntrúaða viðmælendur sína í rökflækjum er ekki sniðug nema um skamma hríð,“ segir meðal annars í dómi gagnrýnanda.
Trúarrugl „Myndin er vissulega skondin á köflum en sú aðferð Mahers að fanga sanntrúaða viðmælendur sína í rökflækjum er ekki sniðug nema um skamma hríð,“ segir meðal annars í dómi gagnrýnanda.
Leikstjórn: Larry Charles. Aðalhlutverk: Bill Maher. Bandaríkin, 101 mín.

GRÍNHEIMILDARMYNDIN Trúarrugl ( Religulous ) hverfist um ferðalag bandaríska sjónvarpsmannsins Bills Mahers um heiminn með það að markmiði að leita svara við ýmsum spurningum um eðlisrök trúarbragða. Maher, sem þekktastur er fyrir spjallþætti sína Politically Incorrect , á ekki í vandræðum með að draga fram þversagnir í trúarkerfum heimsins en segja má að honum fatist flugið þegar að næsta skrefi í umræðunni kemur. Myndin er vissulega skondin á köflum en sú aðferð Mahers að fanga sanntrúaða viðmælendur sína í rökflækjum er ekki sniðug nema um skamma hríð. Til þess að hafa eitthvað til málanna að leggja hefði verið nauðsynlegt að rýna handan þversagnanna og rökvillnanna en Maher lætur sér nægja að nappa hvern viðmælandann á fætur öðrum í rökræðum og hlakka svo yfir því.

Ljóst er að ferðalangurinn ber takmarkaða virðingu fyrir trúarbrögðum og verður það að teljast Maher til tekna að hann gerir ekki upp á milli þeirra. Gyðingdómur, kristni og íslam jafnt sem vísindakirkjan eru tekin í bakaríið en Maher gætir hins vegar ekki lágmarkshlutleysis í framsetningu sinni á sjónarmiðum viðmælenda og líður myndin fyrir það, sem og hugmyndaskortinn sem birtist í síendurteknu klifi um rökvillur. Ef Trúarrugl hefur einhvern boðskap fram að færa þá er hann sá að heiminum stafi veruleg hætta af trúfólki í pólitískum valdastöðum. Þessu ágæta sjónarmiði er hins vegar lítill greiði gerður með framsetningaraðferðum Mahers.

Heiða Jóhannsdóttir