ENGIN niðurstaða liggur enn fyrir varðandi persónulegar ábyrgðir starfsmanna Kaupþings á lánveitingum sem þeir fengu til hlutabréfakaupa í bankanum. Lánveitingarnar nema samtals um 53 milljörðum króna.

ENGIN niðurstaða liggur enn fyrir varðandi persónulegar ábyrgðir starfsmanna Kaupþings á lánveitingum sem þeir fengu til hlutabréfakaupa í bankanum. Lánveitingarnar nema samtals um 53 milljörðum króna. Samkvæmt upplýsingum frá bankanum er málið inni á borði stjórnar nýja Kaupþings sem er að safna saman gögnum og bíða eftir lögfræðiáliti um málið. Ekki er hægt að fá upplýsingar um hvenær niðurstöðunnar sé að vænta.

Morgunblaðið skýrði frá því þann 3. nóvember að hópur stjórnenda og lykilstarfsmanna Kaupþings væri með yfirlýsingu, undirritaða af Hreiðari Má Sigurðssyni, fyrrum forstjóra, í höndunum um að þeir þyrftu ekki að ganga persónulega í ábyrgð fyrir ofangreindum lánveitingum. Þremur dögum síðar var send yfirlýsing frá Finni Sveinbjörnssyni, bankastjóra Nýja Kaupþings, um að hópur starfsmanna hefði afhent stjórn bankans tillögu til úrlausnar fyrir hönd starfsmanna þann 22. október. Þar var leitað eftir samþykki fyrir því að leita samninga við starfsmennina um greiðslu á lánunum. thordur@mbl.is